1 MIN
Atvinnulífið vill skýrari aðkomu að almannavörnum
Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sameiginlegri umsögn um frumvarp til nýrra laga um almannavarnir. Samtökin telja frumvarpið jákvætt skref í átt að skýrara skipulagi og ábyrgð innan almannavarnakerfisins, en leggja áherslu á að aðkoma atvinnulífsins verði tryggð með skýrari hætti.
Í umsögninni er bent á að núgildandi kerfi samkvæmt lögum frá 2008 hafi staðist bæði heimsfaraldur og náttúruhamfarir síðustu ára. Meðvitund hafi aukist um mikilvægt hlutverk einkageirans í almannavörnum og samstarf hans við hið opinbera þegar áföll dynja yfir. Þrátt fyrir það skorti að frumvarpið festi þessa aðkomu í sessi með nægjanlega formlegum hætti.
Ómissandi innviðir
Samtökin gagnrýna skilgreiningu frumvarpsins á ómissandi innviðum. Þau telja að innviðir sem fyrirsjáanlega eru ómissandi skuli taldir upp í lögum, enda leggur frumvarpið verulegar skyldur á ábyrgðaraðila þeirra. Þunglamalegt ferli við tilgreiningu ómissandi innviða geti að mati samtakanna orðið sjálfstæð áhætta fyrir viðbragðskerfið.
Samráðshópur og neyðarbirgðir
Varðandi samráðshóp ríkislögreglustjóra leggja SA og SVÞ áherslu á að fulltrúar atvinnulífsins eigi þar fast sæti. Þannig nýtist sérþekking einkaaðila á rekstri og aðfangakeðjum betur við ákvarðanatöku. Reynslan sýni að áföll, líkt og í Grindavík, hafi víðtæk áhrif á atvinnulífið sem nauðsynlegt sé að taka mið af.
Samtökin benda einnig á að ekki sé tryggt heildaryfirlit um neyðarbirgðir. Skýrsla vinnuhóps frá 2022 hafi lítið verið nýtt og núverandi fyrirkomulag einkennist af skorti á yfirsýn og samræmingu. Nauðsynlegt sé að ábyrgð og samræming verði á einum stað og að atvinnulífið komi að þeirri vinnu frá upphafi.
Valdheimildir og kostnaður
Í umsögninni eru einnig gerðar athugasemdir við ákvæði um opinbera birtingu viðbragðsáætlana, sem að mati samtakanna geti skapað nýja áhættu. Þá telja þau að valdheimildir lögreglustjóra á hættustundu þurfi að vera skýrari til að tryggja meðalhóf þegar stjórnarskrárvarin réttindi eru skert.
Að lokum gagnrýna SA og SVÞ að frumvarpið kveði ekki á um hvernig kostnaði atvinnulífsins vegna almannavarna verði mætt. Þær skyldur sem lagðar eru á einkaaðila verði að fylgja skýrum ákvæðum um kostnaðarskiptingu. Einnig vanti umfjöllun um nýjar ESB-tilskipanir, NIS 2 og CER, sem muni hafa veruleg áhrif á íslenska löggjöf.
Mikilvægt að endurbæta frumvarpið
Í heildina telja samtökin mikilvægt að frumvarpið verði endurbætt áður en það verður að lögum. Aðkoma atvinnulífsins þurfi að vera tryggð á öllum stigum almannavarna til að kerfið standist áföll framtíðarinnar.