Efnahagsmál - 

07. febrúar 2002

Skattamál: bókhald og ársreikningar í erlendri mynt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattamál: bókhald og ársreikningar í erlendri mynt

Þann 5. desember sl. lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli. Frumvarpið var ekki rætt fyrir jólaleyfi þingsins en var tekið til fyrstu umræðu í janúarlok og sent til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Heimildunum er ætlað að gilda frá 1. janúar sl.

Þann 5. desember sl. lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli.   Frumvarpið var ekki rætt fyrir jólaleyfi þingsins en var tekið til fyrstu umræðu í janúarlok og sent til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.  Heimildunum er ætlað að gilda frá 1. janúar sl.

Í skýrslu samráðshóps á vegum forsætisráðherra í júní 1998 var þessu máli fyrst hreyft.   Taldi hópurinn rétt að gefa innlendum fyrirtækjum, sem þess óskuðu, möguleika á að færa bókhald sitt í evrum.  Í Áherslum atvinnulífsins sem samþykktar voru á aðalfundi SA í maí 2001 var lögð áhersla á heimildir bæði til að færa bókhald og telja fram til skatts í erlendri mynt. Meginrökin að baki þessum kröfum eru þau að minnka það samkeppnisforskot sem evrópsk fyrirtæki hafa náð með upptöku evrunnar og draga þannig úr óhagræði innlendra fyrirtækja í miklum alþjóðlegum viðskiptum af notkun krónunnar. 

Tvíverknaður?
SA fagna því að frumvarp þessa efnis sé komið fram.  Það er mjög jákvætt og framsækið skref.  Það varpar hins vegar skugga á málið að gert er ráð fyrir því að fyrirtæki, sem fái heimild til færslu bókhalds í erlendri mynt, þurfi einnig að færa það í íslenskum krónum.  Í því felst tvíverknaður sem ekki felur í sér nein verðmæti. Það má hins vegar ekki skilja athugasemdir atvinnulífsins með þeim hætti að verið sé að hvetja til þess að fella málið niður.  Þvert á móti telur SA það vera til framdráttar íslensku atvinnulífi. 

Rökin sem fram eru færð fyrir þessum tvíverknaði eru einkum skattalegs eðlis, þ.e. að skattstofnar og þar með skattlagning fyrirtækja með sömu afkomu í íslenskum krónum verði mismunandi eftir því hvort skattstofninn byggðist á bókhaldi í krónum eða erlendri mynt.  Rökin fyrir þessari kröfu eru því að stuðla að jafnræði og koma í veg fyrir mismunun milli fyrirtækja.

Óánægjan með kröfuna um bókhald í tveimur gjaldmiðlum byggist á því að bókhald verði mun umfangsmeira og flóknara og feli krafan því í sér mikið óhagræði og kostnað fyrir fyrirtækin.   Markmið heimildar til færslu bókhalds í erlendri mynt sé að komast hjá sveiflum í útkomu fyrirtækja.  Það markmið náist ekki með frumvarpinu óbreyttu.  Bókhald í tveimur grunneiningum flækir hlutina og sýnir mjög mismunandi niðurstöður eftir gjaldmiðlum.  Reikningar fyrirtækis, sem notar erlendan gjaldmiðil sem grunneiningu, í íslenskum krónum sýna ekki raunverulega afkomu. 

Frumvarpið er þáttur í þeirri stefnu stjórnvalda að laða að erlenda fjárfesta.  Það hlýtur að teljast grundvallarforsenda að þeir geti treyst þeim upplýsingum um skattalegt hagræði sem þeim eru kynntar, t.d. um hlutfall tekjuskatts fyrirtækja.  Hlufall skatta af hagnaði í erlendri mynt verður hins vegar ekki í samræmi við lögbundið skatthlutfall skv. frumvarpinu, vegna þróunar gengis krónunnar gagnvart hinum erlenda uppgjörsgjaldmiðli.   Hlutfall álagðs tekjuskatts í erlendri mynt af tekjum í erlendri mynt gæti orðið 8% eitt árið og 28% það næsta, en ekki 18%.   Það gæti reynst snúið að skýra það fyrir erlendum fjárfestum.  Á þessum röksemdum er ekki tekið í frumvarpinu, þ.e. að auðvelda erlendum fjárfestum aðgang að og skilning á reikningum þeirra íslensku fyrirtækja sem kjósa munu að semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.   

Jafnræðissjónarmið
Þá eru rökin varðandi jafnræðissjónarmið ekki sannfærandi.  Afkoma og skattgreiðslur fyrirtækja eru mismunandi eftir því í hvaða gjaldmiðlum þau fjármagna sig.  Fyrirtæki með sömu afkomu fyrir fjármagnsliði og jafnmiklar skuldir hafa mismunandi hagnað eftir því í hvaða gjaldmiðlum skuldir þeirra eru.  Það sama gildir um sambærileg fyrirtæki sem færa bókhald í krónum og erlendum gjaldmiðli.  Leikreglurnar eru ákveðnar fyrirfram og menn vita að hverju þeir ganga.  Ákvörðun um færslu bókhalds í erlendri mynt er tekin til lengri tíma og ekki er vitað fyrirfram hvernig það kemur út.  Það getur bæði verið fyrirtækinu í hag eða óhag, skattalega séð.  Yfir lengra tíma ætti mismunurinn að jafnast út.

Sérfræðingar í bókhaldskerfum sjá ýmiss konar vandkvæði við það að færa bókhald í tveimur grunneiningum.  Því er jafnvel haldið fram að það gangi ekki í stórum  bókhhaldskerfum.   Vandinn snýr einkum að skattalegu uppgjöri gengismunar gagnvart krónu.

Sá vandi sem leysa á með bókhaldi í tveimur gjaldmiðlum snýr  fyrst og fremst að tekju- og eignarsköttum.  Uppgjör VSK og tryggingagjalds mun ekki vera neitt vandamál.  Verkefnið hlýtur því að vera að finna einfaldari og ódýrari leið en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Í ræðu ráðherra við fyrstu umræðu kom fram að í frumvarpinu væru nokkur álitaefni sem rétt væri að efnahags- og viðskiptanefnd kannaði sérstaklega.  Niðurstaða umfjöllunar í atvinnulífinu er hins vegar skýr.  Öll rök mæla með einfaldleika.  Ekki á að skylda fyrirtæki til að færa bókhald í tveimur gjaldmiðlum.  Það er mjög óheppilegt og kostar fé og fyrirhöfn.  Ef ekki reynist stuðningur við þá afstöðu SA að leyfa skattframtal í erlendri mynt telja samtökin það vera ásættanlega niðurstöðu að heimila skattskil á grundvelli umreiknings uppgjörs í erlendri mynt í íslenskar krónur á meðalgengi ársins.  SA hvetja efnahags- og viðskiptanefnd til þess að gera ofangreindar breytingar við meðferð frumvarpsins.

Samtök atvinnulífsins