Vinnumarkaður - 

05. september 2019

Sjötti stysti vinnutíminn meðal OECD-ríkja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sjötti stysti vinnutíminn meðal OECD-ríkja

OECD birti fyrr á þessu ári samanburð á meðal ársvinnutíma starfsfólks á vinnumarkaði í aðildarríkjunum. Þar kemur fram að ársvinnutími var sá sjötti stysti á Íslandi. Samtímis var birtur samanburður á framleiðniþróun sem sýnir að framleiðni vinnuafls jókst margfalt meira á Íslandi en í helstu samkeppnislöndunum.

OECD birti fyrr á þessu ári samanburð á meðal ársvinnutíma starfsfólks á vinnumarkaði í aðildarríkjunum. Þar kemur fram að ársvinnutími var sá sjötti stysti á Íslandi. Samtímis var birtur samanburður á framleiðniþróun sem sýnir að framleiðni vinnuafls jókst margfalt meira á Íslandi en í helstu samkeppnislöndunum.

Framleiðni vinnuafls á Íslandi er um fimmtungi meiri en að meðaltali í OECD. Það sýnir samanburður á landsframleiðsla á unna vinnustund í kaupmáttarleiðréttum Bandaríkjadollurum.

Sjötti stysti ársvinnutíminn á Íslandi árið 2018
Samkvæmt OECD var ársvinnutími að meðaltali 1.469 stundir á Íslandi árið 2018. Stystur var hann í Þýskalandi, 1.363 stundir, og þar á eftir komu Danmörk og Noregur með um 1.400 stundir. Meðaltal í OECD-ríkjunum var 1.734 stundir.

Ársvinnutími á Íslandi svipaður og að meðaltali á Norðurlöndum
Ársvinnutíminn á Íslandi hefur styst mikið undanfarinn áratug án íhlutunar löggjafarvaldsins eða breytinga á vinnutímaákvæðum kjarasamninga. Stærsta skýringin er að dregið hefur úr yfirvinnu.

Árið 2008 var meðal ársvinnutími á Íslandi 1.486 stundir og um 120 stundum lengri en að meðaltali annars staðar á Norðurlöndunum. Milli áranna 2008 og 2018 styttist ársvinnutíminn á Íslandi um 140 stundir en mun minna í hinum löndunum. Árið 2018 var meðal ársvinnutími á Íslandi svipaður og að meðaltali á Norðurlöndunum, 50-80 stundum lengri en í Noregi og Danmörku en svipaður og í Svíþjóð en tæpum 90 stundum styttri en í Finnlandi.

Skilgreining OECD á ársvinnutíma
Upplýsingar OECD um ársvinnutíma eiga að endurspegla raunverulega unnar vinnustundir starfsmanna og samkvæmt því skal ekki telja greidda tíma í orlofi, á sérstökum frídögum, í veikindum, fæðingarorlofi o.s.frv.

Í lýsigögnum OECD segir að meginreglan sé sú að tölur stofnunarinnar skuli vera í samræmi við gögn sem notuð eru til að reikna út framleiðni. Slík gögn séu í samræmi við skilgreiningar þjóðhagsreikninga og flest aðildarríki OECD afhendi þau á því formi, en tölur fyrir önnur ríki eru byggðar á úrvinnslu á vinnumarkaðsrannsóknum þeirra sem stofnunin telur lakari kost.

Gerbreyttar tölur OECD
OECD hefur nýverið endurskoðað íslensku vinnutímatölurnar til lækkunar. Sem dæmi má nefna að árið 2016 áætlaði OECD að meðal ársvinnutími á Íslandi hefði verið 1.864 stundir árið 2016 en nú áætlar stofnunin að ársvinnutíminn hafi verið 1.503 stundir það ár. Munurinn er rúmlega 361 stund eða sem svarar 9 vinnuvikum.

Frumvarp um lögfestingu vinnutímastyttingar
Á undanförnum árum hafa frumvörp um íhlutun í vinnutímaákvæði kjarasamninga ítrekað verið lögð fram á Alþingi til að stytta vinnuvikuna um 5 stundir. Megin röksemd fyrir íhlutuninni hefur verið sú að vinnutími sé óhóflega langur á Íslandi miðað við aðrar þjóðir með tilvísun í tölur OECD. Í greinargerð frumvarpsins segir m.a.:

„Í skýrslum OECD þar sem mælt er jafnvægi milli vinnu og frítíma sést að Ísland kemur mjög illa út. Þar er landið í 33. sæti af 38 þjóðum þegar kemur að lengd vinnutíma ... Í tölum OECD fyrir árið 2016 um meðalársfjölda vinnustunda er Ísland í 25. sæti með 1.883 vinnustundir á móti 1.363 stundum meðal Þjóðverja, sem eru í fyrsta sæti með stystan vinnutíma, en Danir hafa næststystan vinnutíma, 1.410 stundir. ... Erfitt er að bera saman fjölda vinnustunda milli landa af ýmsum ástæðum en gögnin frá OECD eru þau bestu sem tiltæk eru. Þegar fjöldi vinnustunda og jafnvægi milli vinnu og frítíma á Íslandi er borið saman við ástandið í öðrum löndum sjást greinileg merki um slæma stöðu Íslands.“

Nýjar tölur OECD um einn stysta meðal ársvinnutíma sem um getur sýna að staða Íslands er ekki eins slæm og rakið er í greinargerð frumvarpsins sem ætti að gefa flutningsmönnum tilefni til að endurskoða þessi lagasetningaráform.

Framleiðniaukning á Íslandi 2000-2018 mun meiri en meðal samanburðarlandanna
Framleiðniaukning vinnuafls var mest í A-Evrópuríkjunum og Írlandi á tímabilinu 2000-2018 en þar á eftir kom Ísland. Framleiðniaukningin var að jafnaði 2,7% á ári á Íslandi samanborið við 1,2% að meðaltali í ESB ríkjunum. Framleiðniaukningin var að jafnaði 0,5-1% á ári í Noregi, Danmörku og Finnlandi en tæplega 1,5% í Svíþjóð. Framleiðniaukningin á Íslandi var þannig margfalt meiri en í helstu samanburðarríkjum.

Kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á unna vinnustund yfir meðaltali OECD
Framleiðni á Íslandi, mæld sem kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á unna vinnustund, var vel yfir meðaltali OECD-ríkjanna árið 2017. Framleiðnin svo skilgreind var 65 kaupmáttarleiðréttir Bandaríkjadollarar á Íslandi samanborið við 55 Bandaríkjadollara að meðaltali í OECD-ríkjunum. Framleiðni á Íslandi var þannig tæplega 20% hærri en að meðaltal í OECD ríkjunum. Framleiðni á vinnustund var 27% hærri í Noregi en á Íslandi, 17% hærri í Danmörku, 8% hærri í Svíþjóð en 1% lægri í Finnlandi.

Í greinargerð framangreinds frumvarps segir um framleiðni á Íslandi: „Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali landa OECD, ...“.

Nýjustu tölur OECD sýna þvert á móti að framleiðni á Íslandi er mun meiri en að meðaltali í OECD-ríkjunum og hefur vaxið mikið undanfarin ár. Afstaða þeirra sem haldið hafa því fram að framleiðni á Íslandi sé slök vegna langs vinnutíma á sér því enga stoð í tiltækum og samanburðarhæfum gögnum OECD um framleiðni í aðildarríkjunum.

Samtök atvinnulífsins