1 MIN
SA fagnar stefnumótun en harmar skort á samráði
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa skilað inn umsögn um drög að stefnu stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni sem birt voru í samráðsgátt 20. júní 2025. Í umsögninni fagna samtökin heildstæðri stefnumótun um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni en telja jafnframt að samráði við atvinnulífið hafi verið ábótavant við undirbúning stefnunnar.
Samtökin benda á að atvinnulífið hafi ríka hagsmuni af heilbrigðu vistkerfi og ætti að vera virkur þátttakandi í mótun aðgerða. Í stýrihópnum sem vann að hvítbókinni um málið áttu fulltrúar atvinnulífsins ekki sæti, og fundir sem haldnir voru með fyrirtækjum hafi ekki tryggt jafnan aðgang allra að samráði. SA leggur áherslu á að slíkt samtal fari fram snemma í ferli skipulags, lagasetningar og leyfisveitinga.
Í umsögninni er einnig bent á mikilvægi jafnvægis milli verndunarmarkmiða og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Núverandi leyfisferli í umhverfis- og skipulagsmálum séu flókin og tímafrek og mikilvægt sé að auka einföldun og skilvirkni í stað þess að bæta við nýjum kvöðum. Áherslur um vernd líffræðilegrar fjölbreytni þurfi að styðja við raunhæfar og hagkvæmar leiðir sem ekki hamli óþarflega uppbyggingu innviða eða nýtingu auðlinda.
Samtökin leggja jafnframt áherslu á samræmt orðalag í íslenskri stefnu og alþjóðlegum skuldbindingum. Þau benda á að drögin víki frá orðalagi Kunming-Montreal-samkomulagsins og telja mikilvægt að slíkt misræmi sé rökstutt sérstaklega til að forðast „gullhúðun“ skuldbindinga.
Í niðurlagi umsagnarinnar ítrekar SA vilja sinn til samstarfs við stjórnvöld um útfærslu aðgerða sem tryggi bæði vernd líffræðilegrar fjölbreytni og traustan rekstrargrundvöll atvinnulífsins. Þá sé brýnt að áhrif nýrrar löggjafar á atvinnulífið séu metin með fullnægjandi hætti, sérstaklega þegar um er að ræða íþyngjandi breytingar.