Efnahagsmál - 

15. Febrúar 2008

Samningar gegn verðbólgu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samningar gegn verðbólgu

Þessa dagana eru Samtök atvinnulífsins og viðsemjendur þeirra úr röðum landssambanda og nokkurra beinna aðildarfélaga Alþýðusambandsins að leggja lokahönd á nýja kjarasamninga. Meginatriði þessara samninga er að forgangsraða því svigrúmi sem atvinnulífið hefur til launahækkana til þeirra sem greidd eru laun samkvæmt lægstu kauptöxtum og til þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði. Með samningunum skapast raunhæfur möguleiki á að ná niður verðbólgu og að launa- og verðbreytingar verði almennt í sama farvegi og í nágrannalöndum okkar.

Þessa dagana eru Samtök atvinnulífsins og viðsemjendur þeirra úr röðum landssambanda og nokkurra beinna aðildarfélaga Alþýðusambandsins að leggja lokahönd á nýja kjarasamninga. Meginatriði þessara samninga er að forgangsraða því svigrúmi sem atvinnulífið hefur til launahækkana til þeirra sem greidd eru laun samkvæmt lægstu kauptöxtum og til þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði. Með samningunum skapast raunhæfur möguleiki á að ná niður verðbólgu og að launa- og verðbreytingar verði almennt í sama farvegi og í nágrannalöndum okkar.

Forgangsröðunin þýðir að hækkanir til starfsmanna og aukning á launakostnaði fyrirtækja verður mjög mismunandi. Breytingarnar eru allt frá því að verða litlar sem engar í að mælast í drjúgum hækkunum þegar allra lægstu hugsanlegu laun eru skoðuð. En forgangsröðunin skapar grunn að nýju jafnvægi á vinnumarkaðnum og í atvinnulífinu sem er forsenda stöðugleika og hjöðnun verðbólgunnar.

Kauptaxtar almenns verkafólks og afgreiðslufólks hækka um 18.000 krónur á mánuði nú, en kauptaxtar iðnaðarmanna um 21.000 krónur. Samið var um launaþróunartryggingu sem tryggir að lágmarki 5,5% launabreytingar frá 2. janúar 2007. Í samningunum felast engar almennar flatar launahækkanir. Þessar hækkanir eru mjög sambærilegar við niðurstöður samninganna 22. júní 2006. Verðbólgan á síðari hluta árs 2006 lækkaði mjög í kjölfar þeirra samninga og á síðari árshelmingi var hraði verðbólgunnar kominn niður fyrir 3%. Verðbólgan fór svo vaxandi á nýjan leik þegar kom fram á árið 2007 fyrst og fremst vegna hækkunar íbúðaverðs. Engin ástæða er til annars en álykta að verðbólguhjöðnun í framhaldi af samningunum núna verði svipuð og á síðari hluta árs 2006.

Mikið traust er sett á fyrirtækin að framkvæma samningana eins og þeir eru. Fjölmörg fyrirtæki bera tiltölulega litlar kostnaðarhækkanir með samningunum meðan önnur taka á sig umtalsverðar hækkanir og þurfa ákveðið svigrúm til þess. Það skiptir höfuðmáli að fyrirtæki bíði með að taka á sig meiri launakostnað en þeim er skylt og sjái til hvernig vinnumarkaðurinn og verðbólgan þróast. Það skapar fyrirtækjunum líka aukinn sveigjanleika vegna launaþróunartryggingar í mars 2009.

Mikil samstaða hefur verið um þessa forgangsröðun í kjarasamningunum. Samtök atvinnulífsins mótuðu sér stefnu um þessa nálgun strax í upphafi viðræðna fyrir hálfu ári síðan og ótrúlega góð sátt hefur náðst um málið í hópi viðsemjenda þrátt fyrir ólíka hagsmuni. Allir sem hafa komið að málinu eiga heiður skilinn fyrir mikla tillitssemi og vilja til að láta stóru hagsmunina, lækkun verðbólgu og efnahagslegan stöðugleika, ganga fyrir þrengri hagsmunum.

Ríkisstjórnin er nú að fjalla um aðkomu sína að kjarasamningunum. Samtök atvinnulífsins leggja einkum áherslu á að hækkun launakostnaðar opinberra aðila verði í takt við það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði, að peningastefnu Seðlabankans verði breytt til að lækka vexti, að fyrirhyggja verði sýnd í atvinnumálum, að tekjuskattur fyrirtækja verði lækkaður í 15%, að þungaskattur á vöruflutninga verði felldur niður, að ríkið komi að uppbyggingu endurhæfingar og nokkur fleiri atriði.

Samtök atvinnulífsins hafa rætt málin við ríkisstjórnina. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar liggur væntanlega fljótt fyrir enda samningar á lokastigi. Ef allt fer að óskum ættu starfsskilyrði atvinnulífsins að batna en það stuðlar enn frekar að því að kjarasamningarnir leiði til lækkandi verðbólgu og raunverulegra kjarabóta.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins