Efnahagsmál - 

03. Júní 2009

Samtök atvinnulífsins og stjórnir lífeyrissjóða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samtök atvinnulífsins og stjórnir lífeyrissjóða

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um SA og stjórnir lífeyrissjóða. Þar segir hann m.a.: "Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa á undanförnum áratugum byggt upp lífeyrissjóði sem eru í senn öflugir, faglega reknir og dæmi um svið þar sem okkur Íslendingum hefur tekist sérlega vel til í samanburði við aðrar þjóðir." Vilhjálmur segir lífeyrissjóðina ekki hafna yfir gagnrýni en með greininni vilji hann svara ómálefnalegri og óvandaðri umfjöllun sem birst hefur í Morgunblaðinu um lífeyrissjóðina.

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um SA og stjórnir lífeyrissjóða. Þar segir hann m.a.: "Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa á undanförnum áratugum byggt upp lífeyrissjóði sem eru í senn öflugir, faglega reknir og dæmi um svið þar sem okkur Íslendingum hefur tekist sérlega vel til í samanburði við aðrar þjóðir." Vilhjálmur segir lífeyrissjóðina ekki hafna yfir gagnrýni en með greininni vilji hann svara ómálefnalegri og óvandaðri umfjöllun sem birst hefur í Morgunblaðinu um lífeyrissjóðina.

Greinina í heild má lesa hér að neðan:

Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa á undanförnum áratugum byggt upp lífeyrissjóði sem eru í senn öflugir, faglega reknir og dæmi um svið þar sem okkur Íslendingum hefur tekist sérlega vel til í samanburði við aðrar þjóðir. Hlutverk sjóðanna er að standa undir lífeyrisgreiðslum til þeirra einstaklinga sem iðgjöld eru greidd fyrir inn í þá bæði af einstaklingunum sjálfum og vinnuveitendum þeirra. Uppbygging sjóðanna hefur allan tímann verið samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins (og forvera þeirra) og verkalýðshreyfingarinnar þar sem taka hefur þurft á mörgum álitamálum og bregðast við síbreytilegum aðstæðum s.s. styttri starfsævi, meira langlífi og aukinni tíðni örorku. Einkenni þessa samstarfs hefur verið vilji beggja aðila til þess að takast á hendur mikla samfélagslega ábyrgð og hafa frumkvæði að nauðsynlegum breytingum. Almennt hefur verið mjög góð samstaða milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar um málefni sjóðanna.

Lífeyrissjóðir eru ekki hafnir yfir gagnrýni frekar en aðrir aðilar í samfélaginu og þegar hún er sett fram með rökum og málefnalegum hætti verður að bregðast við henni og reyna að koma málum til betri vegar. Lífeyrissjóðir verða einnig fyrir ómálefnalegri og óvandaðri gagnrýni eins og gengur sem engu að síður þarf stundum að svara, ekki síst ef hún kemur frá aðilum sem vilja láta taka sig alvarlega. Í Morgunblaðinu hefur að undanförnu birst slík óvönduð og ómálefnaleg gagnrýni, jafnvel frá reyndum blaðamanni, Agnesi Bragadóttur, og því verður tæpast undir henni setið án þess að leggja orð í belg.

Í grein Agnesar sl. sunnudag ræddi hún um það áhugamál sitt að Samtök atvinnulífsins ættu ekki að tilnefna í stjórnir lífeyrissjóða og sér í lagi taldi hún það tímaskekkju að við Helgi Magnússon (sem hún reyndar ranglega titlar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins) skulum sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Til að leggja frekari áherslu á málið birtir hún af okkur myndir með grein sinni. Svo virðist sem Agnes telji meginsástæðuna fyrir þessari skoðun sinni að vera fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í stjórnum lífeyrissjóða leiði til verri meðferðar fjármuna en annars væri.

Fagleg fjárfestingarstefna skilar árangri

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða á ábyrgð Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna er ákveðin á faglegum grunni sem byggist á því sem best er vitað á sviði fjármálafræði og reynslu innan lands sem utan. Fagfólk er fengið til að reka sjóðina sem tekur langflestar einstakar ákvarðanir um fjárfestingar á grunni markaðrar stefnu. Almennt hefur verið góð samstaða innan stjórna lífeyrissjóðanna um fjárfestingarstefnu þótt nokkur blæbrigðamunur geti verið milli einstakra sjóða.

Lífeyrissjóðum á Íslandi má skipta í fjóra flokka. Auk sjóðanna sem Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa byggt upp eru sjóðir sem reknir eru af opinberum aðilum og opinberum starfsmönnum, sjóðir sem reknir eru og byggðir upp af bönkum og svo sjóðir sem byggðir hafa verið upp af sjóðfélögum sjálfum (sem er væntanlega það fyrirkomulag sem Agnes telur að ætti að ríkja í sjóðunum sem Samtök atvinnulífsins koma að). Samanburður á ávöxtun sjóða eftir tegund þeirra er hagstæð fyrir þá sjóði sem Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin standa að og það er ekki á grundvelli neinna staðreynda sem þessi reyndi blaðamaður getur fullyrt að sjóðirnir næðu betri árangri án aðkomu samtakanna. Einnig er íslenska lífeyriskerfið með mjög lágan kostnað miðað við lífeyrissjóði erlendis og stóru íslensku sjóðirnir standa sig mjög vel að þessu leyti.

