Samkeppnishæfni - 

21. Desember 2009

Sjálfheldan rofin með Kaupmannahafnarsamkomulaginu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sjálfheldan rofin með Kaupmannahafnarsamkomulaginu

Á fimmtudag í síðustu viku hófst lokatilraun til að ná samkomulagi um niðurstöðu í tveggja ára samningsferli um langtímasamkomulag í loftslagsmálum en umboð til samninga var veitt á Balí 2007. Á sama tíma hófst lokatilraun til að ná samkomulagi um framhald Kyoto-bókunarinnar eftir 2012 en þær viðræður hafa staðið í 4 ár. Skemmst er frá því að segja að það voru engar líkur til þess að samkomulag næðist. Embættismenn 194 ríkisstjórna hafa verið vakandi og sofandi yfir málinu allan þennan tíma og hafa haldið endalausa fundi og ráðstefnur. Þrátt fyrir það standa eftir sömu ágreiningsmálin ár eftir ár, fund eftir fund.

Á fimmtudag í síðustu viku hófst lokatilraun til að ná samkomulagi um niðurstöðu í tveggja ára samningsferli um langtímasamkomulag í loftslagsmálum en umboð til samninga var veitt á Balí 2007. Á sama tíma hófst lokatilraun til að ná samkomulagi um framhald Kyoto-bókunarinnar eftir 2012 en þær viðræður hafa staðið í 4 ár. Skemmst er frá því að segja að það voru engar líkur til þess að samkomulag næðist. Embættismenn 194 ríkisstjórna hafa verið vakandi og sofandi yfir málinu allan þennan tíma og hafa haldið endalausa fundi og ráðstefnur. Þrátt fyrir það standa eftir sömu ágreiningsmálin ár eftir ár, fund eftir fund.

Það var svo á föstudagsmorgun, 18. desember, sem þjóðarleiðtogar settust að fundarborðinu. Eftir 14 tíma vinnu gengu loks leiðtogar Bandaríkjanna, Brasilíu, Indlands, Kína og Suður Afríku frá svökölluðu Kaupmannahafnarsamkomulagi (e. Copenhagen Accord). Þar er gert ráð fyrir að ríki skrái markmið sín um minnkun útstreymis undir mismunandi ströngum skilyrðum eftir því hvort ríkin teljast iðnríki eða þróunarríki. Einnig er gert ráð fyrir verulegum fjárstuðningi við þróunarríki og þá sérstaklega þau sem verst eru sett. Stuðningurinn á að vera 30 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu 2010-12 og 100 milljarðar á ári frá 2020.

Þetta samkomulag fór síðan til umfjöllunar á loftslagsráðstefnu S.Þ. þar sem lagt var til að því yrði strax hrint í framkvæmd. Þar upphófust mótmælaraddir ríkja sem vildu halda deilum áfram og sáu þessu samkomulagi allt til foráttu. Í lokin voru það svo ríki eins og Súdan, Kúba, Venesúela og Bólivía sem komu í veg fyrir samþykkt tillögunnar. Þess í stað var samþykkt að taka mið af (e. take note of) samkomulaginu og reyna að ná niðurstöðu næsta árið eftir ferlunum tveimur sem lýst var hér að ofan.

Hvað gerist?
Samingaviðræður á lofstlagsráðstefnu S.Þ. fara þannig fram að leitað er samstöðu um niðurstöðu. Um leið og einhver hreyfir andmælum þarfa að leita nýrra leiða. Þannig geta fá ríki eða ríkjahópar stöðvað allar tilraunir til að komast að samkomulagi.

Líklegast er að ríkin sem stóðu að Kaupmannahafnarsamkomulaginu muni halda áfram að afla því stuðnings og innbyrða í samkomulagið hluta af aðferðafræði Kyoto-bókunarinnar og langtímaviðræðna. Þau munu jafnframt láta reyna á hvort það tekst undir hatti loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna eða hvort kemur til nýs alþjóðlegs samnings milli þeirra sem vilja taka þátt.

Það er þó nokkuð ljóst að Kyoto-bókunin eins og hún er nú mun renna sitt skeið án þess að til nýs skuldbindingartímabils komi eftir 2012 undir reglum hennar.

En samningamenn ríkjanna hafa tryggt sér verkefni sem dugað getur þeim í 1-2 eða jafnvel þrjú ár áður en endanleg niðurstaða verður ljós. Þeir munu, eins og Parkinsonslögmálið segir fyrir um, nýta sér allan þann tíma sem þeir hafa.

Danir stóðu mjög vel að ráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Framkvæmdin var í flestu eins og best var á kosið.  Þeir lögðu gríðarlegan metnað í að ná niðurstöðu sem gæti verið bindandi fyrir flest ríki heims. Connie Hedegård, loftslagsráðherra þeyttist um heim allan til að undirbúa jarðveginn og Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra, og forveri hans studdu dyggilega við hana. Það verður ekki við Dani að sakast þó svo niðurstaðan yrði ekki meira afgerandi eins og vonir margra stóðu til. Einbeittur vilji margra ríkja til að engin niðurstaða fengist hefði áreiðanlega dugað til ef ekki hefði komið til nærvera og þátttaka helstu þjóðarleiðtoga.

Það var á ábyrgð skrifstofu loftslagssamningsins að 45 þúsund manns var heimilað að skrá sig til þátttöku á ráðstefnunni þrátt fyrir að einungis 15 þúsund komist fyrir á ráðstefnusvæðinu.

Staða Íslands
Hvað varðar stöðu Íslands munu nú hefjast samningaviðræður íslenskra stjórnvalda og ESB um innleiðingu loftslags- og orkulöggjafar sambandsins. Afstaða ESB til Kaupmannahafnarsamkomulagsins liggur ekki fyrir en Ísland mun væntanlega fylgja afstöðu sambandsins. Það er nokkuð ljóst að samkomulagið í Kaupmannahöfn dugar vart til að ESB hækki markmið sitt um samdrátt útstreymis úr 20% í 30% árið 2020 eins og boðað hafði verið ef tækist bindandi víðtækt alþjóðlegt samkomulag. Eftir því sem tíminn líður aukast líkur á að 30% markmiðinu verði frestað um nokkur ár.

Við gerð samkomulags milli ESB og Íslands þarf að tryggja að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verði á við sem best gerist í helstu nágrannaríkjum. Möguleikar til að draga úr útstreymi hér á landi eru töluvert öðruvísi en í nágrannaríkjum þar sem jarðefnaeldsneyti stendur undir stórum hluta orkuframleiðslu til húshitunar og raforkunotkunar. En eins og kunnugt er þá eru endurnýjanlegar orkulindir eins helsta auðlind Íslands. 

Pétur Reimarsson

Samtök atvinnulífsins