Efnahagsmál - 

11. Janúar 2005

Siðferði í góðu lagi hjá íslenskum stjórnendum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Siðferði í góðu lagi hjá íslenskum stjórnendum

Yfirskrift morgunverðarfundarins var Traust í viðskiptalífinu - Getur gott siðferði borgað sig? Frummælendur voru Halldór Reynisson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu, Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild HÍ og Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, fréttamaður, sá um fundarstjórn, en í pallborðsumræðum tóku þátt þau Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar, Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri Meiðs, Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og Jón Sigurðsson, Seðlabankastjóri.

Yfirskrift morgunverðarfundarins var Traust í viðskiptalífinu - Getur gott siðferði borgað sig? Frummælendur voru Halldór Reynisson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu, Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild HÍ og Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, fréttamaður, sá um fundarstjórn, en í pallborðsumræðum tóku þátt þau Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar, Erlendur Hjaltason, framkvæmdastjóri Meiðs, Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og Jón Sigurðsson, Seðlabankastjóri.

Það borgar sig að breyta rétt
Erindi frummælenda á fundinum má nálgast hér á síðunni auk ítarefnis en fyrstur á stokk steig Halldór Reynisson. Hann velti þeirri spurningu fyrir sér hvort það borgaði sig að breyta rétt og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri - þegar upp væri staðið. "Fyrirtæki sem eru þekkt fyrir siðferðilegan sjálfsaga halda betur viðskiptavinum en önnur sagði Halldór og bætti því auk þess við að því fylgdi oft mikil vanlíðan hjá stjórnendum sem yrðu uppvísir að því að brjóta almennt viðurkennd siðalögmál eða lög. Sjá erindi Halldórs


Efnahagslíf án trausts óhugsandi
Gylfi Magnússon ræddi um í erindi sínu um hagfræði trúverðugleika og í meðfylgjandi grein kafar Gylfi dýpra í efnið. "Nánast öll viðskipti byggja á trausti að meira eða minna leyti. Væri það ekki til staðar myndi hægja svo mjög á hjólum efnahagslífsins að það yrði vart svipur hjá sjón," segir Gylfi. Máli sínu til stuðnings nefndi Gylfi uppboðsvefinn eBay á Netinu, þar sem traust spilar mikilvægt hlutverk í viðskiptum manna. Í máli Gylfa í morgun kom fram að Íslendingar væru ótvírætt í hópi þeirra þjóða sem hafa skilvirkast efnahagslíf - það bendi til þess að þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp flækist ekki um of fyrir efnahagslífinu. Gylfi sagði félagsauð Íslendinga hafa vaxið að undanförnu og annan auð með honum. Félagsauður Íslendinga væri mikill á flestum sviðum, og eitt dæmi um aukinn félagsauð væri samruni íslensks fjármálamarkaðar við fjármálamarkað nágrannalandanna. Sjá erindi Gylfa

Gott siðferði
Þá kynnti Þröstur Olaf Sigurjónsson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, nýja könnun sem hann gerði meðal 400 íslenskra stjórnenda um viðhorf þeirra til siðferðis í íslensku viðskiptalífi. Niðurstöðu könnunarinnar í heild má finna hér að neðan, en meðal þess sem þar kemur fram er að 60% svarenda eru sammála því að siðferði í viðskiptum hafi farið batnandi undanfarin ár og telja jafnframt að siðferði í viðskiptum sé gott miðað við nágrannalönd okkar. Þá segjast 78% svarenda að stjórnendur séu gerðir ábyrgir fyrir brotum á siðareglum fyrirtækis en í könnuninni kom fram að tvö af hverjum þremur fyrirtækjum hafi innleitt eigin siðareglur. Nær allir stjórnendur, eða 93% þeirra, telja að það komi í bakið á mönnum ef þeir breyta rangt í viðskiptum. Stjórnendur segja þá eldri betri en þá yngri og eru yngri stjórnendur eru sammála því. Kvenstjórnendur viðhafa síðan betra siðferði en karlar, um það eru bæði kynin sammála. Sjá slæður Þrastar


Fjörugar umræður
Í pallborðsumræðum kom fram hjá Erlendi Hjaltasyni að hann telji að íslensk fyrirtæki séu vel meðvituðum um ábyrgð sína í samfélaginu - þau taki verulegan þátt í ýmsum félagslegum verkefnum. Benedikt Jóhannesson sagði smæð íslenska markaðarins kalla á varúð, að traust þyrfti að ríkja í umhverfi viðskiptalífsins ekki síður en í viðskiptalífinu sjálfu og vísaði þar til eftirlitsstofnana og fjölmiðla. Hann sagði mikilvægt að reglur væru skýrar og að þær giltu um alla, það væri einnig mikilvægt að málsmeðferð væri hröð. Það væri ekki gott að menn sætu undir grun um eitthvað misjafnt í langan tíma án þess að niðurstaða fengist.


Erlendur Hjaltason sagði á fundinum að siðferðisvitund íslenskra stjórnenda væri að verða alþjóðlegri enda þyrftu stærri fyrirtæki landsins að spila eftir þeim leikreglum sem væru við lýði í Evrópu. Guðfinna Bjarnadóttir sagði að eflaust væru Íslendingar betur á vegi staddir en oft væri í veðri látið vaka og hún sagðist ekki vera talsmaður þess að hér þyrfti að setja viðskiptalífinu strangari reglur. Jón Sigurðsson, tók undir þau orð og sagði að orðheldni í viðskiptalífinu væri ómetanleg til fjár - það væri aldrei hægt að setja formlegar reglur sem næðu yfir allt viðskiptalífið. Varast ætti ennfremur að skilgreina siðferði eftir því hvort það ætti við í opinbera geiranum, einkalífinu eða í viðskiptum - annað hvort séu menn heiðarlegir og orðheldnir eða ekki.

Samtök atvinnulífsins