Efnahagsmál - 

03. júní 2004

Skattalækkanir

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattalækkanir

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa á undanförnum árum staðið sig vel í því mikilvæga verkefni að lækka skatta. Hefur framkvæmd þeirrar stefnumörkunar tvímælalaust átt sinn þátt í eflingu atvinnulífs og bættum hag landsmanna. Þannig hefur tekjuskattur fyrirtækja lækkað úr 45% árið 1991 í 18% nú, aðstöðugjald sem var íþyngjandi veltuskattur á fyrirtæki var afnumið árið 1993, almenna tekjuskatthlutfall einstaklinga hefur lækkað úr 41,9% þegar það var hæst árið 1996 í 38,6% nú, iðgjöld í lífeyrissjóði voru undanþegin frá tekjuskatti, persónuafsláttur hefur að fullu verið gerður millifæranlegur milli hjóna, eignarskattur hefur verið helmingaður og erfðafjárskattur lækkaður.

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa á undanförnum árum staðið sig vel í því mikilvæga verkefni að lækka skatta. Hefur framkvæmd þeirrar stefnumörkunar tvímælalaust átt sinn þátt í eflingu atvinnulífs og bættum hag landsmanna. Þannig hefur tekjuskattur fyrirtækja lækkað úr 45% árið 1991 í 18% nú, aðstöðugjald sem var íþyngjandi veltuskattur á fyrirtæki var afnumið árið 1993, almenna tekjuskatthlutfall einstaklinga hefur lækkað úr 41,9% þegar það var hæst árið 1996 í 38,6% nú, iðgjöld í lífeyrissjóði voru undanþegin frá tekjuskatti, persónuafsláttur hefur að fullu verið gerður millifæranlegur milli hjóna, eignarskattur hefur verið helmingaður og erfðafjárskattur lækkaður.

Stuðningur við áform um skattalækkanir

Nú eru uppi áform um að lækka tekjuskatt einstaklinga um allt að 4%, afnema eignarskatt og taka virðisaukaskattskerfið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings, svo notað sé orðalag stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Á aðalfundi SA í vor lýsti forsætisráðherra því svo yfir að stefna bæri að því að tekjuskattur fyrirtækja verði ekki hærri en 15%, sem er mikið fagnaðarefni.

Fullyrða má að mikill stuðningur sé við þessa stefnumörkun stjórnvalda enda afleit sú þróun að rekstur ríkis og sveitafélaga aukist hlutfallslega í þeim mikla hagvexti sem hér hefur verið á undanförnum árum. Raunin hefur einmitt verið sú að samneysla hins opinbera hefur farið úr 22% af landsframleiðslu árið 1997 í 26,4% á síðasta ári. Þarna vegur þyngst launaþróun hjá hinu opinbera umfram almennan markað, en launakostnaður er um 70% samneyslunnar. Þetta hefur verið kleift þar sem skatttekjur hafa aukist vegna meiri umsvifa, þótt álögur í prósentum hafi lækkað.

Launaþróun opinberra starfsmanna lykilatriði í hagstjórn

Það er engu að síður ljóst að fara verður gætilega í skattalækkanir við þær aðstæður sem nú eru uppi, verðbólguþrýstingur fer vaxandi, gengi krónunnar er hátt með tilheyrandi erfiðleikum fyrir innlend fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og viðskiptahalli eykst hratt. Seðlabankinn hefur þegar gripið til þess ráðs að hækka vexti til að sporna gegn verðbólgu og skattalækkanir án samsvarandi aðhalds í opinberum útgjöldum myndu leiða til enn meiri þrýstings á stjórn peningamála og verða atvinnulífinu erfitt. Halda þarf þétt um taumana í opinberum fjármálum á næstu misserum og þar gegnir lykilhlutverki að launaþróun opinberra starfsmanna verði í samræmi við þær hækkanir sem atvinnulífið hefur samið um. Flestum ætti að vera ljóst að þar er hart keyrt enda verða árlegar launahækkanir áfram töluvert meiri en þær launabreytingar sem samkeppnisaðilar í nágrannalöndunum búa við. Það er þess vegna mikið áhyggjuefni að kröfugerðir opinberra starfsmannahópa á borð við grunnskólakennara virðast ekki taka nokkurt mið af þessum raunveruleika. Þær fela bæði í sér óbeina kröfu um skattahækkanir og eru jafnframt bein ógn við þá sátt sem náðst hefur í samningsgerð á almenna vinnumarkaðnum.

Ef vel tekst til með framkvæmd skattalækkana ættu þær reyndar fyrir sitt leyti að geta stuðlað að friði og samkomulagi á öllum vinnumarkaðnum, enda koma þær kjarabætur til viðbótar við umsamdar hækkanir.

Mismunandi útfærslur skoðist vandlega

Margir hafa orðið fyrir vonbrigðum með að ekki náðist að kynna tillögur um útfærslu skattalækkana nú á vorþingi. Það er þó ekki alslæmt. Eins og bent er á í grein í þessu fréttabréfi er t.d. skattlagning á selda vöru og þjónustu flókin og margbreytileg. Ákjósanlegt væri að breytingar nú miðuðu frekar að einföldun en hærra flækjustigi. Því er mikilvægt að skoða það vandlega hvernig mismunandi útfærslur á skattalækkun koma út fyrir almenning og á milli vörutegunda áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar um breytingu á virðisaukaskattskerfinu.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins