Efnahagsmál - 

07. febrúar 2002

Skattasamkeppni á höfuðborgarsvæðinu?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattasamkeppni á höfuðborgarsvæðinu?

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um flutning fyrirtækja milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í því ljósi og í aðdraganda sveitarstjórnakosninga er fróðlegt að líta á þau gjöld sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu innheimta af fyrirtækjum, því að þau hljóta að ráða miklu um það hvar best er að starfa. Hér er litið á fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði, en rétt er að geta þess að nokkru munar á öðrum gjöldum sveitarfélaganna, líkt og nánar er fjallað um síðar.

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um flutning fyrirtækja milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í því ljósi og í aðdraganda sveitarstjórnakosninga er fróðlegt að líta á þau gjöld sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu innheimta af fyrirtækjum, því að þau hljóta að ráða miklu um það hvar best er að starfa. Hér er litið á fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði, en rétt er að geta þess að nokkru munar á öðrum gjöldum sveitarfélaganna, líkt og nánar er fjallað um síðar.

(smellið á myndina)

Hæsti skatturinn í Reykjavík
Eins og sést á myndinni er skatturinn hæstur í Reykjavík, eða 1,65% af fasteignamati, en Kópavogur og Hafnarfjörður fylgja þar fast á eftir með skatthlutfallið 1,63. Lægstur er skatturinn í Mosfellsbæ, 1%, en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi er hann 1,12%. Loks er skatturinn 1,22% í Bessastaðahreppi. Hámarksskatthlutfall samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er 1,65%.

Mest hækkun í Garðabæ
Ef horft er til þróunar skatthlutfallsins á yfirstandandi kjörtímabili hefur það hækkað mest í Garðabæ, eða úr 0,75% í 1,12%, sem er hækkun um rúm 49%. Einnig er hækkunin veruleg í Hafnarfirði, eða úr 1,45% í 1,63%, sem er hækkun um rúm 12%. Í Reykjavík og Kópavogi er hækkunin minni og skatthlutfallið hefur staðið í stað í Mosfellsbæ, Bessastaðahreppi og á Seltjarnarnesi. Þessi þróun sýnir svo ekki verður um villst að sveitarfélögin hafa ekki beitt fasteignasköttunum til að laða fyrirtæki til sín.

Auknar tekjur sökum hærra fasteignaverðs
Rétt er að hafa í huga þegar þessar hækkanir eru skoðaðar, að stofninn sem fasteignaskattar eru lagðir á hefur hækkað mikið í góðærinu undanfarin ár vegna þess að fasteignir hafa hækkað í verði.  Þannig jukust tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignagjöldum í heild (á fyrirtæki og einstaklinga) um 23% á íbúa frá 1997 til 2000 og í Garðabæ um 65% (heimild: Árbók sveitarfélaga). 

Skyndilegar breytingar á rekstrarumhverfi
Reynsla nýliðinna ára sýnir að fasteignaskattar geta hækkað mjög skyndilega og kollvarpað þannig áætlunum fyrirtækja.  Ef stjórnendur fyrirtækja sem hófu starfsemi í Garðabæ eða Hafnarfirði árið 1998 hefðu vitað að á fjórum árum myndi hlutfall fasteignaskatts hækka um rúm 49% í Garðabæ og um rúm 12% í Hafnarfirði, hefðu þeir ef til vill ákveðið að starfa annars staðar. Mikil hækkun fasteignamats atvinnuhúsnæðis á undanförnum árum og meðfylgjandi tekjuaukning sveitarfélaganna af fasteignasköttum gaf þeim færi á lækkun hlutfallanna. Það tækifæri nýttu þau ekki. 

Flóknari heildarmynd
Sem fyrr segir er hér eingöngu fjallað um fasteignaskatta, en rétt er að geta þess að nokkru munar á öðrum gjöldum sveitarfélaganna. Samanburður er þó oft erfiður. Varðandi fasteignaskattana sjálfa má t.d. geta þess að fasteignaverð er misjafnt milli staða. Hjá Fasteignamati ríkisins liggja ekki fyrir viðmiðunarstuðlar vegna atvinnuhúsnæðis. Sé horft til kaupsamninga á íbúðarhúsnæði er munurinn hins vegar frekar lítill milli þessara sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ólíkt því sem væri ef landið allt væri skoðað.
Þá er lóðaleiga t.d. 2,5% af lóðamati fyrirtækja á Seltjarnarnesi, en 1% víðast annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Í Kópavogi er hún hins vegar í formi krónutölu á fermetra (kr. 65,55) sem torveldar samanburð. Ennfremur innheimta umrædd sveitarfélög öll holræsagjald (víðast hvar 0,15% af fasteignamati), nema Seltjarnarnes. Loks innheimta sveitarfélögin vatnsskatt.

     Tæmandi samanburður er eingöngu mögulegur út frá tilteknum forsendum um t.d. húsnæðisstærð og vatnsnotkun. Engu að síður er mjög fróðlegt að bera saman fasteignaskattsprósentuna, sem og þróun hennar á kjörtímabilinu.

Samtök atvinnulífsins