Efnahagsmál - 

13. ágúst 2004

Skattlagning tekna af vinnu og fjármagni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattlagning tekna af vinnu og fjármagni

Í framhaldi af álagningu skatta og framlagningu skattskrár hafa eðlilega farið fram nokkrar umræður um skattamál. Að þessu sinni hefur samanburður á skattlagningu launatekna og fjármagnstekna verið fyrirferðamikill. Í ljósi mikillar hækkunar á verði innlendra hlutabréfa á síðasta ári og mikils mögulegs söluhagnaðar hafa ýmsir látið í ljósi þá skoðun að fjármagns-tekjuskatturinn sé of lágur og að það þurfi að hækka hann, einkum af réttlætisástæðum. Í þessari umræðu gætir oft tilhneigingar til of mikilla einfaldana, sem einkum felast í samanburði á skatthlutföllunum einum saman, sem leiðir til þess að menn draga gjarnan rangar ályktanir.

Í framhaldi af álagningu skatta og framlagningu skattskrár hafa eðlilega farið fram nokkrar umræður um skattamál. Að þessu sinni hefur samanburður á skattlagningu launatekna og fjármagnstekna verið fyrirferðamikill. Í ljósi mikillar hækkunar á verði innlendra hlutabréfa á síðasta ári og mikils mögulegs söluhagnaðar hafa ýmsir látið í ljósi þá skoðun að fjármagns-tekjuskatturinn sé of lágur og að það þurfi að hækka hann, einkum af réttlætisástæðum. Í þessari umræðu gætir oft tilhneigingar til of mikilla einfaldana, sem einkum felast í samanburði á skatthlutföllunum einum saman, sem leiðir til þess að menn draga gjarnan rangar ályktanir.

Ólík skattkerfi
Samanburður á skatthlutföllum varpar ljósi á jaðarskatt-lagninguna, þ.e. hvernig hver viðbótarkróna í tekjur er skattlögð. Þannig er tekjuskatthlutfall launamanna í staðgreiðslu 38,58% á þessu ári og sérstakur tekjuskattur (einnig nefndur hátekjuskattur) sem er 4% til viðbótar leggst á tekjur á þessa ári (var 5% vegna tekna 2003) sem eru umfram tæplega 350 þús. kr. á mánuði. Jaðarskatturinn getur þannig hæstur orðið 42,58%. Jaðaráhrif skattkerfisins geta hins vegar orðið mun hærri vegna tekjutengingar vaxta- og barnabóta, en um það verður ekki fjallað frekar hér. Fjármagnstekjuskattur er hins vegar 10%, og er lagður á vaxtatekjur, söluhagnað, arðgreiðslur og leigutekjur, en líta ber til þess að rót fjármagnstekna liggur yfirleitt í hagnaði fyrirtækja sem skattlagður er með 18% og er samanlagður skattur á hagnað fyrirtækja og arðgreiðslur af honum 26,2%. Það er því augljóslega mikill munur á jaðarsköttum á launatekjur og fjármagnstekjur, þ.e. launatekjurnar eru skattlagðar hæst með 42,58% en fjármagnstekjurnar með 26,2%.

Munur kerfanna liggur einkum í frádráttarliðunum
Munurinn er mun minni þegar skattbyrðin sem í raun leggst á þessar tekjur er borin saman sem stafar af því að í tekju-skattkerfinu eru frádráttarliðir, einkum persónuafsláttur og frádráttarbær iðgjöld í lífeyrissjóði, en fjármagnstekjuskatturinn er án frádráttarliða. Einstaklingur á almennum markaði með meðaltekjur, sem skv. Kjararannsóknarnefnd eru um 250 þús. kr. á mánuði, greiðir liðlega 61.000 kr. í skatt á mánuði ef hann nýtir heimild sína til skattfrjáls viðbótarlífeyrissparnaðar og nemur skattgreiðslan þannig 24,5% af tekjum. Sömu tekjur í atvinnurekstri eru hins vegar skattlagðar fyrst með 18% tekjuskatti og síðan með 10% fjármagnstekjuskatti ef þær eru greiddar út sem arður, samtals 26,2%. Á þessu tekjubili er skattbyrði launatekna lægra en fjármagnstekna af hagnaði fyrirtækis og arði samanlagt, en dæmið snýst við þegar tekjurnar hækka vegna hærri jaðarskatta á laun.

Ehf-væðing af völdum hátekjuskatts?
Því er gjarnan haldið fram að hálaunamenn geti komist hjá því að greiða skatt með því að starfrækja einkahlutafélag um sjálfa sig. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur vegna þess að ef átt er við raunverulega launamenn þá væri um gerviverktöku að ræða sem er brot á skattalögum. Skýringin á miklum tilflutningi yfir í einkahlutafélög á undanförnum árum er ekki sú að venjulegir launamenn hafi hætt að vera það og breyst í sjálfstætt starfandi, heldur sú að sjálfstætt starfandi hafa flutt sig úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Skattalegar ástæður liggja þar einkum að baki, þar sem skattbyrði einkahlutafélags er óumdeilalega minni en einstaklingsrekstrar þegar komið er yfir ákveðin tekjumörk, og vegur hátekju-skatturinn þar þungt. En munurinn er mismikill eftir því hve tekjurnar eru miklar og hann er minni en menn virðast almennt telja.

