Efnahagsmál - 

15. Desember 2010

Samkomulag um úrlausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samkomulag um úrlausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Víðtækt samkomulag hefur náðst um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að því standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Skrifað var undir samkomulagið í dag í Rúgbrauðsgerðinni. Samkomulagið verður kynnt á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. desember kl. 8.30-10.00. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vef SA.

Víðtækt samkomulag hefur náðst um leiðir við úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að því standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Skrifað var undir samkomulagið í dag í Rúgbrauðsgerðinni. Samkomulagið verður kynnt á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. desember kl. 8.30-10.00. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vef SA.

Samkomulagið felur í sér að úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði hraðað verulega. Stefnt er að því að fyrir 1. júní 2011 hafi fjármálafyrirtæki lokið skoðun á fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja og gert lífvænlegum fyrirtækjum sem eru í fjárhagsvanda tilboð um úrvinnslu skulda þeirra.

Miðað er við að heildarskuldsetning fyrirtækis að lokinni úrvinnslu fari ekki fram úr endurmetnu eigna- eða rekstrarvirði þess, hvoru sem er hærra, að viðbættu virði annarra trygginga og ábyrgða fyrir skuldum viðkomandi fyrirtækis.

Samkomulaginu verður fylgt eftir með mánaðarlegum skýrslum um framgang mála og úrbótum á úrvinnslunni, komi til hnökra eða tafa.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru stærsti vinnuveitandi landsins. Ríflega 90% allra íslenskra fyrirtækja eru lítil eða meðalstór og má ætla að fjöldi þeirra sé á þriðja tug þúsunda. Þessi fyrirtæki standa undir drjúgum hluta verðmæta- og atvinnusköpunar í landinu.

Að mati þeirra sem undir samkomulagið rita, er það ein af nauðsynlegum forsendum nýrrar  fjárfestingar í íslensku hagkerfi sem aftur leiðir af sér hagvöxt og störf.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, skrifaði undir samkomlagið f.h. SA, en hann segir það mikilvægt og í því felist tækifæri fyrir atvinnulífið til að sækja fram. Ef vel takist til megi minnka atvinnuleysið þar sem fyrirtæki geti farið að fjárfesta á ný og ráða fólk í vinnu. Þetta sé mikilvæg efnahagsleg aðgerð og vonandi muni fleiri árangursríkar aðgerðir fylgja í kjölfarið til að koma hjólum atvinnulífisins af stað á ný svo hægt sé að bæta hér lífskjörin.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir samkomulagið draga úr óvissu og sé liður í að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar sem séu of litlar í dag til að viðhalda samkeppnishæfni atvinnulífsins. "Sóknarfærin í atvinnulífinu og möguleikarnir til þess að bæta kjör fólks verða að koma í gegnum auknar fjárfestingar á næstu árum, fyrst og fremst í útflutningsgreinum. Þar er hægt að skapa varanleg störf, tryggja auknar útflutningstekjur, styrkari gjaldmiðil og betri lífskjör til lengri tíma."

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að samkomulagið ætti að hraða þeirri vinnu sem þegar sé hafin í fjármálafyrirtækjum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. "Þetta er umfangsmikið verkefni og mikill fjöldi starfsmanna fjármálafyrirtækja um land allt koma að þessari vinnu. En við teljum verkefnið vel viðráðanlegt enda mikil reynsla við úrvinnslu skuldavanda safnast upp í fjármálakerfinu á síðustu misserum."

Samkomulagið verður kynnt stjórnendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. desember kl. 8.30-10.00. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞÁTTTÖKU

Sjá nánar:

Samkomulag um úrlausn á skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja (PDF)

Fréttatilkynning samstarfsaðila og samantekt á helstu atriðum samkomulagsins (PDF)

Upplýsingavefur Viðskiptaráðs um samkomulagið

Samtök atvinnulífsins