Vinnumarkaður - 

21. desember 2010

Samþætting atvinnu og fjölskyldulífs gengur almennt vel

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samþætting atvinnu og fjölskyldulífs gengur almennt vel

Nýleg könnun meðal félagsmanna Samtaka atvinnulífsins leiðir í ljós að samþætting atvinnu og fjölskyldulífs gengur almennt vel. Stjórnendur fyrirtækja innan SA voru annars vegar spurðir að því hvort þeir eða fyrirtæki þeirra hafi orðið varir við erfiðleika hjá starfsfólki vegna skipulags skólastarfs í leikskólum eða grunnskólum og hins vegar voru þeir spurðir að því hvort þeir eða fyrirtæki þeirra hafi orðið varir við erfiðleika hjá starfsfólki vegna umönnunar aldraðra foreldra.

Nýleg könnun meðal félagsmanna Samtaka atvinnulífsins leiðir í ljós að samþætting atvinnu og fjölskyldulífs gengur almennt vel. Stjórnendur fyrirtækja innan SA voru annars vegar spurðir að því hvort þeir eða fyrirtæki þeirra hafi orðið varir við erfiðleika hjá starfsfólki vegna skipulags skólastarfs í leikskólum eða grunnskólum og hins vegar voru þeir spurðir að því hvort þeir eða fyrirtæki þeirra hafi orðið varir við erfiðleika hjá starfsfólki vegna umönnunar aldraðra foreldra.

Starfsdagar og vetrarfrí valda einkum vandræðum

Um helmingur stjórnenda segir áhrifin af skipulagi skólastarfs vera lítil eða frekar lítil, um þriðjungur segist ekki hafa orðið sérstaklega var við nein áhrif en 17% aðspurðra, telja sig hafa orðið vara við mikla eða frekar mikla erfiðleika hjá starfsfólki vegna skipulags skólastarfs.

Stjórnendur voru beðnir um að tilgreina hvað það væri  helst sem trufli eða valdi erfiðleikum í samþættingu atvinnu og fjölskyldulífs og var þá  einkum þrennt nefnt:

  • Lokanir í skólum og mikill fjöldi starfsdaga.

  • Skortur á samræmi frídaga milli leik- og grunnskóla annars vegar og á milli skóla hins vegar.

  • Þeir sem eiga börn á leikskólaaldri geti átt erfitt með að vera í fullu starfi þar sem opnunartími skólanna sé aðeins 8 stundir.

Einn starfsmannastjóri hafði þetta um málið að segja: "Þessi skólafrí þarf að samræma í almenn vetrarfrí hjá öllum. Stytting leikskólatíma riðlar skipulagi og getur haft veruleg áhrif á framlegð fyrirtækjanna."

Niðurstöðurnar gefa til kynna að stjórnendur fyrirtækja viti af ákveðnum vandkvæðum við að samræma atvinnuþátttöku og umönnun ungra barna en fyrirtækin og fjölskyldurnar leysi þann vanda í sameiningu.

Lítil áhrif vegna umönnunar eldri foreldra

Stjórnendur fyrirtækja innan SA voru einnig beðnir um að svara því hvort þeir eða fyrirtæki þeirra hafi orðið fyrir áhrifum vegna þess að starfsmenn þeirra þurfi að annast aldraða foreldra. Niðurstaðan var skýr, aðeins 5,3% svarenda segjast verða varir við erfiðleika starfsfólks vegna þessa. Aðspurðir um hvers kyns vanda sé þó helst við að eiga nefna stjórnendur oftast skort á úrræðum fyrir aldraða sem orsök fráveru starfsmanna.  

Eftirfarandi svar eins atvinnurekanda er lýsandi "Hef reynslu af því (að þetta skapi spennu milli fjölskyldu og atvinnulífs) þar sem fólk er um eða yfir 50 ára, þá sérstaklega konur."

Annar segir: "Starfsmenn þurfa að sinna öldruðum foreldrum eða ættingjum í heimahúsum. Meðferð og aðgerðir hjá læknum virðast ekki jafnaðgengilegar fyrir aldraða og áður var. Aðstoð heimafyrir eða dvöl á hjúkrunarheimilum virðist torveld."

Atvinnuþátttaka kvenna í eldri aldurshópum er  mun minni en karla. Oft er nefnt að þær beri þunga af umönnun eldri ættingja - en hvort það er ein meginorsök skemmri vinnudags og skemmri starfsævi á vinnumarkaði hefur ekki verið kannað.

Um könnunina
Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA  dagana 29. október til 8. nóvember 2010 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf. Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.754 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 572 og var  svarhlutfall því 33%. Áætlað er að 33.000 starfsmenn starfi hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni.

Samtök atvinnulífsins