Reiknað endurgjald skiptir máli
Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt segir að menn sem starfa við eigin atvinnurekstur skuli reikna sér endurgjald sem sé ekki lægra en launatekjur þeirra  hefðu orðið hjá óskyldum aðila. Þetta reiknaða endurgjald er síðan skattlagt eins og launatekjur og tryggingagjald lagt á það. Fjármálaráðherra setur árlega lágmarksreglur um reiknað endurgjald. Telji menn fram lægra endurgjald en áskilið er í reglum fjármálaráðherra skal skattstjóri hækka endurgjaldið. Ákvörðun skattstjóra um hækkun á reiknuðu endurgjaldi má þó ekki mynda tap umfram ákveðin mörk. Skattstjóra er jafnframt heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kveða á um að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Sérfræðingum í sérgreinum og stjórnendum á þeim vettvangi ber að reikna sér endurgjald í fjórum flokkum eftir umsvifum rekstrarins og er það frá 430 til 565 þús. kr. á mánuði. Lægsti flokkurinn tekur til sérfræðinga sem enga starfsmenn hafa í þjónustu sinni en hæsti flokkurinn tekur til sérfræðinga sem hafa a.m.k. 10 starfsmenn í þjónustu sinni eða kaupa að jafngildi þeirrar þjónustu. Listamönnum, skemmtikröftum, fjölmiðlamönnum, útgefendum og mönnum í sérhæfðri sölustarfsemi s.s. fasteignasölu ber að reikna sér heldur lægri fjárhæðir en  sérfræðingar eða á bilinu 345 til 515 þús. kr. á mánuði. Iðnaðarmönnum ber að reikna sér 230 til 255 þús. kr. á mánuði, mönnum í ýmissi starfsemi ófaglærðra  og vélstjórnendum 185 til 200 þús. kr. á mánuði, sjómönnum 230 til 345 þús. kr. á mánuði og bændum í hefðbundnum búrekstri 85 til110 þús. kr. á mánuði.

Samanburður á milljón króna mönnum
Sé dæmi tekið af tekjum tveggja einstaklinga sem eru sérfræðingar og tekjur þeirra eru annars vegar skattlagður sem laun og hins vegar sem reiknað endurgjald, hagnaður einkahlutafélags og síðan arðstekjur hjá eiganda þess þá kemur í ljós að munurinn á skattbyrðinni er tæp 7%, sbr. meðfylgjandi töflu.

(Smellið á töfluna)

Dæmið um einkahlutafélagið er stílfært þannig að enginn annar kostnaður fellur til í rekstrinum en laun eigandans samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins um reiknað endurgjald og allur hagnaður er greiddur út sem arður, en engu er haldið eftir til rekstursins eða fjárfestinga félagsins. Litið er fram hjá tryggingargjaldi og öðrum tryggingum til einföldunar sem er að sjálfsögðu óraunhæft en gert til að fá fram aðalatriðin í skattlagningunni. Gengið er út frá því að viðkomandi nýti sér skattaafslátt vegna viðbótar lífeyrissparnaðar.

Niðurstaðan er sú að hátekjumaður með eina milljón á mánuði í laun að jafnaði á þessu ári greiðir 353 þús. kr. í tekjuskatt af þessum launum, þ.e. hann greiðir 35,3% launa sinna í skatt. Séu sömu tekjur skattlagðar í gegnum hagnað einkahlutafélags, reiknað endurgjald og arð þá eru greiddar 284 þús. kr. í skatt eða 28,4%. Munurinn er 69 þús. kr. eða 6,9 prósentustig. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að mismunur á skattbyrði launamanna og tekna eigenda einkahlutafélaga er af þessari stærðargráðu, þ.e. eins stafs prósentutala. Munurinn liggur að stórum hluta í hátekjuskatti þar sem 2,1% af þessum 6,9% mun má rekja til hans í framangreindu dæmi.

Munurinn á skattbyrði fer minnkandi
Skattalækkanir sem þegar hafa verið lögfestar, þ.e. afnám hátekjuskattsins svokallaða, og fyrirhuguð lækkun tekjuskatts launamanna um allt að 4% munu draga verulega úr þeim mun sem er á skattlagningu einstaklinga og tekna sem uppruna sinn eiga í einkahlutafélögum. Væntanleg breyting kemur skýrt fram á meðfylgjandi línuriti.

(Smellið á myndina)


Efsta heildregna línan sýnir skattbyrði (há)launamanna á þessu ári með tekjur á bilinu 500 þús. kr. á mánuð til tveggja milljóna. Mánaðarlaun að upphæð 500 þús. kr. bera  31% skatt, af einni milljón króna eru dregin 35% og af tveggja milljóna króna launum  37%. Þegar fyrirhugaðar skattalækkanir verða komnar fram verður skattbyrði 500 þús. kr. mánaðartekna 26%, skattbyrði einnar milljónar verður 29% og tvær milljónir munu bera rúm 30%. Þetta kemur fram á punktalínunni (með smæstu punktunum) á línuritinu.

