Samkomulag um eingreiðslu
Í samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA frá 15. nóvember sl. er kveðið á um sérstaka eingreiðslu til handa launamönnum, kr. 26.000 m.v. fullt starf allt árið og greiðist hún eigi síðar en 15. desember nk.
Nær til allra á samningssviði SA
Allir kjarasamningar SA eru annað hvort með ákvæði um samningsforsendur eða tilvísun til niðurstöðu nefndarinnar og eiga launamenn sem undir þessa kjarasamninga falla rétt á eingreiðslunni. Sérákvæði eru í samningum fiskimanna en samkvæmt kjarasamningum þeirra þarf sérstaklega að semja um útfærslu á niðurstöðu nefndarinnar.
Ekki hækkun á desemberuppbót
Samið var um eingreiðslu en ekki breytingu á desemberuppbót.
Desemberuppbót greiðist eftir sem áður og er hún kr. 45.000 hjá
verslunar- og skifstofufólki en kr. 39.700 hjá öðrum starfsstéttum.
Þótt desemberuppbót sé hærri í kjarasamningi eða ráðningarsamningi
en almennt gerist á vinnumarkaði þá kemur eingreiðslan til
viðbótar.
Fjárhæð og hvenær skal greiða
Eingreiðslan er kr. 26.000 m.v. fullt starf allt árið og greiðist
eigi síðar en 15. desember 2005. Starfsfólk í hlutastarfi skal fá
greitt hlutfallslega.
Vinna í lok nóvember eða byrjun desember
Þeir sem eru í starfi í fyrirtækinu í síðustu viku
nóvember eða fyrstu viku desember eiga rétt til eingreiðslu. Þeir
sem hætt hafa störfum á árinu eiga ekki rétt til eingreiðslu. Að
þessu leiti lýtur eingreiðslan öðrum lögmálum en
desemberuppbótin.
Þeir sem unnið hafa hjá fyrirtækinu hluta úr ári, og uppfylla skilyrðið um að vera í starfi í síðustu viku nóvember eða fyrstu viku desember, eiga rétt á hlutfallslegri greiðslu m.v. starfstíma á almanaksárinu. Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur, eða meira, fyrir utan orlof. Að þessu leyti en eingreiðslan reiknuð með sama hætti og desemberuppbót.
Dæmi: Starfsmaður hefur störf 1. ágúst 2005 og fyrirséð er að hann mun starfa fram til áramóta. Frá 1. ágúst til 31. desember eru 22 vikur. Hlutfall eingreiðslu er 49% (22/45). Eingreiðsla hans er kr. 26.000 x 0,49 = kr. 12.740.
Sú sérregla gildir um eingreiðsluna að hún verður aldrei lægri en
kr. 4.500 m.v. fullt starf.
Kvöld- og helgarvinna
Ef starfsmaður er í hlutastarfi utan dagvinnutímabils skal
reikna starfshlutfall hans út frá unnum dögum á viku eða í mánuði
og fjölda vinnustunda, þó að hámarki 8 klst. á dag.
Fjarvistir vegna veikinda eða
fæðingarorlofs
Fjarvera frá störfum vegna fæðingarorlofs telst til starfstíma við
útreikning eingreiðslunnar. Ekki er gerð krafa um
lágmarksstarfstíma. Þótt starfsmaður hafi fullnýtt veikindarétt
sinn og fallið af launaskrá þá skal skal telja allar fjarvistir til
starfstíma.
Fjarvistir vegna hráefnisskorts
Starfsmaður sem er í ráðningarsambandi við fyrirtæki en er ekki á
launaskrá vegna hráefnisskorts í desember missir ekki rétt til
eingreiðslunnar og reiknast sá tími með við útreikning
eingreiðslunnar mæti hann til vinnu að lokinni fjarveru vegna
hráefnisskorts.
Iðnnemar
Iðnnemar á námssamningi og starfsþjálfunarnemar fá greiddar kr.
16.400. Réttur til greiðslu sérstakrar eingreiðslu skal vera í
réttu hlutfalli við starfstíma. Fullt starf telst í þessu
sambandi 45 unnar vikur (1800 dagvinnustundir) eða meira fyrir utan
orlof. Hjá iðnnemum á námssamningi telst námstími í skóla sem
unninn tími.
Gjöld og frádráttur
Fara skal með eingreiðsluna með sama hætti og önnur laun. Orlof er
þó innifalið í eingreiðslunni.