13. október 2025

SA og SVÞ hvetja stjórnvöld til að hafna nýju kolefnisgjaldi á sjóflutninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA og SVÞ hvetja stjórnvöld til að hafna nýju kolefnisgjaldi á sjóflutninga

Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu vara við því að fyrirhugað alþjóðlegt kolefnisgjaldakerfi fyrir skipaflutninga, svonefnt Net-Zero Framework (NZF) á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), geti haft alvarleg áhrif á samkeppnishæfni og verðmætasköpun á Íslandi.

Ísland er háð sjóflutningum til og frá landinu. Landfræðileg lega og erfiðar aðstæður á Norður-Atlantshafi gera það að verkum að landið er sérlega viðkvæmt fyrir kostnaðaraukningu í alþjóðlegum flutningum. Samtökin benda á að NZF muni að öllum líkindum hækka kostnað við flutninga til og frá landinu verulega, sem gæti numið milljörðum eða jafnvel tugum milljarða króna.

Kerfið felur í sér strangari kröfur um losunarkræfni orku skipa og gjaldtöku vegna losunar umfram ákveðin viðmið, sem herðast stig af stigi. Samkvæmt upplýsingum sem samtökin hafa aflað verða gjöldin líklega hærri en meðaltalsverð losunarheimilda í evrópska ETS-kerfinu undanfarin ár. Þá telja samtökin ólíklegt að íslensk skipafélög geti að fullu uppfyllt kröfur NZF til skemmri og miðlungs tíma vegna fjarlægðar, veðuraðstæðna og takmarkaðs aðgengis að vistvænu eldsneyti.

SA og SVÞ benda á að óvissa ríki um hvernig nýja kerfið muni tengjast núverandi evrópskum reglum um losun, s.s. ETS og FuelEU Maritime. Ekki liggur fyrir hvort þessi kerfi verði felld niður eða haldi áfram samhliða NZF, en það gæti þýtt að skipafélög þurfi að greiða tvöfalt fyrir losun.

Samtökin telja að ekki hafi verið unnið fullnægjandi áhrifamat á hvernig NZF muni bitna á Íslandi. Slík greining þurfi að taka mið af sérstöðu landsin, einangrun þess, lengri siglingaleiðum og háu hlutfalli sjóflutninga í vöruflæði. Án þess sé ekki unnt að taka upplýsta ákvörðun um afstöðu Íslands til málsins.

„Samtök atvinnulífsins og Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á að Ísland beiti sér fyrir því að þjóðir heimsins endurmeti tillöguna og að unnið verði að undanþágum fyrir ríki sem standa frammi fyrir sértækum áskorunum vegna legu og aðstæðna,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA. „Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að hafna að óbreyttu staðfestingu á NZF á næsta fundi umhverfisnefndar IMO sem fram fer í vikunni.“

Samtök atvinnulífsins