Efnahagsmál - 

08. maí 2001

Samneysla vaxandi hlutfall af landsframleiðslu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samneysla vaxandi hlutfall af landsframleiðslu

Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar verður hlutur samneyslu í landsframleiðslu 24,3% á árinu. Árið 1997, fyrir aðeins fjórum árum, var hlutfallið aðeins 21,5%. Íslendingar skera sig hér úr, því að samneysla hefur farið minnkandi í öðrum ríkjum OECD undanfarin ár (sjá mynd).

Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar verður hlutur samneyslu í landsframleiðslu 24,3% á árinu.  Árið 1997, fyrir aðeins fjórum árum, var hlutfallið aðeins 21,5%. Íslendingar skera sig hér úr, því að samneysla hefur farið minnkandi í öðrum ríkjum OECD undanfarin ár (sjá mynd).



Samneysla er ýmis þjónusta hins opinbera. Til hennar teljast til dæmis starfssemi skóla, sjúkrahúsa, dómstóla, fangelsa, ráðuneyta og sendiráða auk tollgæslu og vegabréfaskoðunar.  Umfang þessarar þjónustu hefur aukist ívið meira en landsframleiðslan í heild á hagvaxtarskeiðinu undanfarin ár.  Vöxturinn var 3,8% á ári að meðaltali frá 1997 til 2001.  Stjórnvöld hafa misst af góðu tækifæri til þess að hagræða í rekstri sínum á þessum tíma. Þá hefði ríkisrekstur vikið úr vegi fyrir einkarekstri og verðbólga og viðskiptahalli hefðu orðið minni en reyndin varð.  Fyrrverandi ríkisstarfsmenn hefðu ekki verið lengi að leita sér að vinnu í þenslunni. 
En meginskýringin á því að samneyslan hefur ekki aðeins haldið sínum hlut í landsframleiðslunni, heldur hefur hlutur hennar vaxið, er að verð hennar hefur hækkað miklu meira en annað verðlag hér á landi (sjá 1. töflu). 

1. tafla

Verðvísitölur, breyting frá fyrra ári

1997 1998 1999 2000
Samneysla 4% 10% 7% 6%
Verg landsframleiðsla 4% 5% 4% 4%

Heimild: Þjóðhagsstofnun

Laun eru stærsti hluti samneyslunnar og þau hafa hækkað meira en verðlag.  Eins og sést í 2. töflu hafa ríki og sveitarfélög haft forystu í launahækkunum undanfarin ár.

2. tafla

Laun, breyting frá fyrra ári

1997 1998 1999 2000
Opinberir starfsmenn 5% 13% 9% 8%
Almennur markaður  9% 9%  5% 7%
Heimildir:
Opinberir starfsmenn: Hagstofan;
Almennur markaður: SA, byggt á tölum Kjararannsóknarnefndar

Hagur ríkissjóðs hefur batnað upp á síðkastið, en nýleg rannsókn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins bendir til þess að litlar líkur séu á að batinn haldist lengi nema dregið verði úr útgjöldum (McDermott og Wescott, 1996: Fiscal reforms that work, Economic issues nr. 4, IMF, Washington).  Ef stefnan breytist ekki má því gera ráð fyrir að fljótt sígi aftur á ógæfuhliðina í fjármálum hins opinbera.

Samtök atvinnulífsins