Símenntun eykur hæfni og starfsánægju

Á undanförnum misserum hefur nokkur fjöldi fyrirtækja notfært sér tilboð fræðslusjóðanna Starfsafls og Landsmenntar um að fá mannauðsráðgjafa að láni. Tilgangurinn er að auka hæfni starfsmanna og draga úr starfsmannaveltu. Forstjóri Vífilfells, Árni Stefánsson, segir að viðbótarmenntun starfsfólks skili sér í aukinni hæfni og meiri starfsánægju.Starfsmannastjóri Vífilfells, Anna María Pétursdóttir, segir reynslu fyrirtækisins af viku símenntunar mjög góða

Jákvæð reynsla Vífilfells
Starfsmenn Vífifells eru á þriðja hundrað en allir nýir starfsmenn fá afhentan bækling þar sem starfsmannastefna fyrirtækisins er kynnt ásamt gæðastefnu og jafnréttisáætlun. Vífilfell gerir jafnfrmt þjálfunaráætlun fyrir nýja starfsmenn og fá þeir sérstakan stuðning eldri starfsmanna fyrstu vikurnar.

Vífilfell leggur áherslu á að sem flestir starfsmenn eigi þess kost að kunna vel á tölvur og stendur m.a. til að setja upp netkaffihús innan fyrirtækisins. Árni Stefánsson forstjóri Vífilfells segir það sína reynslu að viðbótarmenntun skili sér í aukinni hæfni almennt, meiri starfsánægju og færni við að takast á við breytingar. Hann segist ekki óttast að fólk mennti sig úr starfi hjá fyrirtækinu, menntun skili ánægðun starfsmönnum sem hafi metnað fyrir hönd fyrirtækisins.

Vika símenntunar árangursrík
Í viku símenntunar, sem nýverið stóð yfir, var fenginn fulltrúi frá Mími símenntun í heimsókn til Vífilfells til að veita upplýsingar um fjölbreytt nám á ýmsum sviðum. Þá var fenginn náms- og starfsráðgjafi á staðinn til að spjalla við starfsmenn. Anna María Pétursdóttir, starfsmannastjóri Vífilfells, segir afraksturinn bæði góðan og ótvíræðan. Af rúmlega 200 starfsmönnum, sem eru með mislanga formlega menntun að baki, ætla á þriðja tug fólks að afla sér frekari upplýsinga um námsmöguleika og aðstoðar fyrirtækið þá við það.

Menntun efld til 2020
Aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldið settu sér markmið varðandi menntunarstig þjóðarinnar árið 2020 í síðustu kjarasamningum og á sama tíma var samið um hækkun framlags í fræðslusjóði. Stefnt er að því að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020. Vilji og aðstæður fólks til að bæta stöðu sína ræður þó mestu um hvort markmið nást. En fyrirtæki þar sem stjórnendur hafa gert upp við sig að aukin menntun og símenntun allra sé af hinu góða og fyrirtækinu í hag, leggja þungt lóð á vogarskálarnar.