Samkeppnislög þarf að endurskoða

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi í vikunni úr gildi þá ákvörðun samkeppnisráðs frá 15. desember sl., að ógilda kaup Prentsmiðjunnar Odda hf. á Steindórsprenti - Gutenberg ehf. Hlýtur niðurstaðan að vera mikið fagnaðarefni. Ekki aðeins fyrir fyrirtækin sem í hlut eiga, heldur almennt fyrir fyrirtækjarekstur í landinu, eins og haft var eftir forstjóra Odda í Morgunblaðinu. Þegar upp er staðið velta lífskjör almennings í landinu á því að fyrirtækin finni leiðir til hagræðingar og framleiðniaukningar.

Margir hljóta að hafa velt því fyrir sér hvort þessi niðurstaða feli í sér vísbendingar um það hver hefði verið afstaða áfrýjunarnefndar til sameiningar Landsbankans og Búnaðarbankans, jafn afdrifarík áhrif og neikvæð afstaða samkeppnisráðs hafði á framvinduna á íslenskum fjármálamarkaði. Málskot var ekki mögulegt í því máli þar sem sú leið var farin að óska eftir fyrirfram áliti samkeppnisráðs, sem var þá endanleg úrlausn málsins. Úr þessu fæst ekki skorið héðan af með óyggjandi hætti, en það verður að telja sennilegt að niðurstaðan hefði verið á sama veg. Í bankamálinu lá það t.d. jafnvel enn skýrar fyrir, að næst stærsti innlendi samkeppnisaðilinn, Íslandsbanki FBA, hefði haft í fullu tré við hið sameinaða fyrirtæki.

Það hefur blasað við að samkeppnisráð hefur verið á rangri leið í áherslu sinni á markaðsráðandi stöðu og í þröngri skilgreiningu markaða. Ekkert tillit hefur verið tekið til síbreytileika þess umhverfis sem er undirorpið markaðslögmálum. Við endurskoðun samkeppnislaga á síðasta þingi var lagt bann við misnotkun markaðsráðandi stöðu og Samkeppnisstofnun fengin öflugri tæki til viðbragða við slíkri háttsemi. Í því samhengi hefði verið rétt að afnema heimild stofnunarinnar til að ógilda samruna fyrirtækja. Að minnsta kosti hefði verið nauðsynlegt að takmarka mun betur þá heimild, t.d. með hliðsjón af veltu og erlendri samkeppni. Á þetta var rækilega bent af samtökum úr atvinnu- og viðskiptalífi, en á það var ekki hlustað frekar en aðrar athugasemdir úr þeirri átt. Var í raun með ólíkindum hvernig að undirbúningi lagabreytingarinnar var staðið af hálfu viðskiptaráðuneytisins. Er ljóst að ekki verður undan því vikist að gera frekari breytingar á lögunum þótt skammt sé liðið frá síðustu endurskoðun. Verði ekki horfið frá mögulegu banni við samruna og yfirtöku, án tillits til misnotkunar slíkrar aðstöðu, væri rétt að íhuga þann möguleika við þá endurskoðun að samkeppnisyfirvöld sæki slík mál fyrir dómstólum, en dæmi ekki sjálf. Þannig mun þetta vera t.d. í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Að fenginni reynslu má ætla að það gæti hjálpað til við að skapa nauðsynlegt traust á þessu sviði, að rannsóknarvald, ákæruvald og dómsvald séu ekki á sömu hendi, ef svo má segja.

Ari Edwald