1 MIN
Skattasnjóhengjan yfirvofandi
Lýðfræðilegar breytingar eru í deiglunni þessa dagana. Einna helst er tekist á um fjölgun innflytjenda næstu árin og áratugina. En það er annar og ekki síður mikilvægur vinkill á fyrirséðum breytingum á samsetningu þjóðarinnar sem hefur minna verið til umræðu – öldrun hennar.
Eldri þjóð, aukin örorka
Flest lítum við á lengri ævi sem fagnaðarefni. Lengri ævi hefur á þjóðfélagslegum skala þó í för með sér ýmsar áskoranir. Aukið álag á heilbrigðiskerfið og aukin þörf á ellilífeyri eru tvö þekkt dæmi, þó við Íslendingar séum um margt í betri stöðu varðandi síðarnefnda atriðið en nágrannaþjóðir þökk sé lífeyrissjóðakerfinu. Síður þekkt áhrif öldrunar þjóða er aukin örorkubyrði. Það er sökum þess að örorkutíðni er mun hærri í eldri aldurshópum en þeim yngri. Undanfarna tvo áratugi hefur hlutfall örorku verið að meðaltali ríflega sjö sinnum hærra í aldurshópnum 60-66 ára en 18-29 ára. Um einn af hverjum fimm á aldrinum 60-66 glímir við örorku á meðan einn af hverjum 35 á aldrinum 18-29 glímir við örorku. Tölfræðin segir okkur því að hlutfallsleg aukning í eldri aldurshópum leiðir til aukinnar örorkutíðni.
Lífeyrissjóðir og ríkið skipta með sér ábyrgð á málaflokki örorkulífeyris. Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að útgjöld vegna örorku og fötlunar verði um 3,2% af VLF árið 2050 en hlutfallið er í kringum 2,6% í dag. Að sama skapi sést að hlutfall örorkuskuldbindinga lífeyrissjóðanna er hærra þegar litið er til framtíðar heldur en dagsins í dag. Áfallin staða mælir skuldbindingar sem sjóðirnir hafa þegar tekið á hendur sér en þar er örorkulífeyrir metinn um 7,7% af heildareignum. Framtíðarstaða mælir skuldbindingar sem koma til með að falla á sjóðinn í framtíðinni en þar er örorkulífeyrir metinn 11,2% af eignum.
Hvað þýðir talnasúpan?
Fyrir atvinnurekendur og aðra skattgreiðendur þýðir þessi þróun á mannamáli tvennt að óbreyttu. Annars vegar munu ríkisútgjöld aukast töluvert þegar kemur að málaflokki örorku og þar með krafan um aukna skattheimtu. Hins vegar getur aukin örorkubyrði skapað spennu í lífeyrissjóðakerfinu. Það er sökum þess að örorka er afar misjöfn milli lífeyrissjóða og aukin örorka verður á vettvangi lífeyrissjóðakerfisins tekin út með lakari ellilífeyrisréttindum. Það munu þau sem bera skarðan hlut frá borði ólíklega sætta sig við til lengdar.
En er eitthvað sem kemur til móts við þessi lýðfræðilegu áhrif? Stutta svarið er nei. Undanfarin ár hafa bætur hækkað mikið og bætur eru í mörgum tilfellum orðnar jafnháar eða hærri en fyrri tekjur á vinnumarkaði. Hvatinn til að vinna er því orðinn takmarkaður fyrir stóra hópa.
Að sama skapi höfum við Íslendingar ekki gert þá kröfu til þeirra sem missa starfsorku að þeir sæki sér endurhæfingu. VIRK starfsendurhæfingarsjóður styður þá sem þangað leita af sjálfsdáðum og hefur náð að lyfta grettistaki, en eðli máls samkvæmt nær sjóðurinn ekki til allra sem þyrftu á honum að halda. Á hinum Norðurlöndunum er endurhæfing í veikindum skylda. Enginn vill vera veikur og enginn vill verða öryrki, en rannsóknir hafa sýnt að þeir sem festast heima hjá sér í sex mánuði eða lengur mynda lífsvenjur sem miða ekki við þátttöku á vinnumarkaði og fæstir eiga afturkvæmt eftir það. Því skiptir höfuðmáli að grípa fólk hratt svo að sem flestir nái bata.
Hvað er til ráða?
Það er ljóst að sú skipan mála sem við stöndum frammi fyrir er ótæk. Við erum ekki að nýta tækifærin til að draga úr auknum kostnaði vegna örorku. Vandinn felst í því skipulagi sem hefur verið komið á fót þegar kemur að örorkulífeyri. Kostnaður eykst hratt ár frá ári. Kerfið er flókið, óskilvirkt, dregur of mikið úr hvata til vinnu og það sem mestu máli skiptir – því mistekst í of mörgum tilfellum að hjálpa fólki aftur á fætur.
Staðan kallar á að horft sé heildstætt á örorkuferlið frá fyrstu dögum veikinda. Hún kallar á jöfnun örorkubyrði til að tryggja áframhaldandi sátt um lífeyrissjóðakerfið. Hún kallar á breytingar á verkaskiptingu þannig að einn aðili beri framvegis fulla ábyrgð á örorkulífeyri fólks á vinnumarkaði. Hún kallar á stórhuga kerfisbreytingu þar sem aðilar vinnumarkaðarins taka forystu.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum.