Samkeppnin að aukast í íslensku atvinnulífi

"Er samkeppni að aukast eða minnka í íslensku atvinnulífi?" var yfirskrift erindis Guðrúnar Johnsen, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins, á morgunfundi Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands um það sem er að gerast í íslensku viðskiptalífi.

Guðrún sagði ýmsar jákvæðar vísbendir um vaxandi samkeppni í íslensku atvinnulífi. Almennt frjálsræði hefði aukist verulega, m.a. í krafti EES-samningsins, komin væri á samkeppni á nýjum sviðum, sbr. fjarskiptamarkaðinn, að ógleymdri einkavæðingu ríkisfyrirtækja, t.d. bankanna. Allt þetta og fleira hefði stuðlað aukinni meðvitund um gildi samkeppninnar. Í umræðunni upp á síðkastið hefðu hins vegar ýmsir gagnrýnt stöðu mála í íslensku atvinnulífi, og m.a. sagt fákeppni vaxandi hér á landi og eignir færast á færri hendur.

Um sýn SA vitnaði Guðrún m.a. í nýlegan leiðara Ara Edwald, framkvæmdastjóra SA, úr fréttabréfi samtakanna: "Má fullyrða að meðvitund fólks hafi mjög aukist um mikilvægi þess að ferskir vindar samkeppninnar fái að leika um sem allra flest svið samfélagsins. Að sumu leyti hefur þjóðfélagið sjálft, skipulag þess og fornir viðskiptahættir verið á sakamannabekknum í umræðunni."

Fleiri milljónamæringar
Guðrún fjallaði um nokkra fræðilega mælikvarða á samkeppnina, en litlar tölulegar mælingar hafa hins vegar farið fram hérlendis um samkeppnisumhverfið. Verðið er hinn endanlegi mælikvarði á samkeppnina, og verðlagsþróun undanfarinna ára styður ekki kenningar um minnkandi samkeppni. Almenn verðlagsþróun er hins vegar ekki nægilega góður mælikvarði á samkeppni, til þess þarf að fylgjast með verðlagi á hverjum markaði fyrir sig. Þær tölur liggja ekki fyrir.

Guðrún benti hins vegar á að ef horft sé á eignaskattsstofn einstaklinga þá virðist sem fjársterkum einstaklingum hafi fjölgað verulega. Fjöldi manna sem eiga 10 milljónir eða meira hefur ríflega þrefaldast á fimm árum og stóreignamönnum, með eignaskattsstofn yfir 20 milljónum króna, fjölgaði um 226% á sama tíma, úr tæpum 1.000 í tæp 3.000 á árunum 1996 til 2001 (20 m.kr. eru e.t.v. ekki mjög há upphæð en rétt er að taka fram að hlutabréf eru þarna skráð á nafnvirði). Þetta skiptir miklu máli í samkeppnisumhverfi, að margir aðilar hafi ákveðið fjárhagslegt bolmagn til þátttöku. Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands hefur fyrirtækjum jafnframt fjölgað verulega í mörgun greinum undanfarin ár, þótt skattabreytingar séu trúlega helsta skýring þeirrar þróunar. Þær tölur hins vegar styðja við tölur um eignaskattsstofn því þær miðast við eignir einstaklinga og eru afar íhaldsamur mælikvarði á fjárhagslegastöðu athafnamanna.

Ennþá lítil samkeppni á sumum sviðum
Guðrún benti hins vegar á að ennþá væri lítil á sumum sviðum, sbr. ýmsa opinbera þjónustu, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, orkuframleiðslu og landbúnaðarframleiðslu. Niðurstaða hennar var sú að flest benti til að samkeppni hefði aukist mikið í íslensku atvinnulífi, þótt alvöru rannsóknir skorti óneitanlega á því sviði. Guðrún sagði umræðuna því oft á tilfinningagrunni, t.d. umræðuna um að eignir væru að færast á færri hendur. Hún sagði stjórnvöld hljóta að leggja áherslu á að vinna gegn markaðshömlum og markaðsbjögun, og að veita samkeppni inn á ný svið.

Sjá glærur Guðrúnar.