18. nóvember 2025

Samtök atvinnulífsins harma ákvörðun ESB

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samtök atvinnulífsins harma ákvörðun ESB

Samtök atvinnulífsins harma ákvörðun Evrópusambandsins um að leggja verndartolla á íslenskan kísilmálm en með ákvörðuninni er fleygur rekinn í EES samstarfið. Verndartollar ganga gegn undirstöðum innri markaðarins um frjálst flæði vara, þjónustu fólks og fjármagns.

„Við höfum komið þeim skilaboðum skýrt til skila allt þetta ár, bæði til íslenskra stjórnvalda og gagnvart ESB, að við teljum að Íslandi eigi að vera innan þeirra verndarráðstafana sem sambandið grípur til þar sem Ísland er sannarlega hluti af innri markaðnum. Hingað til hefur sambandið staðið vörð um virkni innri markaðarins en þessi ákvörðun sendir skýr pólitísk skilaboð um að framkvæmdastjórnin telji ekki það ekki brýnt lengur,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Aðeins eru liðnar nokkrar vikur frá því að sambandið ákvað að undanskilja EES ríkin frá tollum á stál í ljósi „náinnar og einstakrar samþættingar ríkjanna með samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið“. Með ákvörðun sinni í dag hefur sambandið ákveðið að víkja frá framangreindri meginreglu um náið og einstakt samband milli EES-EFTA-ríkjanna og sambandsins en Samtök atvinnulífsins mótmæla því harðlega.

Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að taka málið upp á vettvangi EFTA og nýta allar færar leiðir til þess vinda ofan af ákvörðun Evrópusambandsins. Samtök atvinnulífsins eiga sæti í ráðgjafarnefnd EFTA ásamt Samtökum iðnaðarins en samtökin munu taka málið upp á þeim vettvangi. Ráðgjafarnefnd EFTA er vettvangur hagaðila til að koma á framfæri hagsmunum sínum og sjónarmiðum á vettvangi EFTA.

Fyrirhugaðir tollar hafa sem yfirlýst markmið að draga úr innflutningi ESB á kísiljárni um 25%. Um 47% af innflutningi sambandsins á kísilmálmi kemur frá Íslandi og Noregi. Tollarnir verða útfærðir með þeim hætti að löndin fá hvert um sig tollfrjálsan kvóta sem nemur 75% af meðalútflutningi sínum til ESB á árunum 2022-2024. Af öllum umframútflutningi kísilmálmi þarf að greiða toll sem ákvarðast af mismuni uppgjörsverðs viðskipta og viðmiðunarverðs sem ákveðið er af ESB.

Samtök atvinnulífsins