Efnahagsmál - 

06. maí 2004

Samspil aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samspil aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda (1)

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins nú í vikunni sagði Ingimundur Sigurpálsson formaður samtakanna m.a., að mikilvægasta framlag stjórnvalda til þeirrar langtíma samningsgerðar sem nú lægi fyrir, fælist í að leggja grunn að þeim stöðugleika sem íslenskt atvinnulíf hefur búið við.

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins nú í vikunni sagði Ingimundur Sigurpálsson formaður samtakanna m.a., að mikilvægasta framlag stjórnvalda til þeirrar langtíma samningsgerðar sem nú lægi fyrir, fælist í að leggja grunn að þeim stöðugleika sem íslenskt atvinnulíf hefur búið við.

Sá stöðugleiki endurspeglast í því, að nú er hægt að gera kjarasamninga til fjögurra ára, sem hvíla á þeirri forsendu, að verðlag þróist í samræmi við markmið Seðlabanka Íslands um 2,5% verðbólgu að jafnaði á samningstímanum. Allt útlit er því fyrir að heildarsamningstími þriggja umferða af kjarasamningum, frá árinu 1997, verði samtals 11 ár. Reynslan hefur kennt að stöðugleiki á vinnumarkaði, og launahækkanir í takt við það sem atvinnulífið hefur möguleika á að standa undir skilar launafólki og þjóðfélaginu í heild bestum árangri. Langur samningstími hefur svo að sínu leyti verið framlag til áframhaldandi efnahagslegs stöðugleika í landinu og auðveldað stjórnvöldum frekari umbætur í skipan efnahagsmála. Þessi framvinda er því til vitnis um farsælt samspil stefnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Grundvallarbreyting í íslensku samfélagi

En breyttir tímar hafa kallað á breytt samskipti aðila vinnumarkaðar við ríkisstjórn eins og formaður SA vék  að í ræðu sinni: "Árið 1990 var það forsenda fyrir gerð kjarasamninga, að aðilar vinnumarkaðarins tækju höndum saman við stjórnvöld um mótun nýrrar efnahagsstefnu.  Ný markmið um þróun verðlags og gengis krónunnar voru þar efst á blaði, en jafnframt var stjórnvöldum ætlað að hafa afskipti af ýmsum öðrum málum, jafnt stórum sem smáum.  Slík afskipti samningsaðila af grundvallaratriðum í hagstjórn, þar sem settur var fram langur listi atriða um nauðsynlegar aðgerðir að mati aðila vinnumarkaðar, heyra sem betur fer sögunni til."

Það sem þarna er vikið að felur í sér grundvallarbreytingu í íslensku samfélagi. Þjóðarsáttarsamningarnir 1990 höfðu í raun að markmiði að reyna að breyta hugarfarinu í landinu. Sérstaklega að menn sættu sig við kjaraskerðingu vegna gengisfellinga, en fengju ekki strax í sinn hlut þá innistæðulausu "leiðréttingu" sem hefði tryggt áframhaldandi vítahring víxlverkunar launahækkana, gengisfalls og verðbólgu. Þess í stað gáfu menn heilbrigðari efnahagsstjórn tækifæri. Í slíkri baráttu er hlutur forystumanna launafólks jafnan erfiður.

Þau meðöl efnahagsráðstafana sem menn gátu sammælst um höfðu þó flest eða öll verið reynd áður með takmörkuðum árangri, svo sem fastgengisstefna og verðstöðvun. Markmið samninganna frá 1990 hefðu aldrei náðst með varanlegum hætti ef áfram hefði verið hjakkað í sama farinu við stjórn efnahagsmála. Frá árinu 1990 hafa orðið gríðarlegar skipulagsumbætur á efnahagsstjórn hér á landi. Má þar nefna aukna ábyrgð í ríkisfjármálum, breytingar á fjármagnsmarkaði og frelsi í fjármagnsflutningum, einkavæðingu og sjálfstæði Seðlabankans, svo fátt eitt sé talið.

Þríhliða samskipti enn mjög mikilvæg

Þríhliða samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins eru þó enn sem fyrr afskaplega mikilvæg. Má fullyrða að samskipti og samtöl þessara aðila á undanförnum misserum, um hvert stefndi og um æskileg viðbrögð, hafi oft stuðlað að meiri samstöðu og farsælli niðurstöðum en ella hefði verið.

Í dag eru menn hins vegar sammála um að það sé hlutverk framkvæmda- og löggjafarvaldsins að móta almenna umgjörð fyrir efnahagslífið, sem aðilar vinnumarkaðar taka mið af við gerð kjarasamninga. Kúvending efnahagsstefnu eða íhlutun í stjórn efnahagsmála eru sem betur fer ekki umræðuefni lengur í tengslum við gerð kjarasamninga.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins