Samkeppnishæfni - 

09. Oktober 2012

Samstarf atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins verði aukið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samstarf atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins verði aukið

Ari Edwald, forstjóri 365, tók þátt í umræðum um samkeppnismál á fundi SA 3. október sl. Ari telur sérstaklega mikilvægt að skerpa á leiðbeiningarskyldu Samkeppniseftirlitsins og að vægi reglulegs samráðs við fyrirtæki og samtök þeirra verði aukið. Á fundinum voru lagðar fram tillögur SA í samkeppnismálum en þar er þess farið á leit að samstarf Samkeppniseftirlitsins og atvinnulífsins verði aukið.

Ari Edwald, forstjóri 365, tók þátt í umræðum um samkeppnismál á fundi SA 3. október sl. Ari telur sérstaklega mikilvægt að skerpa á leiðbeiningarskyldu Samkeppniseftirlitsins og að vægi reglulegs samráðs við fyrirtæki og samtök þeirra verði aukið. Á fundinum voru lagðar fram tillögur SA í samkeppnismálum en þar er þess farið á leit að samstarf Samkeppniseftirlitsins og atvinnulífsins verði aukið.

Í erindi sínu sagði Ari það geta verið erfitt að átta sig á því  hvernig samkeppnisyfirvöld beri niður eða hvernig þau skilgreina markaði. Það væri hans mat að samtal um það og hvað beri að varast, geti verið gagnlegra fyrir samfélagið og starfshætti í viðskiptalífinu heldur en geysihörð viðurlög vegna atriða sem ekki voru fyrirséð af neinum hlutaðeigandi.

"Ég held líka að reglulegt samráð þar sem samtök fyrirtækja koma að, sé gagnlegra en upplýsingagjöf annarra aðila á markaði eða skyldum mörkuðum, eftir að mál er komið af stað, eins og mikið ber á góma í lýsingum ákvarðana. Ég held að margir telji hag sínum best borgið með því að öðrum verði bannað það sem þeir ætlast fyrir og magni upp ómálefnaleg sjónarmið gegn því að breytingar fái brautargengi."

Ari Edwald flutti erindi á fundi SA um samkeppnismál

Þá telur Ari mjög mikilvægt að ákvæði um heimild til uppskiptingar fyrirtækja sé fært til þess horfs að það samrýmist kröfum réttarríkisins.

"Ég starfa nú í geira sem býr við viðbótarréttaróvissu vegna mögulegs inngrips samkeppnisyfirvalda í samráði við Fjölmiðlanefnd á grundvelli sjónarmiða um svokallað "fjölræði."  Ég verð að segja að það er beinlínis óhugnanlegt að lesa þessi ákvæði um uppskiptingu og reyna að átta sig á hugmyndafræðinni á bakvið það að færa stjórnvöldum svo matskenndar heimildir til afdrifaríkra inngripa, án þess tilefnis að neinn hafi brotið neitt af sér. Einnig er algerlega með ólíkindum að Alþingi hafi verið blekkt til að samþykkja lagareglur sem það var látið halda að væru í samræmi við það sem tíðkaðist í okkar nágrannaríkjum þótt svo sé bersýnilega ekki. Hver mun sæta ábyrgð fyrir þær rangfærslur"

Ari segist sem stjórnandi fyrirtækis hafa átt nokkur samskipti við Samkeppniseftirlitið og þau hafi verið ágæt í sjálfu sér. Þess vegna treystir hann stofnuninni til að eiga meira og reglubundnara samráð við atvinnulífið.

"Ég hef hins vegar stundum furðað mig á einstökum niðurstöðum. Ég fann samt síðustu daga þegar ég var vegna þessa fundar að flakka um vef stofnunarinnar og lesa allt upp í rúmlega áratugs gamlar ákvarðanir sem snerta fjölmiðlageirann, að sumt leggst betur í mann þegar ákveðin fjarlægð hefur skapast. Samt ekki allt. Þegar sala Fréttablaðsins til Árvakurs náði ekki fram að ganga haustið 2008, hugðist 365 hætta prentun í Ísafoldarprentsmiðju og færa prentunina í Landsprent og gerði samning við báðar prentsmiðjur um það. Samkeppniseftirlitið ógilti bara samninginn um prentun í Landsprenti en ekki samninginn um að hætta að prenta í Ísafold. Fréttablaðið stóð því uppi samningslaust og Ísafold neitaði að taka við blaðinu aftur á sömu forsendum og áður. Ef betur hefði staðið á hefði maður ekki látið bjóða sér þetta, en á þessum tíma var mikið af lausum endum og maður gekk að kostum Ísafoldar til að skapa sér vinnufrið um þessi mál."

Í erindi sínu vék Ari að stöðunni á fjölmiðlamarkaðnum, mögulegri framtíðarþróun og samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja við erlenda afþreyingu. Títt nefndri skilgreiningu markaða í umræðu um samkeppnismálin.

Fullt var út úr dyrum á fundi SA um samkeppnismálin

"Manni hefur líka stundum þótt erfitt að átta sig á þeirri línu sem dregin er varðandi afmörkun markaða og hvernig hún sé samrýmanleg frá einu máli til annars. Þetta gæti kannski skýrst með meira samtali, en fyrst og fremst tel ég aukið samráð nauðsynlegt vegna þess að starfsumhverfi fyrirtækjanna er á fleygiferð og hraði breytinga fer vaxandi. Fyrirtækin reyna að búa sig undir aðstæður morgundagsins með sínum ráðstöfunum, en maður óttast að stjórnvöld þurfi að líta til liðins tíma fyrst og fremst eða í besta falli ljósmyndar af statísku ástandi.

