Vinnumarkaður - 

18. febrúar 2003

Samræming vetrarfrídaga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samræming vetrarfrídaga

Fræðsluráð Reykjavíkur hefur samþykkt að samræma vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar frá og með næsta skólaári. Með ákvörðuninni er að sögn verið að koma til móts við óskir fjölmargra aðila, þ.á m. Samtaka atvinnulífsins. Jafnframt hefur fræðsluráð samþykkt að fara fram á það við leikskólaráð að tilnefndur verði starfshópur sem hafi það að markmiði að samræma starfsdaga á milli grunn- og leikskóla innan hverfa borgarinnar.

Fræðsluráð Reykjavíkur hefur samþykkt að samræma vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar frá og með næsta skólaári. Með ákvörðuninni er að sögn verið að koma til móts við óskir fjölmargra aðila, þ.á m. Samtaka atvinnulífsins. Jafnframt hefur fræðsluráð samþykkt að fara fram á það við leikskólaráð að tilnefndur verði starfshópur sem hafi það að markmiði að samræma starfsdaga á milli grunn- og leikskóla innan hverfa borgarinnar.

Jákvætt skref
Það er vissulega fagnaðarefni að fræðsluráð Reykjavíkur skuli reyna að koma til móts við óskir foreldra og atvinnulífs. Hvað varðar þá samræmingu á starfsdögum grunn- og leikskóla borgarinnar innan hverfa borgarinnar, sem fræðsluráð hefur óskað samráðs um við leikskólaráð, þá hafa Samtök atvinnulífsins farið fram á slíka samræmingu sem algert lágmarkstillit við fjölskyldur og atvinnulíf. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með grunnskólum og leikskólum loka sitt hvora dagana í jafnvel sömu vikunni innan hverfa.

Vetrarfrí voru ákveðin án nokkurs samráðs
Varðandi hins vegar samræmingu vetrarfrísins í grunnskólum borgarinnar hafa SA í sjálfu sér ekki óskað eftir henni. Samtökin hafa látið það frá sér fara að þau væru reiðubúin að taka þátt í samráði um skipan þessara mála, m.a. með það að leiðarljósi að stuðla að því að þessi vetrarfrí valdi sem minnstri röskun fyrir atvinnulífið. Þróun í átt til almennrar orlofstöku tiltekna daga að vetri hefur verið nefnd í þessu sambandi, líkt og þekkist sums staðar í nágrannalöndum okkar. Hins vegar hefur ekkert samráð verið haft við SA um þessar útfærslur sem nú eru kynntar. Mun alvarlegra er þó að sjálf ákvörðunin um að taka upp vetrarfrídaga í grunnskólum á sínum tíma var tekin án alls samráðs við atvinnulífið í landinu.

Munu áfram valda röskun
Það er ljóst að vetrarfrídagar munu hér eftir sem hingað til valda mikilli röskun fyrir fjölmargar fjölskyldur og vinnustaði, enda þannig staðið að innleiðingu þessa nýmælis að það kom umhverfi skólanna algerlega í opna skjöldu. Þróunin verður sennilega sú að fólk mun í vaxandi mæli taka hluta síns orlofs á þessum tíma og hugsanlegt er að sú þróun verði smám saman til þess að draga úr þessari röskun þar sem fyrirtæki muni bregðast við með því að lágmarka starfsemi þessa daga. Einfaldast væri þó að leggja af vetrarfrí grunnskólanna.

Samtök atvinnulífsins