Samkeppnishæf samkeppnislög

Samkeppnishæf samkeppnislög er yfirskrift skýrslu samkeppnislagahóps Samtaka atvinnulífsins sem kynnt var á aðalfundi samtakann í dag. Ari Edwald framkvæmdastjóri SA sagði það vera brýnt hagsmunamál fyrir atvinnulífið að hér gildi sambærileg samkeppnisskilyrði og leikreglur og annars staðar. Tilgangur samkeppniseftirlits sé að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu en ekki að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla gegn hagræðingu.  Samtökin hafi því falið samkeppnislagahópi sínum að skoða íslensk samkeppnislög með hliðsjón af  löggjöf nágrannaríkja og gera tillögur um úrbætur.  Niðurstaða þeirrar vinnu komi fram í skýrslunni sem hefur að geyma tillögur hópsins auk samanburðar við  samkeppnislöggjöf hinna Norðurlandanna og reglur Evrópuréttar.  Sagði Ari það vera von samtakanna að þessi vinna yrði til að örva umræðu um þróun samkeppnisreglna og til að auka skilning á þörfum atvinnulífsins. 


Ari Edwald gerði grein fyrir og skýrði þær tillögur til breytinga sem fram koma í skýrslunni en þar setur samkeppnislagahópurinn fram eftirfarandi tillögur:


1.  Samkeppnisráð verði lagt niður og Samkeppnisstofnun taki við hlutverki þess. Endurskoða þurfi hlutverk þessara stofnana til að auka réttaröryggi og efla traust atvinnulífs og neytenda og auka jafnræði með því að aðili máls fái að flytja mál sitt milliliðalaust fyrir þeim sem tekur ákvörðun. Fulltrúar atvinnulífs og neytenda eigi hvor sinn fulltrúa í 5 manna kærunefnd samkeppnismála sem verði sjálfstæð og hafi fullnægjandi starfsaðstöðu. 


2.  Viðmiðunarmörk minniháttarreglu 13. gr. samkeppnislaga sem undanþiggur samninga sé markaðshlutdeild minni en 5% í láréttum samningum en 10% í lóðréttum samningum verði hækkuð. Breytingin muni auðvelda samstarf minni fyrirtækja og létta álagi af samkeppnisyfirvöldum vegna samninga sem hafa hverfandi áhrif á samkeppni. 


3.  Valdheimildir Samkeppnisstofnunar verði skýrðar og c-liður 17. gr. laganna sem veitir opna heimild til aðgerða gegn  "aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni"  felld niður.  Með því yrði dregið úr réttaróvissu. 


4.  Lagt er til að 18. gr. samkeppnislaga um samrunaeftirlit verði felld niður eða í það minnsta verði veltumörk hækkuð fyrir tilkynningaskyldan samruna fyrirtækja.  Tilgangurinn er að auðvelda uppbyggingu fyrirtækja sem geta staðist alþjóðlega samkeppni.  Jafnframt verði komið í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu á markaði með ströngu og virku aðhaldi.  Að minnsta kosti verði reglum breytt og veltumörk hækkuð þannig að tilkynningarskylda vegna samruna verði ekki lögð á fyrirtæki nema ástæða sé til.  Banni gegn samruna verði því aðeins beitt að samruni hamli verulega virkri samkeppni.  Með slíkum breytingum væru íslensk samkeppnislög færð nær því sem gildir á hinum Norðurlöndunum þar sem veltumörk vegna samruna eru mun hærri en hér á landi og þess einnig krafist að samruni hamli verulega virkri samkeppni.


5.  Mögulegt verði að leita bindandi álits fyrirfram hjá Samkeppnisstofnun þar sem fullur trúnaður gagnvart álitsbeiðendum verði tryggður. Fyrirtæki þurfa að eiga þess kost að fá að vita fyrirfram hvort samruni kunni að verða bannaður jafnframt því sem þeim er mikilvægt að upplýsingum sé haldið leyndum á meðan ekki er fullreynt hvort af samruna verður.


6.  Settar verði skýrar reglur um heimild til húsleitar og um framkvæmd slíkrar leitar. Það hafi sýnt sig að núverandi fyrirkomulag sé ófullnægjandi. Það vanti skýrar  heimildir um umboð leitarmanna og um framkvæmd leitar.  Um hvað megi taka og hvernig en þar sé eðlilegt að hafa hliðsjón af þeim reglum sem Eftirlitsstofnun EFTA sé bundin af fyrirskipi hún leit.  Þá sé mikilvægt að meðalhófs sé gætt við leitina og persónuverndarsjónarmið virt.


7.  Lagt er til að heimild samkeppnisyfirvalda til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á bannákvæðum samkeppnislaga verði þrengd og færð til fyrra horfs.  Gæta þurfi meðalhófs og jafnræðis við beitingu slíkra sektarheimilda. Um verði að ræða sektarheimild eins og áður var en ekki skyldu til álagningar sektar. Slík breyting er í samræmi við löggjöf EES og nágrannaríkja.


8.  Refsiákvæði samkeppnislaga verði endurskoðuð þar sem slíkar almennar refsireglur um fésektir, fangelsi, réttindasviptingu og upptöku eigna eiga að takmörkuðu leyti heima í samkeppnislögum. Svo er yfirleitt ekki í rétti nágrannaríkjanna. Þá er samspil þessarra refsiheimilda og stjórnvaldssekta samkvæmt lögunum óljóst. 


9. Sett verði ákvæði um 5 ára fyrningarfrest brota í samkeppnislög til að taka af allan vafa um fyrningarfrest samkeppnisbrota og upphaf hans. 


10.  Þá telur samkeppnislagahópurinn æskilegt að samkeppnisyfirvöld leggi aukna áherslu á leiðbeiningar og fræðslu og stuðli þannig að aukinni samvinnu Samkeppnisstofnunar og fyrirtækja.