Sama skattbyrði verður af 500 þús. óháð uppruna
Skattlagning tekna frá einkahlutafélaginu kemur fram á brotnu línunni (með stærstu brotunum) og neðstu línunni á línuritinu. Á brotnu línunni sést að skattbyrði 500 þús. kr. tekna að jafnaði á mánuði er 31%, af einni milljón eru dregin rúm 28% og af tveimur milljónum eru dregin rúm 27%. Við afnám sérstaks tekjuskatts og lækkun tekjuskatts launamanna mun skattur á reiknað endurgjald lækka og þess vegna lækkar skattlagningin á tekjurnar sem uppruna eiga í  einkahlutafélaginu. Neðsta línan, sem sýnir skattbyrðina eftir að skattalækkanir eru um garð gengnar, er lárétt vegna þess að í dæminu er gengið úr frá 480 þús. kr. reiknuðu endurgjaldi eiganda einkahlutafélagsins en þau laun eru skattlögð jafn mikið og samanlögð skattbyrði tekna af einkahlutafélaginu, þ.e. rúm 26%.

Hófleg skattlagning stuðlar að vexti
Skattlagning fjármagnstekna var samræmd með lögum árið 1996. Það sem breyttist þá var að skattlagning vaxtatekna var tekin upp en þær höfðu áður verið skattfrjálsar. Þá voru skatthlutföll tekna af arði og söluhagnaði lækkuð en frítekjumark afnumið. Frá upphafi var lagt til grundvallar að skattkerfið yrði einfalt í framkvæmd og skatthlutfall lágt. Óhætt er að fullyrða að reynslan af þessari skattabreytingu hafi verið afar jákvæð. Óumdeilt er að tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti hafa margfaldast á undanförnum árum í kjölfar aukinna viðskipta á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum. Hófleg skattlagning hefur leitt til viðskipta með hlutabréf sem ekki hefðu átt sér stað við hin háu skatthlutföll sem áður voru í gildi og því beint áhættufjármagni inn í fyrirtækin og stuðlað að umbreytingu og vexti í íslensku atvinnulífi. Á þeim tíma sem núgildandi fyrirkomulag við skattlagningu fjármagnstekna hefur verið við lýði hefur hagvöxtur verið meiri en nokkru sinni fyrr í íslensku efnahagslífi. Hófleg skattlagning fjármagnstekna hefur án nokkurs vafa átt veigamikinn þátt í þeirri jákvæðu þróun þótt útilokað sé að sanna það með tilvísun í tölur.

Tilgangur skattlagningar
Meginhlutverk skatta er fyrst og fremst að afla tekna en þeir hafa einnig áhrif á tekjuskiptingu og atferli manna. Núverandi kerfi við skattlagningu fjármagnstekna hefur reynst vel á alla þessa mælikvarða. Það hefur aflað stóraukinna tekna fyrir ríkissjóð frá því sem áður var. Það hefur óvéfengjanlega stuðlað að auknum viðskiptum með hlutabréf og beint fjármunum til atvinnulífsins sem leitt hefur til umbreytingar þess og aukinnar skilvirkni markaða. Uppskeran hefur verið aukinn hagvöxtur og fjölgun góðra starfa, sem hefur jákvæð áhrif á tekjuskiptinguna. Það tímabil sem núverandi kerfi skattlagningar fjármagnstekna hefur verið við lýði er jafnframt það tímabil þar sem kaupmáttur launa hefur aukist meira en dæmi eru um áður í seinni tíð og kaupmáttur lægstu laun hefur aukist enn meira en almennt hefur gerst.

Einfaldanir og misskilningur
Umræða um óréttlæti þess mismunar sem er við lýði við skattlagningu fjármagnstekna og launatekna byggist gjarnan á of miklum einföldunum og klárum misskilningi. Það eru engin sérstök rök fyrir því að þessar tekjur skuli skattlagðar með svipuðum hætti eða eins. Fjármagnstekjur eru skattlagðar að nafnvirði og því er sá hluti teknanna sem þarf til að fjármagnsstofninn haldi raungildi sínu skattlagður. Hluti fjármagnstekjuskattsins er því skattur á neikvæðar tekjur. Fjárfestingar í atvinnulífi eru áhættufjárfestingar og bera stundum lítinn arð eða engan og geta jafnvel tapast alveg. Tap fyrri ára er ekki tekið inn í myndina þegar hagnaður myndast um síðir. Þeir sem eini sinni verða fyrir tapi af fjárfestingum sínum bera það einfaldlega sjálfir. Fleira mætti tína til þessu til stuðnings en meginmálið er að kerfið við skattlagningu fjármagnstekna hefur reynst öllum landsmönnum vel, ekki aðeins fólkinu sem á vaxtaberandi eignir.

Samtök atvinnulífsins