Vinnumarkaður - 

24. nóvember 2016

Sérstakar hækkanir lægstu launa hafa að mestu gengið upp allan launastigann

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sérstakar hækkanir lægstu launa hafa að mestu gengið upp allan launastigann

Undanfarinn áratug hafa stéttarfélög verkafólks náð fram kröfum sínum um sérstakar hækkanir lægstu launa umfram hærri laun. Kauptaxtar hafa hækkað um tilteknar krónutölur sem falið hafa í sér mun meiri hlutfallshækkanir lægstu launa en þær almennu hlutfallshækkanir sem um hefur samist. Slíkar kröfur njóta iðulega mikils stuðnings almennings og stjórnmálamanna, a.m.k. í orði kveðnu. Stuðningur við slíka kjarastefnu byggir á sanngirnissjónarmiðum og þeirri staðreynd að lægstu laun eru alltaf talin lág og illa duga til framfærslu. Megingalli stefnunnar er hins vegar sá að launabil geta þrengst um of og því eru takmörk sett.

Undanfarinn áratug hafa stéttarfélög verkafólks náð fram kröfum sínum um sérstakar hækkanir lægstu launa umfram hærri laun. Kauptaxtar hafa hækkað um tilteknar krónutölur sem falið hafa í sér mun meiri hlutfallshækkanir lægstu launa en þær almennu hlutfallshækkanir sem um hefur samist. Slíkar kröfur njóta iðulega mikils stuðnings almennings og stjórnmálamanna, a.m.k. í orði kveðnu. Stuðningur við slíka kjarastefnu byggir á sanngirnissjónarmiðum og þeirri staðreynd að lægstu laun eru alltaf talin lág og illa duga til framfærslu. Megingalli stefnunnar er hins vegar sá að launabil geta þrengst um of og því eru takmörk sett.

Mikil reynsla hefur þannig myndast af slíkum aðgerðum á íslenskum vinnumarkaði og hefur útkoman í flestum tilvikum verið sú að sérstakar hækkanir lægstu launataxta skila sér í sambærilegum hækkunum ofar í launastiganum þó misjafnt sé hve langan tíma það hefur tekið. Persónubundnir samningar starfsmanna og fyrirtækja taka fremur mið af framleiðni starfsmanna, framboði og eftirspurn, en miðlægum ákvörðunum í kjarasamningum og leita hlutfallsleg laun með tímanum í sama horf og þau voru fyrir hinar sérstöku hækkanir lægstu launa.

Tímabil láglaunaaðgerða 2008-2015
Tímabilið 2008-2015 einkenndust kjarasamningar af krónutöluhækkunum lægstu launataxta umfram almennar launahækkanir. Á tímabilinu öllu hækkuðu lægstu launataxtar um tæpar 110 þúsund krónur sem fól í sér 69-92% hækkun launataxta Starfsgreinasambandsins. Á sama tíma var samið um 34% almennar launahækkanir.[1]

undefined

Hækkanir lægstu launa skila sér að lokum til annarra hópa
Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á að krónutöluhækkanir gangi á endanum upp allan launastigann. Líkt og aðrir markaðir hefur vinnumarkaðurinn framboðs- og eftirspurnarhlið. Samspil þeirra ræður styrk mismunandi starfsgreina á markaðnum. Samþjöppun launabila milli starfsgreina er dæmd til þess að mistakast ef nauðsynlegar forsendur skortir. Vinnumarkaðurinn aðlagast yfir tíma og umbunar starfsfólki fyrir frammistöðu, reynslu, hæfni og menntun og því hafa sérstakar hækkanir til þeirra sem minnsta reynslu og þekkingu hafa tilhneigingu til að færast yfir á aðra hópa.

