Efnahagsmál - 

15. nóvember 2005

Samkomulag SA og ASÍ um framhald kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samkomulag SA og ASÍ um framhald kjarasamninga

Sérstök forsendunefnd Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hefur komist að niðurstöðu um að forsendur kjarasamninga hafi ekki staðist. Nefndin hefur hins vegar komist að samkomulagi um viðbrögð við þeirri stöðu og halda samningar gildi sínu með þeim breytingum, eins og kveðið er á um í samningunum. Jafnframt hafa SA og ASÍ gert með sér samkomulag um meginatriði breytinga á atvinnuleysistryggingum. Samkomulagi aðila fylgir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til þess að treysta stöðuna á vinnumarkaði.

Sérstök forsendunefnd Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hefur komist að niðurstöðu um að forsendur kjarasamninga hafi ekki staðist. Nefndin hefur hins vegar komist að samkomulagi um viðbrögð við þeirri stöðu og halda samningar gildi sínu með þeim breytingum, eins og kveðið er á um í samningunum. Jafnframt hafa SA og ASÍ gert með sér samkomulag um meginatriði breytinga á atvinnuleysistryggingum. Samkomulagi aðila fylgir yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til þess að treysta stöðuna á vinnumarkaði.

Meginatriði samkomulags SA og ASÍ vegna forsendna samninga:

Laun félaga í aðildarfélögum Alþýsambandsins sem eiga aðild að kjarasamningunum við SA hækka um 0,65% í janúar 2007 til viðbótar við þá hækkun sem kveður á um í einstökum samningum. Jafnframt fá allir sem hafa verið í fullu starfi hjá viðkomandi fyrirtæki 26.000 króna eingreiðslu í desember næstkomandi. Launahækkunin verður með öðrum orðum ekki varanleg fyrr en að ljóst er að þeir haldi einnig við skoðun á forsendum í nóvember 2006, en sú útfærsla undirstrikar að í þessari viðamiklu endurskoðun telja aðilar sig vera að treysta stöðu samninganna allt til loka samningstímans í árslok 2007 og lengur varðandi suma samninga.

Þessu til viðbótar hækkar lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu í 108.000 kr. um næstu áramót og í 110.000 kr. 1. janúar 2007. Samtök atvinnulífsins telja þessa niðurstöðu réttlætanlega í ljósi alvarleika þeirrar stöðu sem hefði skapast ef komið hefði til uppsagnar kjarasamninga. Engu að síður er ljóst að mörgum fyrirtækjum mun reynast erfitt að taka á sig þennan aukakostnað.

Samkomulag um meginatriði breytinga á atvinnuleysisbótum:

Samkvæmt samkomulagin verða grunnbætur atvinnuleysistrygginga kr. 96.000 við gildistöku kerfisbreytingar árið 2006 og taka 2,9% hækkun launa 1. janúar 2007. Þá verður tekjutenging bóta miðuð við 70% af heildartekjum síðastliðna sex mánuði, en hámarksbætur verða kr. 180.000 á mánuði.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér fjögur meginatriði

Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til samstarfs við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um leiðir sem, auk aðgerða á vettvangi lífeyrissjóðanna sjálfra, draga úr vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóða og jafna stöðuna milli einstakra sjóða. Til að vinna að framgangi þessa máls mun forsætisráðherra skipa nefnd fulltrúa stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða. Ríkisstjórnin lýsir því jafnframt yfir að hún er reiðubúin til að greiða fyrir jöfnun á örorkubyrði milli lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með framlagi sem svarar til 0,25% af tryggingagjaldsstofni samkvæmt nánari útfærslu milli aðila og komi til framkvæmda á þremur árum, 0,15% 2007, 0,20% 2008 og 0,25% 2009.

Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, að beita sér fyrir sérstöku átaki til að efla starfs- og endurmenntun ófaglærðra og einstaklinga með litla menntun, jafnframt því að bæta stöðu erlends vinnuafls í íslensku samfélagi. Áætlað er að kostnaður vegna þessa nemi 100 m.kr. á árinu 2006.

Ennfremur mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að lög um starfsmannaleigur verði samþykkt fyrir jólahlé Alþingis.

Loks mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lagasetningu um breytingar á greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við það samkomulag sem nú liggur fyrir milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þar er meðal annars gert ráð fyrir sérstakri hækkun lágmarksbóta, tekjutengingu atvinnuleysisbóta, styttingu greiðslutímabils o.fl. Þessar aðgerðir verða fjármagnaðar með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði en sameiginlegur skilningur er á milli aðila um að ekki sé ástæða til að hækka atvinnutryggingagjald við gildistöku laganna þar sem sjóðurinn hafi svigrúm til að fjármagna þessar breytingar miðað við núverandi atvinnuleysisstig.

Sjá samkomulag SA og ASÍ um forsendur kjarasamninga

Sjá samkomulag SA og ASÍ um meginatriði breytinga á atvinnuleysisbótum

Sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á vef forsætisráðuneytisins

Samtök atvinnulífsins