Samstaða um atvinnusókn

Kjaraviðræðurnar sem standa yfir eru mjög veigamikill þáttur í stefnumörkun alls samfélagsins um hvert skuli halda á næstu árum. Hver er leið Íslands uppúr kreppunni? Um það er fjallað og þess vegna koma stjórnvöld að kjaraviðræðunum auk aðila vinnumarkaðarins.

Tvær leiðir eru hugsanlegar þegar horft er til næstu ára. Annars vegar er að reikna með takmörkuðum hagvexti sem byggir á einkaneyslu og samneyslu. Hins vegar er að reiða sig á öflugan hagvöxt sem er drifinn áfram af framleiðsluhlið efnahagslífsins, þ.e.a.s. með fjárfestingum og auknum útflutningi.

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram skýra stefnumörkun um það hvor leiðin er vænlegri. Auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, er sú leið sem þarf að fara. Þannig eru sköpuð ný störf bæði í bráð og lengd, atvinna við uppbyggingu og framtíðarstörf sem tryggja samkeppnishæfni og lífskjör þjóðarinnar til frambúðar.

Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðunum og í samskiptum við stjórnvöld er að skapa hagstæð skilyrði fyrir stórauknar fjárfestingar í atvinnulífinu.

Kjarasamningar til þriggja ára á grundvelli samræmdrar launastefnu í takt við það sem gerist í nágrannalöndunum er mikilvægt framlag til stöðugleika og hagstæðs fjárfestingarumhverfis. Skynsamlegir kjarasamningar eru jafnframt ein af lykilforsendum fyrir hækkun á gengi íslensku krónunnar á næstu árum og þar með lágri verðbólgu og auknum kaupmætti.

Kaupmáttur á næstu árum vex ekki aðeins með lágri verðbólgu heldur ekki síður vegna þess að ný störf skapast, meiri atvinna verður í boði og atvinnuleysi dregst saman. Betri staða almennt í atvinnulífinu eykur svigrúm fyrirtækjanna til að draga til baka ýmsar tímabundnar ráðstafanir til sparnaðar á mörgum vinnustöðum, s.s. lægri starfshlutföll eða minni yfirvinnu.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á aðkomu ríkisstjórnar og Alþingis að nokkrum mikilvægum málum til þess að ná fjárfestingum á skrið og leitað eftir stuðningi stjórnvalda við þá meginhugsun sem liggur að baki þessari stefnumörkun um framleiðsludrifinn hagvöxt sem leiðina út úr kreppunni.

Gera þarf íslenskan fjármagnsmarkað hæfan til þess að þjóna atvinnulífinu með hagkvæmum hætti á nýjan leik. Í því felst m.a. afnám gjaldeyrishafta, opnun fjármagnsmarkaða fyrir erlent lánsfé og lækkun fjármagnskostnaðar. Þetta eru nauðsynleg almenn skilyrði fyrir fjárfestingargetu atvinnulífsins og hafa lykilþýðingu varðandi hækkun gengis krónunnar.

Staðfesta verður þá sátt sem náðist í endurskoðunarnefnd um stjórn fiskveiða með breytingu á lögum frá Alþingi. Núverandi ástand í starfsumhverfi sjávarútvegsins skapar óþolandi óvissu og gerir að verkum að ekki eru teknar neinar ákvarðanir um umtalsverðar fjárfestingar. Óhugsandi er að skilja sjávarútveginn eftir í slíkri stöðu einmitt þegar leiðin út úr kreppunni felst í auknum fjárfestingum í útflutningsgreinum.

Samtök atvinnulífsins lögðu á liðnu hausti fram margvíslegar tillögur um skattamál fyrirtækja. Þessar tillögur snúa að stærstum hluta að því að auðvelda gangverk atvinnulífsins og geta bæði skapað störf og tekjur fyrir ríkissjóð. Þessar tillögur verða stjórnvöld að taka alvarlega. Ennfremur verður atvinnutryggingagjald að lækka í takt við minna atvinnuleysi.

Þá bíða stór fjárfestingarverkefni í atvinnulífinu eða eru í hægagangi af margvíslegum ástæðum. Þessi verkefni verða að komast í gang af alvöru þannig að þau geti stutt við og verið drjúgur hluti af þeim auknu fjárfestingum sem nauðsynlegar eru til að snúa af braut stöðnunar. Fjárfestingarnar verða reyndar að aukast í öllum atvinnugreinum og í öllum fyrirtækjum, stórum sem smáum. Við það miðast tillögur Samtaka atvinnulífsins.

Alltaf er val um leiðir þegar til framtíðar er horft. Samtök atvinnulífsins telja einboðið að fara leið fjárfestinga og aukins útflutnings út úr kreppunni og endurheimta með því fyrri styrk atvinnulífsins og lífskjör þjóðarinnar. Þannig verður traustur grunnur byggður undir velmegun og velferð á Íslandi til lengri framtíðar.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í janúar 2011