Vinnumarkaður - 

12. apríl 2021

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samstaða um launahækkanir í Noregi

Í gær, sunnudaginn 11. apríl 2021, náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og tveggja helstu landssamtaka verkalýðsfélaga.

Í gær, sunnudaginn 11. apríl 2021, náðist samkomulag milli norsku Samtaka atvinnulífsins og tveggja helstu landssamtaka verkalýðsfélaga.

Samkomulagið er svokallað milliuppgjör. Kjarasamningar í Noregi eru jafnan gerðir til tveggja ára og er heildarsamtökunum, beggja vegna borðs, falið að komast að niðurstöðu um launabreytingar á seinna árinu. Á seinna árinu er eingöngu samið um launabreytingar.

Samkomulagið er efnahagslegur rammi um 1,0-1,5% launahækkanir á árinu, mismiklar eftir starfsstéttum, og ber öllum kjarasamningum í framhaldinu að lúta honum. Þegar hækkanir verða komnar til framkvæmda áætla samningsaðilar að hækkun meðallauna milli áranna 2020 og 2021 verði 2,7%, samkvæmt mælingum hagstofu Noregs á raunverulegum launabreytingum.

Ramminn um launahækkanir, sem heildarsamtökin í Noregi semja um, er breyting meðallauna milli ára samkvæmt mælingum á raunverulegum launabreytingum. Mælingarnar fela þannig í sér hvers kyns launaskrið til viðbótar lágmarks launahækkunum samkvæmt kjarasamningum.

Markmið norsku Samtaka atvinnulífsins var að standa sérstaklega vörð um hagsmuni þeirra atvinnugreina sem verst hafa orðið fyrir barðinu á kórónukreppunni. Í samkomulaginu felst þannig að sérstakar hækkanir lægstu launa eru takmarkaðar. Framkvæmdastjóri samtakanna, Ole Erik Almlid,  telur það sérstaklega mikilvægt nú þegar fjöldi fyrirtækja berst í bökkum.

Almlid segir krefjandi við núverandi aðstæður að gera kjarasamninga um sömu hækkanir fyrir allar atvinnugreinar þar sem kreppan kemur mjög mismunandi niður. En samtök atvinnurekenda standa saman til að verja hagsmuni heildarinnar.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka iðnaðarins, Stein Lier-Hansen, segir samningsaðila hafa axlað samfélagslega ábyrgð sem sé mikilvægt fyrir samskiptin til framtíðar. Aðilar vinnumarkaðarins ætla sér að standa saman að endurreisn Noregs eftir kórónukreppuna og vinna sameiginlega að grænni umskiptingu í Noregi.

Framkvæmdastjóri norsku Samtaka ferðaþjónustunnar, Kristin Krohn Devold, segir erfitt fyrir greinina að axla frekari byrðar í ljósi kreppunnar sem enn ekki sér fyrir endann á. Að hennar mati eru launahækkanir það síðasta sem greinin þarfnist í baráttunni við að lifa kreppuna af og endurráða starfsfólk. 

Samtök atvinnulífsins