Hagstofa Íslands hefur að ósk SA og ASÍ tekið saman gagnasafn sem inniheldur launahækkanir allra launamanna í aðildarfélögum ASÍ. Gagnasafninu er skipt í tvennt, láglaunahóp með laun jöfn eða undir 17. launaflokki í kjarasamningi SGS og SA og aðra hærri launaða. Á tímabilinu 2008-2015 hækkaði reglulegt tímakaup láglaunahópsins um 76,2% en á sama tíma hækkaði reglulegt tímakaup hærra launaða hópsins um 57,6%. Umframhækkun láglaunahópsins var þannig 11,8%. Ef ekki hefði komið til annarra hækkana en þeirra sem samið var um í kjarasamningum hefði láglaunahópurinn átt að hækka um 25-35% umfram hærra launaða hópinn. Launaskrið hefur því dregið úr vægi láglaunahækkananna og ætla má að svo verði áfram þar til hlutfallslaun eru orðin svipuð og þau voru fyrir aðgerðirnar.

Ef litið er á myndina hér að neðan liggur beint við að skipta tímabilinu í þrennt.

undefined

2008-2009
Þessi gögn sýna að stefnan um að hækka lægri laun umfram hærri laun gekk að nokkru leyti eftir, einkum á árinu 2008. Á þessum árum brugðust þó launagreiðendur við sérstökum hækkunum lægstu launa með því að draga úr öðrum greiðslum og til þessa hóps í stað þess að fleyta hækkunum upp launastigann. Það mega teljast eðlileg viðbrögð í þeirri efnahagskreppu sem þá ríkti  enda lítið svigrúm í efnahagslífinu til launahækkana. Þessi viðbrögð launagreiðenda, að mæta miklum taxtahækkunum með lækkun aukagreiðslna til lægst launaða hópsins, skiluðu á endanum svipaðri niðurstöðu og launaskrið, þ.e. mun minni samþjöppun launa en fólst í kjarasamningunum.

2010-2013
Launagreiðendur brugðust við umframhækkunum lægstu launataxta með launaskriði hærra launaða hópsins þannig að hækkanir beggja hópa urðu svipaðar.

2014-2015
Töluverð samþjöppun varð í launastiganum, einkum árið 2015. Líklegt er að nokkurn tíma taki fyrir sérstakar hækkanir lægstu launa árin 2014 og 2015 að ganga upp launastigann að fullu þar sem hækkanirnar voru mjög miklar og þungar fyrir atvinnulífið.

Í kröfu um hækkun til samræmis við launavísitölu felst krafa um hlutdeild í hækkun lægstu launa
Sérstakar hækkanir lægstu launa hafa áhrif á launavísitölu eins og aðrar launahækkanir. Það ber að hafa í huga að þegar aðilar skoða launaþróun síðustu ára. Í kröfu um hækkun til samræmis við launavísitölu felst krafa um hlutdeild í hækkun lægstu launa.   

undefined

Mikilvægt er að taka upp öguð vinnubrögð við gerð kjarasamninga
Miklar launahækkanir ákveðinna hópa eru til þess fallnar að raska tímabundið innra jafnvægi hlutfallslauna á vinnumarkaðnum. Höfrungahlaup verður á milli láglaunahópsins og þeirra sem eru hærra launaðir sem veldur því að launakostnaður fyrirtækja hækkar langt umfram það sem þróun undirliggjandi efnahagsstærða gefur tilefni til. Miklar launahækkanir hækka raungengi íslensku krónunnar, þ.e. valda lakari samkeppnisstöðu atvinnulífsins gagnvart viðskiptalöndunum, og stuðla  að háum stýrivöxtum Seðlabankans sem síðan veldur styrkingu krónunnar. Að lokum gefur gengið eftir með tilheyrandi verðbólguskoti.

Samtök atvinnulífsins hafa lengi bent á nauðsyn þess að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við gerð kjarasamninga með innleiðingu á nýju vinnumarkaðslíkani að norrænni fyrirmynd sem tekur mið af því að viðhalda samkeppnishæfni útflutningsgreinanna. Almenna reglan sú að öll laun hækka jafnmikið í kjarasamningum, hlutfallslaun ákvarðast í samningum innan fyrirtækja og stofnana og þannig er komið í veg fyrir kostnaðarsama aðlögun atvinnulífsins að miðstýrðum inngripum við gerð kjarasamninga.

[1] Láglaunahópar eru skilgreindir sem þeir hópar sem þiggja grunnlaun undir eða jöfn 17. launaflokki taxta SGS

 

Samtök atvinnulífsins