Efnahagsmál - 

12. Nóvember 2010

Samtök atvinnulífsins vilja víðtækt samstarf um atvinnusköpun og bætt lífskjör

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samtök atvinnulífsins vilja víðtækt samstarf um atvinnusköpun og bætt lífskjör

Spár um framvindu efnahagsmála á þessu og næsta ári gefa ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni. Opinberir aðilar og aðrir greiningaraðilar spá 2,5-3% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári. Á næstu árum er spáð 2-3% hagvexti. Samkvæmt þessum spám mun ganga erfiðlega að komast út úr kreppunni, skapa ný störf og endurheimta fyrri lífskjör.

Spár um framvindu efnahagsmála á þessu og næsta ári gefa ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni.  Opinberir aðilar og aðrir greiningaraðilar spá 2,5-3%  samdrætti landsframleiðslu á þessu ári.  Á næstu árum er spáð  2-3% hagvexti.  Samkvæmt þessum spám mun ganga erfiðlega að komast út úr kreppunni, skapa ný störf og endurheimta fyrri lífskjör.

Þessar spár eru hins vegar ekki raunveruleiki. Ennþá.  Þær sýna hver þróunin geti orðið en ekki endilega hvernig hún verði.  Það er unnt að breyta þessari mynd til betri vegar þannig að hagvöxtur verði meiri, fleiri störf skapist og lífskjör batni á nýjan leik.  Samtök atvinnulífsins hafa sett fram þá stefnu að árlegur hagvöxtur þurfi að vera 4% - 5% næstu árin.  Það þýðir að innan fimm ára verði atvinnuleysi aftur ásættanlegt, lífskjör samkeppnishæf við nágrannalöndin og skuldir ríkissjóðs hafi minnkað.

Starf Samtaka atvinnulífsins á næstu mánuðum miðast við að gera kjarasamninga sem skapi skilyrði til að atvinnulífið komist upp úr kreppunni og nái fyrri styrk.  Þetta verður mikilvæg vegferð en ekki auðveld.

Grunnhugsunin er sú að allir aðilar vinnumarkaðarins ákveði að fara sameiginlega í þennan leiðangur. Leiðarljósið verði að kjarasamningar allra hópa leiði til sambærilegra og hóflegra launahækkana og hafi sama upphafspunkt og sama endapunkt. Kjarasamningar þurfa að vera til a.m.k. þriggja ára til þess að skapa grundvöll fyrir stöðugleika í launamálum og vinnufrið.

Ónógar fjárfestingar eru lykilástæðan fyrir þeirri metnaðarlitlu framtíðarsýn sem kemur fram í spám um takmarkaðan hagvöxt á næstu árum. Fjárfestingar á Íslandi eru of litlar til að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins og tryggja störf til lengri tíma. Fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, skapa bæði varanleg störf og störf til skemmri tíma. Þær tryggja auknar útflutningstekjur, styrkari gjaldmiðil og bætt lífskjör til lengri tíma.

Kjarasamningarnir eru því önnur hliðin á þeim lukkupeningi sem tryggir framfarir á næstu árum.  Hin hliðin snýr að ríkisstjórn og Alþingi sem þurfa að skapa skilyrði sem hvetja fyrirtæki til fjárfestinga og nýráðninga. Þar kemur til nauðsyn þess m.a. að tryggja framgang stórra fjárfestingarverkefna sem þegar eru hafin, laða að erlendar fjárfestingar til frekari verkefna og síðast en ekki síst að skapa möguleika fyrir þúsundir íslenskra fyrirtækja, smárra sem stórra, til þess að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Fyrirtækin þurfa bæði að vilja fjárfesta og geta það. Saman þurfa allir ábyrgir aðilar að leggja sitt af mörkum þannig að árangur  náist.

Samtök atvinnulífsins leita eftir samstarfi allra aðila vinnumarkaðarins til þess að ná samstöðu um kjarasamninga sem marka leiðina upp úr kreppunni. Samtök atvinnulífsins leita líka eftir því við ríkisstjórn og Alþingi að koma að málum. Á næstu vikum mun reyna á hvort samstaða næst á vinnumarkaðnum um þessa leið og í framhaldi af þeirri niðurstöðu þurfa ríkisstjórn og Alþingi að koma að málum.  Aðkoma ríkisstjórnar og Alþingis þarf að miðast við að samhliða kjarasamningum verði viðeigandi lagafrumvörp afgreidd, eða lokaákvarðanir teknar, vegna þeirra mála sem samningunum tengjast og snúa að starfsskilyrðum atvinnulífs og stöðu heimila. Slík aðferð er til þess fallin að byggja að nýju upp það traust sem glatast hefur milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Samtök atvinnulífsins vilja víðtækt samstarf um atvinnusköpun og betri lífskjör en munu standa gegn ævintýramennsku í kjarasamningum, verðbólgu og áframhaldandi atvinnuleysi.  Samtökin vilja víðtækt samstarf um að virkja þann kraft sem býr í íslenskum fyrirtækjum, kraftinn sem getur skilað okkur upp úr kreppunni og fært okkur aftur störf og lífskjör sem glatast hafa.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í nóvember 2010

Samtök atvinnulífsins