Efnahagsmál - 

27. nóvember 2012

Skattalækkanir fyrir Íslendinga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattalækkanir fyrir Íslendinga

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tillögur um breytingar á skattkerfinu á næstu fjórum árum til að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins, örva fjárfestingar, fjölga störfum og bæta lífskjör Íslendinga. Markmið breytinganna er að létta álögum af fólki og fyrirtækjum ásamt því að auka skatttekjur ríkissjóðs með því að breikka og rækta skattstofnana í stað þess að ganga of nærri þeim með rányrkju. Höfuðsmiður skattastefnu ríkisstjórnarinnar, Indriði H. Þorláksson, ritar grein í Fréttablaðið 26. nóvember sl. og finnst að sér vegið með þessum tillögum. Með talnaleikjum sem eru ofar flestra skilningi töfrar greinarhöfundur fram þá niðurstöðu að allar þær fjölmörgu skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur stofnað til undanfarin þrjú ár hafi leitt til þess að skattar ríkisins hafi í raun lækkað. Marklausar tölur Greinin er gott dæmi um hvernig setja má tölur í þannig samhengi að þær verði með öllu marklausar. Höfundur ber ekki, frekar en ríkisstjórnin, neitt skynbragð á samhengi þess að atvinnulífið skili hagnaði og velferð sem er hægt að búa þegnunum vegna verðmætasköpunar atvinnulífsins. Greinarhöfundur stillir atvinnurekendum og launþegum upp sem andstæðingum sem eigi í stöðugri baráttu og það sé hlutverk stjórnvalda að gæta réttlætis með því að færa auðinn frá fjármagnseigendum til fólksins. Skattalækkanir séu útilokaðar og einungis til þess fallnar að færa auðinn til forréttindahóps atvinnurekenda á kostnað launþeganna.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tillögur um breytingar á skattkerfinu á næstu fjórum árum til að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins, örva fjárfestingar, fjölga störfum og bæta lífskjör Íslendinga. Markmið breytinganna er að létta álögum af fólki og fyrirtækjum ásamt því að auka skatttekjur ríkissjóðs með því að breikka og rækta skattstofnana í stað þess að ganga of nærri þeim með rányrkju.

Höfuðsmiður skattastefnu ríkisstjórnarinnar, Indriði H. Þorláksson, ritar grein í Fréttablaðið 26. nóvember sl. og finnst að sér vegið með þessum tillögum. Með talnaleikjum sem eru ofar flestra skilningi töfrar greinarhöfundur fram þá niðurstöðu að allar þær fjölmörgu skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur stofnað til undanfarin þrjú ár hafi leitt til þess að skattar ríkisins hafi í raun lækkað.

Marklausar tölur
Greinin er gott dæmi um hvernig setja má tölur í þannig samhengi að þær verði með öllu marklausar. Höfundur ber ekki, frekar en ríkisstjórnin, neitt skynbragð á samhengi þess að atvinnulífið skili hagnaði og velferð sem er hægt að búa þegnunum vegna verðmætasköpunar atvinnulífsins.

Greinarhöfundur stillir atvinnurekendum og launþegum upp sem andstæðingum sem eigi í stöðugri baráttu og það sé hlutverk stjórnvalda að gæta réttlætis með því að færa auðinn frá fjármagnseigendum til fólksins. Skattalækkanir séu útilokaðar og einungis til þess fallnar að færa auðinn til forréttindahóps atvinnurekenda á kostnað launþeganna.


SA benda á að afleiðingar skattastefnunnar sjáist nú æ víðar í þjóðfélaginu og bíti jafnt almenning sem fyrirtæki. Fjárfesting fyrirtækja er í sögulegu lágmarki, fjölgun starfa er sáralítil, fjölskyldur flytjast búferlum til annarra landa og að óbreyttu munu í lok næsta árs 3.700 manns hafa fullnýtt 3-4 ára rétt sinn til atvinnuleysisbóta og færast á framfærslu sveitarfélaga.

SA hafna núverandi skattastefnu
SA hafna algjörlega skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Skattalegt umhverfi í landinu á að miða að því að ná sem mestri hagkvæmni. Skattkerfið á að vera skilvirkt tekjuöflunartæki ríkissjóðs og sveitarfélaga. Það á að vera gegnsætt og laust við flækjur, skattstofnar eiga að vera breiðir og skattprósentur fáar og lágar. Þannig er dregið úr undanskotum og svartri atvinnustarfsemi.

Íslensk fyrirtæki verða að standast alþjóðlega samkeppni og það sama gildir um skattkerfið. Að öðrum kosti munu lífskjör hér versna enn frekar. Aukin arðsemi í atvinnurekstri skilar meiri afrakstri til fólksins sem þar starfar og eykur svigrúm fyrirtækja til fjárfestinga, þróunar og nýsköpunar. Ríki og sveitarfélög munu einnig hagnast með skatttekjum af auknum hagnaði fyrirtækja og tekjum launþega.

Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27.11. 2012 og á Vísi.

Skattatillögur SA: Skattstofnar atvinnulífsins.Ræktun eða rányrkja