Efnahagsmál - 

30. desember 2008

Samstaða gegn atvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samstaða gegn atvinnuleysi

Þór Sigfússon, formaður SA, hvetur til samstöðu gegn atvinnuleysi á nýju ári í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir íslensk fyrirtæki hafa náð nú þegar samstöðu með starfsfólki um aðrar leiðir en uppsagnir til að mæta samdrætti og þannig hafi tekist að koma í veg fyrir umtalsvert meira atvinnuleysi en raunin er eftir eitt mesta hrun fjármálakerfis sem um getur í Evrópu. Þór hvetur stjórnvöld til að bregðast skjótt við og lækka stýrivexti á nýju ári. Færra fólki verði sagt upp hjá fyrirtækjum ef stýrivextir verði lækkaðir með skjótum hætti.

Þór Sigfússon, formaður SA, hvetur til samstöðu gegn atvinnuleysi á nýju ári í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir íslensk fyrirtæki hafa náð nú þegar samstöðu með starfsfólki um aðrar leiðir en uppsagnir til að mæta samdrætti og þannig hafi tekist að koma í veg fyrir umtalsvert meira atvinnuleysi en raunin er eftir eitt mesta hrun fjármálakerfis sem um getur í Evrópu. Þór hvetur stjórnvöld til að bregðast skjótt við og lækka stýrivexti á nýju ári. Færra fólki verði sagt upp hjá fyrirtækjum ef stýrivextir verði lækkaðir með skjótum hætti. 

Þór segir vakningu meðal þjóðarinnar um að velja íslenskt og fjölmörg íslensk framleiðslu- og hönnunarfyrirtæki hafi fundið fyrir uppsveiflu á síðustu mánuðum. Mikilvægt sé að ráðast í vinnuaflsfrekar framkvæmdir á nýju ári, s.s. viðhald og endurbyggingar húsa - það geti skipt sköpum. Þá geti stjórnendur og starfsfólk banka og fjármálafyrirtækja lyft grettistaki með því að flýta eins og kostur er fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og hlúa jafnframt að skuldsettum fjölskyldum. Íslendingar hafi alla burði til þess að komast fljótt og vel frá yfirstandandi kreppu ef rétt verði á málum haldið og tækifærin nýtt til að komast út úr erfiðleikunum.

Grein Þórs má lesa hér að neðan:

Því hefur verið spáð að fyrstu mánuðir ársins 2009 verði erfiðir.  Atvinnuleysi aukist og gjaldþrotum fjölgi. Það kann vel að vera að botninum verði náð á næstu mánuðum. Höfum samt í huga að við getum sjálf haft áhrif á núverandi ástand og gert það bærilegra. Nú þarf þjóðin að taka höndum saman um að draga eins og kostur er úr atvinnuleysi og þar skipta aðgerðir og viðhorf okkar sjálfra  miklu máli. 

Íslensk fyrirtæki hafa náð samstöðu með starfsfólki um aðrar leiðir en uppsagnir til að mæta samdrætti.  Með þessu hefur tekist að koma í veg fyrir umtalsvert meira atvinnuleysi en raunin er eftir eitt mesta hrun fjármálakerfis sem um getur í Evrópu.  Þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá munu fyrirtæki áfram sýna þennan vilja í verki á nýju ári.

Jafnframt hefur hvatning til fólks um að velja íslenskt eða gera innkaupin hérlendis  bjargað mörg hundruðum starfa. Fjöldi íslenskra framleiðslu- og hönnunarfyrirtækja hafa fundið fyrir uppsveiflu á síðustu mánuðum.  Það er vakning í þessum efnum sem við eigum að halda lifandi á nýju ári.

Hvetja þarf aflögufæra einstaklinga til þess að huga að viðhaldi eða endurbyggingu húsa sinna og annarra eigna á nýju ári.  Það getur skipt sköpum að einstaklingar fari í vinnuaflsfrekar framkvæmdir. 

Stjórnendur og starfsfólk banka og fjármálafyrirtækja geta lyft grettistaki á nýju ári með því að flýta eins og kostur er fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og hlúa jafnframt að skuldsettum fjölskyldum. Fátt er jafn mikilvægt nú eins og þróttmikil fjármálastarfsemi sem tryggir lífvænleika vel rekinna fyrirtækja og leitar leiða til að bjarga fjölskyldum frá gjaldþroti. Hver ákvörðun í banka sem tekin er fljótt og vel getur þýtt  fleiri tækifæri og komið í veg fyrir stöðnun og vonleysi.

Því fyrr sem tekst að lækka vexti hérlendis því færra fólki verður sagt upp hjá fyrirtækjum. Nú þurfa stjórnvöld að bregðast skjótt við á nýju ári og lækka vexti.

Leitum að öllum þeim tækifærum sem við höfum til að koma okkur út úr erfiðleikunum og sýnum samstöðu í að draga sem mest úr atvinnuleysi.  Við höfum alla burði til þess að komast fljótt og vel frá þessari kreppu.

Þór Sigfússon, formaður SA.

Samtök atvinnulífsins