Lífeyrisréttindi verðtryggð og betur varin en laun

Samtök atvinnulífsins geta verið stolt af þátttöku sinni í uppbyggingu lífeyrissjóðanna og samstarfi við verkalýðshreyfinguna á því sviði. Íslenska þjóðin nýtur þess að aðilar vinnumarkaðarins skuli axla þessa samfélagslegu ábyrgð og hafa forystu í þróun lífeyriskerfisins. Vissulega hefur gefið á bátinn hjá lífeyrissjóðunum í þeim erfiðleikum sem íslenska þjóðin glímir nú við. En raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða á síðasta ári er ekki svo frábrugðin sambærilegum sjóðum í öðrum löndum, eða neikvæð um 25% meðan talan fyrir OECD-ríkin er neikvæð um 23%. Sé hins vegar litið á árangur sjóðanna yfir lengra tímabil þá kemur í ljós að sjóðunum hefur almennt tekist að verðtryggja lífeyrisréttindi og gott betur. Og þrátt fyrir að sumir sjóðir hafi þurft að skerða réttindi vegna lakrar útkomu á síðasta ári er staðan samt sú að umframhækkanir á síðustu árum meira en vega það upp. Þannig hafa lífeyrisréttindi verið mun betur varin en laun í kreppunni og þau eru áfram verðtryggð. Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa metnað til þess að verðtryggja áfram lífeyrisréttindin og bæta þau og því þýðir ekkert annað en gera áfram kröfur um faglega fjárfestingastefnu og faglega stjórnun og reyna að ná eins góðri ávöxtun á sjóðina og kostur er miðað við þá hóflegu áhættu sem er tekin.

Ófaglegar ásakanir á stjórnarmenn lífeyrissjóða

Annað atriði sem fjallað er um í grein Agnesar í Morgunblaðinu sl. sunnudag verður að flokka sem róg meðan hún sannar ekki mál sitt. Samtök atvinnulífsins vilja ekki sitja undir því að stjórnarmenn sem þau tilnefna hafi látið ginna sig til vonlausra og óarðbærra fjárfestinga með því að þiggja boðsferðir á vegum banka og fjárfestingarfélaga, bergja á lúxus, sitja í heiðursstúkum á knattspyrnuvöllum heimsliðanna, sigla á lúxussnekkjum og leika sér í einkaþotum og þyrlum stóru strákanna.

Til hægðarauka fylgir hér listi yfir þá stjórnarmenn sem sitja í lífeyrissjóðum í umboði Samtaka atvinnulífsins og væri æskilegt að Agnes benti á hvar og hvenær þessir einstaklingar hafi í hlutverki sínu sem stjórnarmenn í lífeyrissjóði látið ginna sig með þeim hætti sem hún lýsir. Að öðrum kosti eru ummæli hennar marklaus og gagnrýni hennar á aðkomu Samtaka atvinnulífsins að lífeyrissjóðum ómálefnaleg og ófagleg.

Lífeyrissjóðurinn Gildi:

Heiðrún Jónsdóttir,

Hf. Eimskipafélag Íslands

Vilhjálmur Egilsson,

Samtök atvinnulífsins

Friðrik J. Arngrímsson,
Landssamband íslenskra útvegsmanna

Sveinn Hannesson,

Gámaþjónustan hf.

Stafir lífeyrissjóður:

Arnbjörn Óskarsson, A. Óskarsson verktaki ehf.

Erna Hauksdóttir,

Samtök ferðaþjónustunnar

Guðsteinn Einarsson,

Kaupfélag Borgfirðinga svf.

Stapi lífeyrissjóður:

Guðrún Ingólfsdóttir,

Skinney-Þinganes hf.

Anna María Kristinsdóttir,

Samherji hf.

Sigrún Björk Jakobsdóttir,

Akureyrarbær

Lífeyrissjóður Rangæinga:

Þorgils Torfi Jónsson,

Sláturhús Hellu hf.

Óskar Pálsson, Krappi ehf.

Festa lífeyrissjóður:

Magnea Guðmundsdóttir,

Bláa lónið hf.

Sigrún Helga Einarsdóttir, Set hf.

Bergþór Guðmundsson,

Norðurál ehf.

Lífeyrissjóður verslunarmanna:

Helgi Magnússon, Eignarhaldsfélag Hörpu ehf.

Hrund Rudolfsdóttir, Marel hf.

Lífeyrissjóður Vestfirðinga:

Áslaug Alfreðsdóttir,

Hótel Ísafjörður

Kristján G. Jóhannsson,

Olíufélag útvegsmanna

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja:

Arnar Sigurmundsson, Samfrost hf.

Ægir Páll Friðbertsson,

Ísfélag Vestmannaeyja hf.

Andrea Atladóttir, Vinnslustöðin hf.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn:

Haraldur Þ. Ólason, Fura ehf.

Auður Hallgrímsdóttir,

Járnsmiðja Óðins ehf.

Sveinbjörn Hjálmarsson,

Umslag ehf.

Svo sem sjá má á þessari upptalningu sitja 24 stjórnarmenn lífeyrissjóða undir þessari ásökun hins reynda rannsóknarblaðamanns, Agnesar Bragadóttur, 11 konur og 13 karlar, fólk búsett víðsvegar um landið. Hvorki þau né Samtök atvinnulífsins vilja una því að þau sem stjórnarmenn í lífeyrissjóðum hafi látið ginna sig til vonlausra og óarðbærra fjárfestinga á fjármunum sem þeim er trúað fyrir. Hér þarf því staðreyndir á borðið eða ætlar Morgunblaðið að vera vettvangur fyrir róg um þessa einstaklinga?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins