Fréttir - 

15. September 2014

Skattalækkanir lækka vöruverð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattalækkanir lækka vöruverð

Í umræðu um boðaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti og niðurfellingu vörugjalda hafa margir fullyrt að ekki sé hægt að treysta fyrirtækjum til að skila skattalækkunum út í verðlagið. Meðal þeirra má nefna forseta ASÍ, hagfræðing ASÍ, greiningardeild Arion Banka og ýmsa alþingismenn. Ekki er vísað til neinna rannsókna eða gagna fullyrðingunum til stuðnings.

Í umræðu um boðaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti og niðurfellingu vörugjalda hafa margir fullyrt að ekki sé hægt að treysta fyrirtækjum til að skila skattalækkunum út í verðlagið. Meðal þeirra má nefna forseta ASÍ, hagfræðing ASÍ, greiningardeild Arion Banka og ýmsa alþingismenn. Ekki er vísað til neinna rannsókna eða gagna fullyrðingunum til stuðnings.

Staðhæfingarnar eru tilhæfulausar og ganga þvert á reynslu sem fengist hefur af breytingum óbeinna skatta á undanförnum árum. Þann 1. mars 2007 var neðra þrep virðisaukaskatts lækkað úr 14% í 7%, drykkjarvörur voru færðar úr efra þrepi í það neðra og vörugjöld á matvæli afnumin. Að öðru óbreyttu hefði lækkun virðisaukaskatts á þessar vörur átt að lækka matvælaverð um 6,1% og drykkjarvöruverð um 14,1%. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar lækkaði matarverð um 8,2% milli febrúar og apríl 2007 og drykkjarvöruverð um 17,1%. Lækkunin var meiri en lækkun VSK gaf tilefni til og gætir þar að hluta afnáms vörugjaldanna á matvæli. Kaupmenn skiluðu þannig skattalækkunum til neytenda.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins í skýrslu sinni um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði sem kom út í ársbyrjun 2012 var á sama veg en þar segir:

Verðhækkun dagvara var lítil á árunum 2006 og 2007. Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu.“

Skýrslu eftirlitsins má nálgast hér. 

Þetta var einnig staðfest af ASÍ eins og lesa má í frétt á vef samtakanna 3. apríl 2007 undir fyrirsögninni: „Lágvöruverslanir skila lækkuninni.“ Í fréttinni segir:

„Verðlækkanir í lágvöruverðsverslunarkeðjum í tengslum við lækkanir á virðisaukaskatti og vörugjöldum þann 1. mars sl. voru í samræmi við útreikninga Hagstofunnar á tilætluðum áhrifum aðgerðanna. Þetta kemur fram í fyrstu niðurstöðum úr viðamiklum verðmælingum verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum á tímabilinu.

Síðar segir: „Þegar skoðaðar eru verðbreytingar á tímabilinu frá febrúar til mars 2007, þegar opinberar álögur á matvörur voru lækkaðar, kemur í ljós að verðlag lágvöruverðsverslananna lækkaði á bilinu 6,4 - 11%.“

Í þessu samhengi má rifja upp að aðstöðugjald, sem var 1,3% veltuskattur á atvinnulífið, þ.m.t. verslun, var afnumið árið 1993. Þá, eins og nú, voru uppi efasemdir um að skattalækkunin kæmi neytendum til góða. Ágæta greiningu um áhrif þeirrar skattalækkunar er að finna í tímaritinu Vísbendingu, 26. mars 1993, í grein eftir þáverandi hagfræðing og núverandi forseta ASÍ undir fyrirsögninni: „Hefur aðstöðugjaldið skilað sér?“ Þar segir hann:

„Ef miðað er við reynslu undanfarinna ára af verðlagsáhrifum vegna gengisfellinga og nánari sundurliðun á framfærsluvísitölunni eftir eðli og uppruna er ljóst að verðhækkanir undanfarna mánuði hafa verið mun minni en gengisfellingin gaf ástæðu til. Þannig hafa atvinnurekendur greinilega haldið aftur af sér með verðhækkanir og nýtt sér það svigrúm sem m.a. afnám aðstöðugjaldsins gaf.“

Ummæli núverandi hagfræðings og forseta ASÍ ganga í berhögg við fyrri niðurstöður og greiningar samtakanna á áhrifum af lækkun óbeinna skatta á verðlag. Af ofangreindu að dæma hafa skattalækkanir áður skilað sér að fullu út í verðlag og engin ástæða til að ætla annað en að sú verði einnig raunin nú.

 

 

Samtök atvinnulífsins