Vinnumarkaður - 

22. Mars 2015

SGS vill að hæstu laun hækki mest

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SGS vill að hæstu laun hækki mest

Það er alvarleg staða sem við blasir á vinnumarkaði og stefnir í átök að óbreyttu. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, segir brýnt að finna farsæla lausn en Samtök atvinnulífsins hafa aldrei staðið frammi fyrir jafn háum launakröfum og nú. Fyrir þriggja ára samning krefst SGS 50-70% launahækkana fyrir alla félagsmenn sína og að hæstu laun hækki hlutfallslega mest. Önnur verkalýðsfélög krefjast 20-45% launahækkana fyrir aðeins árssamning. Þetta kom m.a. fram á fjölsóttum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór á Akureyri á föstudagsmorgun.

Það er alvarleg staða sem við blasir á vinnumarkaði og stefnir í átök að óbreyttu. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, segir brýnt að finna farsæla lausn en Samtök atvinnulífsins hafa aldrei staðið frammi fyrir jafn háum launakröfum og nú. Fyrir þriggja ára samning krefst SGS 50-70% launahækkana fyrir alla félagsmenn sína og að hæstu laun hækki hlutfallslega mest. Önnur verkalýðsfélög krefjast 20-45% launahækkana fyrir aðeins árssamning. Þetta kom m.a. fram á fjölsóttum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fór á Akureyri á föstudagsmorgun.

Stjórnendur stórra og smárra fyrirtækja úr fjölbreyttum atvinnugreinum sóttu fundinn og lýstu þeir yfir áhyggjum af þessum háu kröfum og sögðu afleiðingarnar verða alvarlegar ef á þær verði fallist. Innlend framleiðslufyrirtæki standi engan veginn undir svona miklum hækkunum, þær séu ávísun á uppsagnir starfsfólks og samdrátt í rekstri. Þá kom fram að lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni sem hafa fjárfest mikið á undanförnum árum muni sligast undan svo miklum hækkunum. Áhrifin yrðu sérstaklega slæm fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem hefur ekki notið fjölgunar ferðamanna í eins ríkum mæli eins og ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ísland sé nú þegar dýrt land en hætta sé á að ferðamenn velji aðra áfangastaði hækki kostnaður við ferðalög til landsins enn frekar.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, fór á fundinum yfir áherslur Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi kjaraviðræðum. Hann sagði Íslendinga hafa að undanförnu búið við óvenju mikinn efnahagslegan stöðugleika, hagvöxt sem byggi á útflutningi, og hægt og bítandi hafi kaupmáttur launa vaxið til jafns við það sem hann var fyrir hrun. Þessum árangri sé stefnt í voða ef tugprósenta launahækkanir verði að veruleika með mikilli verðbólgu, hraðri skuldaaukningu fyrirtækja og heimila, hærri vöxtum, gengisfellingu krónunnar og verri lífskjörum. Á fundinum komu fram áhyggjur af því að þessi sviðsmynd verði að veruleika sem Íslendingar þekkja allt of vel – hamfarasaga óðaverðbólgu og gengisfellinga með reglulegu millibili.

Tengt efni:

Kröfur SGS ná til alls launafólks

SA leggja til nýjar leiðir í kjarasamningum

Samtök atvinnulífsins