Efnahagsmál - 

01. September 2005

Samkeppnisstaða fyrirtækja aldrei verið verri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samkeppnisstaða fyrirtækja aldrei verið verri

Gengi krónunnar er nú, í byrjun september 2005, hærra en það hefur verið frá því núverandi gengisfyrirkomulag var tekið upp vorið 2001. Gengi krónunnar er einnig hærra um þessar mundir en það varð hæst á vormánuðum ársins 2000, þegar það náði áður óþekktum hæðum. Hið sterka gengi vorsins 2000 samrýmdist ekki efnahagslegum aðstæðum þess tíma og fékk ekki staðist nema skamma hríð. Hátt gengi krónunnar nú er ekki, frekar en árið 2000, samrýmanlegt jafnvægi í utanríkisviðskiptum og hvílir sem farg á innlendum fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni. Það helst þó svo hátt sem raun ber vitni um sinn vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans og mikils vaxtamunar gagnvart útlöndum.

Gengi krónunnar er nú, í byrjun september 2005, hærra en það hefur verið frá því núverandi gengisfyrirkomulag var tekið upp vorið 2001. Gengi krónunnar er einnig hærra um þessar mundir en það varð hæst á vormánuðum ársins 2000, þegar það náði áður óþekktum hæðum. Hið sterka gengi vorsins 2000 samrýmdist ekki efnahagslegum aðstæðum þess tíma og fékk ekki staðist nema skamma hríð. Hátt gengi krónunnar nú er ekki, frekar en árið 2000, samrýmanlegt jafnvægi í utanríkisviðskiptum og hvílir sem farg á innlendum fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.  Það helst þó svo hátt sem raun ber vitni um sinn vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans og mikils vaxtamunar gagnvart útlöndum.

Hæsta raungengi frá upphafi
Raungengi krónunnar er vísitala sem ber saman breytingar vöruverðs hér á landi og í viðskiptalöndunum, mældar í sameiginlegri mynt. Raungengi á mælikvarða verðlags er tiltölulega einfaldur mælikvarði á samkeppnisstöðu atvinnulífsins og sýnir hækkandi gildi vísitölunnar að staða atvinnulífsins fari versnandi. Raungengið á mælikvarða verðlags er um þessar mundir, þ.e. miðað við ágúst 2005, hærra en það hefur verið nokkurt ár frá því árið 1980, eða frá upphafi þeirra mælinga sem Seðlabankinn birtir. Raungengisvísitalan var þó hærri en nú um nokkurra mánaða skeið um áramótin 1987 og 1988, en samanburður við þann tíma hefur enga þýðingu þar sem aðstæður voru gerólíkar frá því sem nú er og hið háa raungengi stafaði af misheppnaðri fastgengisstefnu þess tíma í 25% verðbólgu.

Afkoma atvinnulífsins versnar
Á þennan mælikvarða, raungengi á mælikvarða verðlags, er samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verri en hún hefur nokkurn tímann verið frá upphafi þessara mælinga. Jákvæðar breytingar í umgjörð atvinnulífsins skipulagsbreytingar og framleiðniaukning hafa haft það í för með sér að við getum búið við hærra raungengi en áður. Atvinnulífið er öflugra og stendur undir betri lífskjörum. Því fer þó fjarri að slíkar framfarir hafi átt sér stað að geti staðið undir núverandi gengi krónunnar. Gríðarlegur viðskiptahalli ber því órækt vitni. Hagnaður atvinnulífsins í heild hefur farið minnkandi samhliða hækkandi raungengi. Sem betur fer skera ýmis fyrirtæki sig úr þeirri heildarmynd. Hagnaður skráðra fyrirtækja í kauphöllinni kann líka að villa mönnum sýn á heildarmyndina, en hann á að stórum hluta rætur að rekja til starfsemi erlendis.

Þar sem verðbólga hefur verið fremur lítil miðað við viðskiptalöndin, og stafar aðallega af verðhækkun húsnæðis, þá á hækkun raungengis undanfarin misseri einkum rætur að rekja til hækkunar gengis krónunnar. Gengisvísitala krónunnar er nú um 108 stig og er tæplega 11% hærri en að meðaltali árið 2004. Raungengi á mælikvarða verðlags er 13% hærra en árið 2004 og 20% hærra en að meðaltal síðustu 10 ár, þ.e. á árabilinu 1995-2004. Ýmis rök benda til þess að jafnvel raungengi í námunda við meðaltal síðustu 10 ára sé hærra en samræmist efnahagslegu jafnvægi þar sem á því tímabili var viðskiptahalli flest árin og var hann að jafnaði umtalsverður.

Raungengi krónunnar er einnig reiknað á mælikvarða launa.  Sú vísitala er gerð þannig að launabreytingar hér á landi eru bornar saman við viðskiptalöndin, þær síðan umreiknaðar í sameiginlega mynt og loks er tillit tekið til mismunandi hagvaxtar.  Þannig á raungengisvísitalan á mælikvarða launa að endurspegla breytingar launakostnaðar á framleidda einingu. Raungengi á mælikvarða launa er um þessar mundir u.þ.b. 20% hærra en að meðaltali síðasta áratug, líkt og raungengi á mælikvarða verðlags. Raungengi á mælikvarða launa varð þó 10-15% hærra í kringum áramótin 1987-1988, en það er nú en í kjölfarið lækkaði raungengið á þennan mælikvarða um 30% á næstu tveimur árum. Á þessum árum, 1988-1990, lækkaði kaupmáttur launa um 12,5% og endurheimtist sá kaupmáttur, sem náðist í árslok 1987, almennt ekki fyrr en tæpum áratug síðar.

Krónan styrkist enn
Á síðustu dögum hefur gengi krónunnar enn verið að styrkjast og er sú þróun skýrð með áhuga erlendra spákaupmanna á að nýta sér mikinn vaxtamun. Greiningardeildir fjármálafyrirtækja spá þó flestar frekari vaxtahækkunum og að krónan gefi ekki eftir á næstu misserum. Með hliðsjón af þeirri sögulegu þróun sem hér hefur verið rakin hljóta menn þó að staldra við og velta fyrir sér  hvað slík sýn feli í sér varðandi tilvist innlendra samkeppnisgreina á komandi árum. Enn frekara ójafnvægi í utanríkisviðskiptum  en nú er skapar hættu á rússíbanareið kaupmáttarskerðingar, sem allir hljóta að vilja forðast.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins