Vinnumarkaður - 

21. Júní 2011

Samtök atvinnulífsins sýna ábyrgð og staðfesta kjarasamninga þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnar Íslands

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samtök atvinnulífsins sýna ábyrgð og staðfesta kjarasamninga þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnar Íslands

SA telja að atvinnuleiðin sé eina færa leiðin fyrir þjóðina út úr kreppunni og stöðugleika á vinnumarkaði nauðsynlegan til þess að hægt sé að bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi.

SA telja að atvinnuleiðin sé eina færa leiðin fyrir þjóðina út úr kreppunni og stöðugleika á vinnumarkaði nauðsynlegan til þess að hægt sé að bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi.

Ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun, sem liggja átti fyrir í lok maí, en fjárfestingar eru lykilforsenda þess að hér náist 4-5% hagvöxtur á árunum 2012 og 2013.

Sérfræðinefnd ríkisstjórnarinnar gaf stefnu hennar í sjávarútvegsmálum falleinkunn og sama hefur OECD gert. SA krefjast þess að ríkisstjórnin standi við eigin yfirlýsingar um raunverulega sátt um hagkvæman sjávarútveg.

Samtök atvinnulífsins vinna að því að tryggja hag alls atvinnulífsins og þjóðarinnar. Tækju samningarnir ekki gildi 22. júní hefði það mikla röskun og óvissu í för með sér. Samtök atvinnulífsins telja slíka ákvörðun ekki réttlætanlega þrátt fyrir vanefndir ríkisstjórnarinnar.

Atvinnuleiðin og hagvöxtur eru forsendur þess að atvinnulífið rísi undir kjarasamningunum og að unnt verði að auka kaupmátt fólks á næstu árum.

Samningarnir taka gildi        

Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að staðfesta gildistöku kjarasamninga frá 22. júní 2011 í samræmi við ákvæði kjarasamninganna sem undirritaðir voru 5. maí sl. Með því öðlast samningarnir gildi til 31. janúar 2014. Forsendur samninganna verða metnar af sérstakri forsendunefnd aðila í janúar 2012 og janúar 2013 og ef þær standast halda þeir gildi sínu. Ef forsendur standast ekki getur annað tveggja gerst, að þeir haldi gildi sínu með breytingum sem aðilar koma sér saman um eða að þeim verði sagt upp af öðrum hvorum aðila eða báðum og verða þeir þá lausir, annað hvort frá 1. febrúar 2012 eða 1. febrúar 2013.


Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa fjallað um gildistökuna í samræmi við kjarasamningana frá 5. maí sl. Þar er kveðið á um að lagabreytingar og stjórnvaldsákvarðanir sem getið er um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana skuli hafa gengið eftir.

Alþingi hefur þegar samþykkt nokkrar lagabreytingar í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og undirbúningur að ýmsum öðrum málum er ýmist hafinn eða hefst eftir atvikum síðar vegna mála sem ljúka þarf á haustþingi.

Tvö mikilvæg mál hafa ekki gengið eftir eins og til stóð samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Annars vegar hefur fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun ekki verið lögð fram og sameiginleg vinna vegna fjárfestinga í samgöngumannvirkjum hefur engan veginn verið í samræmi við það sem stefnt var að. Hins vegar hefur frumvarpssmíði og lagasetning um sjávarútvegsmál tekið allt aðra stefnu en ríkisstjórnin setti fram í sérstakri bókun sem var hluti yfirlýsingar hennar 5. maí sl. í tengslum við kjarasamningana.

Atvinnuleiðin út úr kreppunni

Auknar fjárfestingar eru lykilforsenda kjarasamninganna og þess markmiðs að hagvöxtur verði 4% - 5% á árunum 2012 og 2013. Slíkur hagvöxtur er nauðsynlegur til þess að atvinnulífið geti staðið undir þeim miklu kostnaðarhækkunum sem í samningunum felast og forsenda þess að þær valdi ekki mikilli verðbólgu. Hagvöxtur sem er mun meiri en hagspár gera ráð fyrir eru forsenda þess að það dragi umtalsvert  úr atvinnuleysi og lífskjör almennings getir batnað. Þetta er atvinnuleiðin út kreppunni. 

Fjárfestingar í arðbærum samgöngubótum skipta verulegu máli fyrir atvinnulífið og nýtast þjóðinni til lengri tíma. Það er afar skynsamlegt að ráðast í sérstakt átak í yfirstandandi efnahagslægð vegna vannýtingar framleiðsluþátta; starfsfólks, tækja og búnaðar. Vilja hefur því miður skort til þess að leiða fjármögnunarþátt framkvæmdanna til lykta þrátt fyrir að Samtök atvinnulífsins hafi ítrekað þrýst á málið og verið fús til hvers konar samstarfs til að ná samstöðu.

Falleinkunn ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum

Sjávarútvegsmálin hafa þróast með allt öðrum hætti en ríkisstjórnin ákvað með bókun sinni 5. maí. Samkvæmt henni átti sérstakur samráðshópur að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar og leita sáttar um útfærslur sem tryggi sjávarútvegi góð rekstrarskilyrði eftir að nefnd sérfræðinga hefði skilað sérstakri hagfræðilegri úttekt. Þessu ferli átti að vera lokið um mánaðamótin maí/júní.

Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að flytja tvö frumvörp um sjávarútvegsmálin og annað þeirra var lögfest án þess að nokkurt sáttastarf væri reynt eins og bókun ríkisstjórnarinnar kvað á um. Einn fundur var haldinn 20. júní vegna hins frumvarpsins en þá hafði sérfræðinganefndin loks skilað áliti um það.

Bæði nýsamþykkt lög og fyrirliggjandi frumvarp hafa í för með sér mjög alvarlegar og íþyngjandi afleiðingar fyrir sjávarútveginn eins og berlega kemur fram í úttekt sérfræðinganna. Nú hefur OECD varað við því að ráðist verði í grundvallarbreytingar á kvótakerfinu. Því er óviðunandi og hreint ábyrgðarleysi að ríkisstjórnin hafi sýnt jafn lítinn vilja til raunverulegrar sáttar í málinu eins og raun ber vitni þrátt fyrir bókunina frá 5. maí.

SA sýna ábyrgð

Samtök atvinnulífsins telja að kjarasamningarnir sem gerðir voru til loka janúar 2014 séu mikilvægt framlag til þess að þjóðin komist út úr kreppunni sem leikið hefur íslensk fyrirtæki og heimili grátt. Kjarasamningarnir eru vissulega kostnaðarsamir fyrir atvinnulífið en atvinnuleiðin út úr kreppunni, sem byggir á auknum fjárfestingum, er sú eina sem er fær.


Samtök atvinnulífsins vinna af fullri ábyrgð við að tryggja hag alls atvinnulífsins og þjóðarinnar. Ákvörðun um að samningarnir tækju ekki gildi 22. júní hefði mikla röskun og óvissu í för með sér. Samtök atvinnulífsins telja slíka ákvörðun ekki réttlætanlega þrátt fyrir að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hafi ekki gengið eftir í þeim mikilvægu málum sem getið hefur verið.


Samtök atvinnulífsins kalla eftir því að ríkisstjórnin sýni fulla ábyrgð gagnvart kjarasamningunum og eigin yfirlýsingum. Í því felst að ríkisstjórnin hafi raunverulega forystu um að auka fjárfestingar, þ.m.t. í samgönguframkvæmdum, og tryggi að atvinnuleiðin út úr kreppunni verði farin. Jafnframt verður ríkisstjórnin að láta af hernaði sínum gagnvart sjávarútveginum, einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, og hafa forgöngu um raunverulega sátt til þess að treysta stöðu sjávarútvegsins sem hagkvæmrar atvinnugreinar í fremstu röð.

Umfjöllun fjölmiðla:

Frétt RÚV - Útvarps

Frétt RÚV - Sjónvarps

Frétt Stöðvar 2

Umfjöllun Kastljóss

Samtök atvinnulífsins