„Samkeppnin læðist alltaf aftan að manni“

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, flutti erindi á fundi Stjórnvísi um samruna og yfirtökur og fjallaði erindi Ara um hagsmuni fyrirtækja og þjóðfélags. Ari lagði á það lykiláherslu í erindi sínu að stærð fyrirtækja sem slík væri ekki lykilatriði gagnvart samkeppni á markaði. Það sem skipti megin máli væri að ekki væru til staðar aðgangshömlur eða önnur bjögun á markaði, og að samkeppnisyfirvöld ættu að vinna markvisst gegn misbeitingu á markaðsráðandi stöðu og ólögmætu samráði þannig að bann við slíku væri virkt. Ari sagði Samtök atvinnulífsins styðja Samkeppnisstofnun í þeirri vinnu.

Ótrúlegur fjöldi ákvarðana um samrunabann
Ari sagði Samkeppnisstofnun leggja of mikla áherslu á stærð fyrirtækja. Hann rakti lauslegan samanburð á fjölda samrunamála og bannákvarðana samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndunum. Þar kæmi í ljós að hérlendis hefði samruni fyrirtækja tvisvar verið bannaður á tímabilinu 2000-2001, en í Finnlandi hefði á sama tíma einn samruni verið bannaður. Þá hefðu engir samrunar verið bannaðir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á árinu 2001. Sagði Ari það vera algert neyðarúrræði að handstýra með þessum hætti uppbyggingu atvinnulífsins og að ekki ætti að grípa til þess nema veruleg takmörkun væri á markaðsaðgangi. Handstýring uppbyggingar atvinnulífs á síkvikum markaði myndi með tímanum reynast gagnslaus iðja líkt og verðlagsákvæði forðum, enda "læddist samkeppnin alltaf aftan að mönnum" líkt og það hefði verið orðað.

Viðmiðanir alltof lágar hér
Ari fjallaði m.a. um þjóðhagslegar afleiðingar forúrskurðar um bann við samruna Landsbanka og Búnaðarbanka á grundvelli bréfs Íslandsbanka til einkavæðingarnefndar, en rekstrarkostnaður íslenska bankakerfisins er um 2 prósentustigum hærri en í nágrannalöndunum. Ástæðan er að mati Íslandsbanka smáar einingar og dýrt útibúanet. Tvö prósent af vergri landsframleiðslu eru um 15 milljarðar króna sem þannig "tapast" á ári vegna hamla gegn hagræðingu í greininni. Ari sagði það mjög til efs að rök væru fyrir að horfa til hlutfalls af þjóðarframleiðslu við ákvörðun viðmiðana varðandi tilkynningaskyldan samruna, t.d. í ljósi alþjóðlegrar samkeppni. En jafnvel ef málið væri skoðað út frá þeirri forsendu kæmi í ljós að mörkin væru um helmingi lægri hér en t.d. í Danmörku og greinilega alltof lág.

Ekki að trufla samkeppnisstöðu
Ari ítrekaði áherslu sína á að samkeppniseftirlit ætti að vinna gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu með ströngu og virku aðhaldi. Það ætti hins vegar ekki að trufla samkeppnisstöðu eða stýra uppbyggingu atvinnulífsins og hamla gegn hagræðingu. Opinber stofnun hefði enda takmarkaða möguleika á að sjá fyrir viðbrögð markaðarins.


 

Sjá glærur Ara Edwald