Fréttir - 

22. maí 2019

Sigur fyrir lífskjörin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sigur fyrir lífskjörin

Vaxtalækkun Seðlabanka Íslands er mikið gleðiefni fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Vaxtalækkunin styrkir Lífskjarasamninginn með því að draga úr vaxtakostnaði heimila og skapar svigrúm fyrir fyrirtækin til að mæta kostnaðarauka kjarasamningsins.

Vaxtalækkun Seðlabanka Íslands er mikið gleðiefni fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Vaxtalækkunin styrkir Lífskjarasamninginn með því að draga úr vaxtakostnaði heimila og skapar svigrúm fyrir fyrirtækin til að mæta kostnaðarauka kjarasamningsins.

Verkalýðshreyfingin á hrós skilið fyrir að hafa lagt á vaðið og tekið áhættu við gerð Lífskjarasamningsins.

Peningastefnunefnd áréttar afdráttarlausan stuðning við Lífskjarasamninginn:

„Þótt nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði feli í sér myndarlegar launahækkanir var niðurstaða þeirra í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið en margir bjuggust við. Verðbólguvæntingar hafa því lækkað á ný en þær hækkuðu umtalsvert er leið á síðasta ár. Langtímaverðbólguvæntingar á markaði eru nú komnar undir 3%.“ Seðlabankinn metur stöðuna hárrétt og viðbrögð hans senda tón sem ómar inn í framtíð vinnumarkaðarins.

Skýr launastefna hefur verið mörkuð fyrir allan vinnumarkaðinn. Launastefnan hefur verið borin undir atkvæði verkalýðsfélaga sem samþykktu hana með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, eða 80%, og  98% atvinnurekenda í Samtökum atvinnulífsins studdu hana.

Vaxtalækkun Seðlabankans í dag markar skörp skil frá vinnubrögðum fortíðar og er sigur fyrir lífskjör alls þorra landsmanna.

Samtök atvinnulífsins