Vinnumarkaður - 

11. desember 2008

Samstarf um menntunarúrræði vegna aðstæðna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samstarf um menntunarúrræði vegna aðstæðna

Samstarf um menntunarúrræði sem komið var á í haust á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í kjölfar efnahagsþrenginganna, hefur þegar skilað umtalsverðum árangri. Að samráðinu koma Vinnumálastofnun, menntamálaráðuneyti, aðilar vinnumarkaðarins , fræðsluaðilar og starfsmenntasjóðir. Vandinn sem við er að glíma er mikill. Það stefnir í að atvinnuleysi í lok desember verði nálægt 5%. Nú þegar eru tæplega 8.200 manns á landinu öllu atvinnulaus. Breyttar aðstæður í efnahagslífinu hafa víða áhrif í menntakerfinu, t.a.m. eru nú áberandi færri nemendur í framhaldsskólum í hlutastörfum með námi en áður, ekki nema 1-2 einstaklingar í hverjum bekk en voru áður allt upp undir helmingur nemenda í hverjum bekk.

Samstarf um menntunarúrræði sem komið var á í haust á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í kjölfar efnahagsþrenginganna, hefur þegar skilað umtalsverðum árangri. Að samráðinu koma Vinnumálastofnun, menntamálaráðuneyti, aðilar vinnumarkaðarins , fræðsluaðilar og starfsmenntasjóðir. Vandinn sem við er að glíma er mikill. Það stefnir í að atvinnuleysi í lok desember verði nálægt 5%. Nú þegar eru tæplega 8.200 manns á landinu öllu atvinnulaus. Breyttar aðstæður í efnahagslífinu hafa víða áhrif í menntakerfinu, t.a.m. eru nú áberandi færri nemendur í framhaldsskólum í hlutastörfum með námi en áður, ekki nema 1-2 einstaklingar í hverjum bekk en voru áður allt upp undir helmingur nemenda í hverjum bekk.

Fleiri karlar en konur missa vinnuna

Starfsfólk í mannvirkjagerð er fjölmennast í hópi nýskráðra án atvinnu. Verkafólk er fjölmennast en einnig iðnaðarmenn og fólk í afgreiðslu-, umönnunar- og þjónustustörfum. Atvinnulausir karlar eru mun fleiri en konur. Samráð um menntunarúrræði á framhaldsskólastigi er mjög mikilvægt í þessu ljósi. Stærstur hluti þess mikla fjölda sem er að missa vinnuna er með takmarkaða formlega menntun og ætti viðbótarmenntun eða mat á raunfærni að auka möguleika þeirra á að finna sér ný störf við hæfi.

Ráðgjöf í boði

Ákveðið hefur verið að samvinnu verði komið á milli Vinnumálastofnunar og símenntunarstöðva um náms- og starfsráðgjöf. Vinnumálastofnun getur ekki lengur sinnt öllum þeim sem til hennar leita hvað varðar þessa þjónustu. Símenntunarmiðstöðvarnar, fræðslumiðstöðvar iðngreina og Mímir í Reykjavík hafa á að skipa ráðgjöfum sem eru og hafa verið að veita fólki á vinnumarkaði ráð. Með samstarfi framhaldsfræðsluaðilar og Vinnumálastofnunar fyrir milligöngu og tilstilli FA, munu þeir leggja sitt af mörkum við að veita atvinnulausum ráðgjöf.

Starfsmenntasjóðir hafa margir samhæft viðbrögð sín m.a. með því að greiða strax styrki til náms um leið og greitt er fyrir námskeið. Upplýsingar um nám og námsframboð hafa verið gerðar aðgengilegar á vef FA

(http://www.frae.is/) og má nálgast hér að neðan.

Ný reglugerð væntanleg

Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt talsverða vinnu í að móta væntanlega reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfins í vinnumarkaðsaðgerðum en þar verður meðal annars kveðið á um starfsþjálfun, reynsluráðingu, námssamninga og frumkvöðlastarf innan fyrirtækja. Rætt hefur verið við fulltrúa menntamálayfirvalda og Lánasjóð íslenskra námsmanna um framfærslu námsmanna og hvernig hún og framfærsla úr atvinnuleysistryggingasjóði ríma saman.

Hlutastörfum nema fækkar

Þótt athyglin í fullorðinsfræðslu þeirra sem minni menntun hafa beinist fyrst og fremst að námsframboði utan hins formlega skólakerfis hefur einnig verið reynt að fylgjast með því hvernig breyttar aðstæður í efnahagslífinu hafa áhrif í formlega kerfinu. Í ljós hefur komið að skráningar í framhaldsskóla sem taka inn nemendur um áramót er víðast svipuð og fyrri ár, þó greina megi nokkrar breytingu á tveimur stöðum; á Suðurnesjum og á Norðurlandi.

Þar sem skráningum er ekki að fullu lokið er ekki hægt að gera sér grein fyrir hvort aukningin beinist í bóknám eða starfsnám eða hvorutveggja eða hvort um er að ræða fyrst og fremst brottfallsnemendur sem eru að snúa til baka. Áberandi færri nemendur í framhaldsskólum eru í dag í hlutastörfum með námi en áður, ekki nema 1-2 einstaklingar í hverjum bekk en voru áður allt upp undir helmingur nemenda í hverjum bekk.

Sjá nánar:

Samstarf um menntunarúrræði - fundargerðir á vef FA

Upplýsingar um nám og námsframboð

Samtök atvinnulífsins