Ef dæmi er tekið af fjölmiðlamarkaðnum og fyrri vangaveltum um eðli hans og undirmarkaði. Þá er umræðan um það hvort áskriftarsjónvarp og opið sjónvarp séu sitt hvor markaðurinn. Menn hafa allavega trúað því að samkeppnisyfirvöld væru meira þeirrar skoðunar í seinni tíð. Einnig að  prentmiðlar og ljósvakamiðlar væru töluvert aðgreindir. o.s.frv.

Mig langar að hlaupa aðeins yfir til samanburðar hvernig ég sé markaðinn. Til að gera langa sögu stutta tel ég að þessi mörk séu öll að hrynja. Nú les maður dagblaðið í sama iPadinum og maður horfir á sjónvarpið. Um 5-15% af sjónvarpsáhorfinu hjá Stöð 2 er þegar orðið hliðrað áhorf, þ.e., ekki er horft á þáttinn þegar hann er á dagskrá, heldur á tíma og á tæki að vali neytandans. Mér skilst að erlendis farið þetta hlutfall sums staðar þegar miklu hærra, vel yfir 50%. Þetta er allt að verða stafrænt og engin landfræðileg afmörkun. Þótt allir viti að fyrirkomulagið á RÚV sé krabbameinið sem bjagar íslenska fjölmiðlamarkaðinn og sem Samkeppniseftirlitið hefur gert ágæta grein fyrir í áliti frá haustinu 2008, þá er sá stóri fíll í herberginu ekki í forgrunni þegar Stöð 2 þróar vöruframboð sitt eins og kynnt var td nú í ágúst. Þar erum við að bregðast við því að við erum í beinni samkeppni við itunes, netflix, apple TV, Hulu og Sky og hvað þetta allt heitir. Við þurfum að tryggja sambærilega þjónustu og þessir aðilar, innan áskriftar að Stöð 2, til að áskrifendur sjái ekki of mikla ástæðu til að fara þangað. Þetta er allt saman ótrúlega útbreitt, en á þessa aðila er ekki minnst í neinum úrskurði eða ákvörðun.

Það hefur verið talið að Sky áskriftir hér á landi að enska boltanum séu á 5% heimila, eða hátt í helmingur af áskriftunum að sama efni hjá Stöð 2 Sport. Ekkert minnst á þá heldur.

Nú er líka mikill titringur hjá sjónvarpsstöðvum á norðurlöndum því HBO samdi við netaðila um að selja yfir almennt internet aðgang að þeirra þáttum í samkeppni við sjónvarp. Sem betur fer gleymdi þessi aðili að merkja við Ísland.

Öll umræða var um dreifingu og box á tímabili. 2005 töldu menn ekki þurfa að ræða sérstaklega adsl dreifingu sjónvarps, enda á algeru tilraunastigi. Tæpum 8 árum síðar er um 75% af allri sjónvarpsdreifingu á Íslandi í þessum farvegi. Nú er sjónvarp á leiðinni á almennt internet og framtíð sérhæfðrar dreifingar á sjónvarpi óviss.

Það skiptir líka miklu máli í þessu umhverfi að íslensk stjórnvöld hafa engan áhuga á að stemma stigu við þjófnaði á hugverkum, eins og öðrum eignum, þótt það muni á endanum koma í koll öllu sem heitir "skapandi greinar."

Menntamálaráðherra stendur í vegi fyrir sambærilegum breytingum og reyndar hafa verið í nágrannalöndum til að stemma stigu við ólöglegu niðurhali. Samkvæmt könnunum samtaka rétthafa, eru um 50% af allri neyslu á tónlist og kvikmyndum hér á landi á þessum gráa markaði þannig að framhjá þessu verður ekki litið þegar aðstæður eru metnar á markaðnum.

Þessu fylgir að erlend samkeppni er vaxandi á auglýsingamarkaðnum. Þið sjáið það þegar þið farið um Google og erlendar fréttasíður til dæmis, að þá fylgja auglýsingar frá íslensku aðilum sem þekkja ykkar ip tölur. Markaðsstjóri Google í Svíþjóð mun kynna möguleika google fyrir íslensku auglýsendum í Hörpunni á föstudaginn.

Hvort sem er auglýsingamarkaður, eða áskriftarmarkaður, þá er flóran að þróast þannig að mínu viti, að það eru sérhæfðir aðilar sem þjóna þröngum markhópi og geta selt sig dýrt, getum kallað sylluaðilar. En almenn miðlun frétta og afþreyingar er að verða meira og meira ein órofa heild. Auðvitað einhver sérstaða hér og þar. Sem menn myndu samt væntanlega kalla "skyldir markaðir," en það er að verða meira og meira eitt risastórt ættarmót.

Mér finnst ég ekki sjá mikil merki þess í opinberri umræðu að stofnanir séu að átta sig á þessu. Þetta er ekki spurning um að Stöð 2 og Skjárinn séu 10000 stig á HHI stuðli, eða hvort Sena fái að kaupa netmiðasölu með 65 m.kr veltu.

Þetta er frekar spurning um hvort einhver afþreyingarstarfsemi á viðskiptagrundvelli hefur heimkynni á Íslandi eða bara að Apple sjái um þetta. Dæmin eru fyrir hendi í geiranum. Amazon hlýtur að vera orðinn stærsti bóksali á Íslandi og Betson og Poker stars sjá um veðmálin, að talið er með um 2 milljarða árlegar tekjur frá íslandi. Sem forstjóri 365 miðla tel ég mig fyrst og fremst vera að nudda í því að áskriftarsjónvarpið og ýmis önnur miðlun fari ekki sömu leið ..."

Tengt efni:

Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)

Samtök atvinnulífsins