Fréttir - 

02. Júní 2008

Seðlabanki Evrópu 10 ára

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Seðlabanki Evrópu 10 ára

Þann 1. júní árið 1998 var Seðlabanki Evrópu stofnaður og fagnar bankinn 10 ára afmælinu í dag. Í tilefni dagsins sendir forseti samtaka atvinnulífsins í Evrópu, Ernest-Antoine Seillière, bankaráði seðlabankans kveðju þar sem hann undirstrikar mikilvægi þessa áfanga. Sameiginlegt myntsvæði Evrópu var sett á fót í byrjun árs 1999 og fagnar evran því 10 ára afmæli 1. janúar 2009. Selliére segir upptöku evrunnar hafa verið farsæla fyrir evrópskt atvinnulíf. Sameiginlegur gjaldmiðill sé mikilvægur hlekkur í alþjóðaviðskiptum og hún stuðli að auknum stöðugleika. Með sameiginlegu myntsvæði hafi færst aukinn kraftur í verslun og viðskipti innan Evrópu þar sem evran tryggi beinan aðgang að markaði sem telur 320 milljónir manna.

Þann 1. júní árið 1998 var Seðlabanki Evrópu stofnaður og fagnar bankinn 10 ára afmælinu í dag. Í tilefni dagsins sendir forseti samtaka atvinnulífsins í Evrópu, Ernest-Antoine Seillière, bankaráði seðlabankans kveðju þar sem hann undirstrikar mikilvægi þessa áfanga. Sameiginlegt myntsvæði Evrópu var sett á fót í byrjun árs 1999 og fagnar evran því 10 ára afmæli 1. janúar 2009. Selliére segir upptöku evrunnar hafa verið farsæla fyrir evrópskt atvinnulíf. Sameiginlegur gjaldmiðill sé mikilvægur hlekkur í alþjóðaviðskiptum og hún stuðli að auknum stöðugleika. Með sameiginlegu myntsvæði hafi færst aukinn kraftur í verslun og viðskipti innan Evrópu þar sem evran tryggi beinan aðgang að markaði sem telur 320 milljónir manna.

Í ársbyrjun 1999 var evra tekin upp í 11 aðildarríkjum ESB en þau verða orðin 16 talsins í janúar 2009 þegar Slóvakía bætist í hóp þeirra. Forseti BUSINESSEUROPE segir evruna vera næst mikilvægasta gjaldmiðil heimsins en hún muni áfram styrkja stöðu sína gagnvart Bandaríkjadal. Sterk staða evrunnar á alþjóðamörkuðum sé mikilvæg og bendir Selliére t.a.m. á að viðskipti með 60% útflutnings frá evru-svæðinu fari fram í evrum. Þá sé nær helmingur alþjóðlegra skuldabréfa og seðla í heiminum gefinn út í evrum miðað við 35% í Bandaríkjadölum.

Eitt af því sem upptaka evru hefur haft í för með sér er aukið gagnsæi í viðskiptum, niðurfelling  viðskiptahindrana og efling evrópsks fjármálamarkaðar. Selliére segir neytendur hafa hagnast á hinu sameiginlega myntsvæði þar sem það hafi m.a. skapað umhverfi sem leiði til lágrar verðbólgu og öflugs atvinnulífs - auk öflugs sameiginlegs markaðar. Fyrirtæki njóti þess jafnframt að eiga Seðlabanka Evrópu að sem öflugan bakhjarl sem haldið geti vöxtum niðri eins og frekast er kostur. Það hafi sýnt sig í alþjóðlegu fjármálakrísunni sem braust út á haustdögum 2007 að miklu máli hafi skipt fyrir Evrópu að hafa sameiginlegan gjaldmiðil og sterkan seðlabanka sem hafi getað brugðist við með kröftugum hætti til að lágmarka áhrif krísunnar á evrópskt efnahagslíf.

Þrátt fyrir almenna jákvæðni í garð evrunnar viðurkennir Selliére þó að upptaka hennar sé engin töfralausn og bendir á að ekki hafi öllum löndum farnast jafnvel sem hafi tekið hana upp og bendir í því samhengi á lönd eins og Ítalíu, Spán og Frakkland. Það hafi hins vegar verið ljóst frá upphafi að það yrði krefjandi að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil og peningamálastefnu fullvalda ríkja þar sem efnahagsaðstæður væru með ólíkum hætti. Framundan sé að ná betri tökum á stjórn efnahagsmála á evru-svæðinu og tryggja að evran haldi mikilvægi sínu - viðskiptalífið í Evrópu sé tilbúið til að leggja sitt af mörkum í þeim efnum.

SA og SI eiga aðild að BUSINESSEUROPE - samtökum atvinnulífsins í Evrópu.

Sjá nánar:

Bréf Ernest-Antoine Seilliére (PDF)

Ítarleg umfjöllun Seðlabanka Evrópu um fyrstu 10 árin - fjölmörg myndskeið

Samtök atvinnulífsins