Sérstök hækkun lægstu launa færi upp allan launastigann
Aðspurð hvort "sérstakar" hækkanir lægstu launa myndu í raun leiða til samsvarandi hækkana upp allan launastigann segjast 65% fyrirtækja telja svo vera, 24% svara því neitandi og 11% taka ekki afstöðu, skv. niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Ef einungis eru skoðuð svör þeirra sem eru með starfsfólk sem þiggur laun samkvæmt lægstu umsömdum töxtum verkafólks svara 71% játandi, 18% neitandi en 11% taka ekki afstöðu. Ef einungis eru skoðaðir þeir sem taka afstöðu og hafa starfsfólk á lægstu umsömdu töxtum á launaskrá sinni telja 80% þeirra að sérstakar hækkanir lægstu launa myndu í raun leiða til samsvarandi hækkana upp allan launastigann, en 20% sem telja að svo væri ekki.
(Smellið á myndina)
Svigrúmið fullnýtt
Í síðasta fréttabréfi SA var fjallað um mikla umframhækkun
lágmarkslauna undanfarin ár og á það bent að liðið hafi tæpur
áratugur, þ.e. árin 1988-1996, án þess að gerðar hafi verið
stórtækar tilraunir til sérstakrar hækkunar lægstu launa, og því
hefði verið komið ákveðið tilefni til sérstakrar hækkunar lægstu
launa. Þær láglaunaaðgerðir virðast líka hafa skilað tilætluðum
árangri. Því var hins vegar haldið fram að við núverandi
aðstæður, þar sem almennir launataxtar eru mun nær greiddum launum
en áður, myndu sérstakar hækkanir lægstu launa mistakast og færast
upp allan launastigann. Svigrúm til sérstakra hækkana lægstu launa
hafi með öðrum orðum verið fullnýtt undanfarin tvö
samningstímabil.
Viðhorf byggð á traustum grunni
Þau viðhorf atvinnurekenda sem mæld eru í könnun SA byggja á
traustum grunni í ljósi þess að hlutfall lágmarkslauna af
meðallaunum hefur í reynd verið nokkuð stöðugt undanfarna
áratugi, þegar lengri tímabil eru skoðuð. Frá árinu 1985 hefur
hlufall lágmarkslauna af meðallaunum sveiflast í kringum 50% sem er
svipað hlutfall og í öðrum löndum. Í Frakklandi, Belgíu,
Hollandi,Grikklandi og Lúxemborg hefur þetta hlutfall verið 50-60%
en í Bandaríkjunum, Spáni, Portúgal hefur það verið á bilinu
40-45%. Þessar upplýsingar komu fram í rannsókn sem Sigurður
Jóhannesson, hagfræðingur, kynnti á málstofu Hagfræðistofnunar í
september sl. Í rannsókninni, sem nær til launaþróunar á tímabilinu
1987-2003, er komist að þeirri niðurstöðu að á fjórum árum hækki
meðallaun um 80% af sérhækkun lágmarkslauna. Hækkun lágmarkslauna
fer sem sagt upp allan launaskalann, en það tekur nokkur ár.
Um könnunina
Könnunin var gerð í október 2003. Spurningar voru sendar 955
fyrirtækjum og svör bárust frá 534, eða 56%.