Samkeppnishæfni - 

05. Febrúar 2015

Samkeppni og óhagkvæmni smæðarinnar

Samkeppnismál

Samkeppnismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samkeppni og óhagkvæmni smæðarinnar

Ísland er smáríki samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum og er ekki langt frá því að teljast örríki þó þau viðmið séu meira á reiki. Í samkeppnisrétti eru lítil hagkerfi skilgreind sem sjálfstæð og fullvalda þjóðríki sem aðeins bera lítinn fjölda samkeppnisaðila. Ísland raðast neðarlega á alla mælikvarða um stærð hagkerfa, sem eru fólksfjöldi, íbúadreifing og samþætting efnahagslífs við nágrannalönd, enda er landið fámennt, dreifbýlt og landfræðilega einangrað. Lítil hagkerfi einkennast oft af mikilli samþjöppun í atvinnulífinu, miklum aðgangshindrunum að mörkuðum og óhagkvæmri stærð fyrirtækja á heimamarkaði. Hagkerfi Íslands líður fyrir að eftirspurn er ekki nægjanleg til að tryggja æskilega stærðarhagkvæmni í framleiðslu nema í tilviki öflugra útflutningsgreina. Ísland er með öðrum orðum óhagkvæm rekstrareining.

Ísland er smáríki samkvæmt öllum alþjóðlegum mælikvörðum og er ekki langt frá því að teljast örríki þó þau viðmið séu meira á reiki. Í samkeppnisrétti eru lítil hagkerfi skilgreind sem sjálfstæð og fullvalda þjóðríki sem aðeins bera lítinn fjölda samkeppnisaðila. Ísland raðast neðarlega á alla mælikvarða um stærð hagkerfa, sem eru fólksfjöldi, íbúadreifing og samþætting efnahagslífs við nágrannalönd, enda er landið fámennt, dreifbýlt og landfræðilega einangrað. Lítil hagkerfi einkennast oft af mikilli samþjöppun í atvinnulífinu, miklum aðgangshindrunum að mörkuðum og óhagkvæmri stærð fyrirtækja á heimamarkaði. Hagkerfi Íslands líður fyrir að eftirspurn er ekki nægjanleg til að tryggja æskilega stærðarhagkvæmni í framleiðslu nema í tilviki öflugra útflutningsgreina. Ísland er með öðrum orðum óhagkvæm rekstrareining.

Ein stærð fyrir alla?
Íslensk samkeppnislöggjöf er að mestu byggð á samsvarandi Evrópusambandslöggjöf enda varðar umfjöllunarefnið innri markað Evrópska efnahagssvæðisins. Hugmyndafræðilega er löggjöfin nær alfarið byggð á reglum sem hafa verið samdar og þróaðar við allt aðrar efnahagslegar aðstæður en ríkja hér á landi. Engu að síður hafa yfirvöld hérlendis lítið hvikað frá þeim línum sem lagðar hafa verið á meginlandi Evrópu varðandi beitingu og túlkun umræddra reglna og er víða stuðst við erlend fordæmi við framkvæmd samkeppnislöggjafarinnar.

Umfjöllun um séríslenskar aðstæður, að veita þurfi fyrirtækjum ákveðið svigrúm eða taka tillit til fleiri sjónarmiða, eins og stærðarhagkvæmni og alþjóðlegrar samkeppnishæfni, hafa þannig vikið fyrir hálfgerðri ein-stærð-passar-öllum lausn. Þannig hefur hvorki verið látið reyna á mögulegar aðlaganir frá ESB löggjöf né hafa stjórnvöld gert tilraun til að nýta sér það svigrúm sem er fyrir hendi. Þvert á móti virðist litið svo á að vegna smæðar og samþjöppunar markaða þurfi regluverkið að vera enn ítarlegra og að þörf sé fyrir stífara eftirlit og meiri íhlutun en annars staðar.

Þegar því er haldið fram að sömu reglur geti átt við alla óháð stærð er vert að hafa í huga að fæst smáríki í Evrópu falla undir þá skilgreiningu að vera lítil lögsaga í samkeppnislegu tilliti, þar sem þau eru efnahagslega samofin í stærri hagkerfi. Þetta gildir um Andorra og Spán, Mónakó og Frakkland, og Liechtenstein og Sviss. Einnig hefur verið fjallað um Nýja Sjáland, Singapore og Ísrael  sem smáríki í samkeppnislegu tilliti þrátt íbúafjölda á bilinu 4-8 milljónir. Í umfjöllun um þessi ríki er áhersla lögð á sérstakar aðstæður minni ríkja í samkeppnislegu tilliti, svo sem hver sé ákjósanlegur fjöldi keppinauta til að tryggja stærðarhagkvæmni og hvað kemur neytendum best. Það gleymist oft að það er efnahagslífið og neytendur sem greiða fyrir óhagkvæma framleiðslu. Þá hafa mörg smáríki talið sig þurfa að taka tillit til alþjóðlegrar samkeppnishæfni atvinnulífsins við stefnumótun á sviði samkeppnislöggjafar. Ef til vill mætti líta til reynslu þeirra, þó ekki væri nema til að skoða málin frá öðru sjónarhorni.

Betri vörur á lægra verði
Íslensk fákeppni og mögulegur skortur á samkeppni er í grunninn fyrst og fremst vandamál vegna ytri aðstæðna. Legu landsins, íbúafjölda eða íbúadreifingu verður ekki breytt en hægt er að lagfæra innri aðstæður. Hægt er að stefna að samfélagslegri sátt um hvaða hagsmuni beri að hafa að leiðarljósi við beitingu og framkvæmd samkeppniseftirlits og hefjast handa við að lagfæra almenn rekstrarskilyrði fyrirtækja í landinu.

Tilgangurinn með samkeppnislöggjöf er að skila betri vöru og þjónustu á lægra verði til neytenda. Við verðum þó að horfast í augu við að hér á landi verða ávallt fáir stórir keppinautar á sumum mörkuðum og getur það í sumum tilvikum jafnvel verið æskilegt. Spurningin er hvernig skapa má samkeppnisskilyrði fyrirtækja í landinu þannig að neikvæð áhrif smæðar Íslands sé lágmörkuð.  Markmiðið hlýtur að vera að stuðla að framúrskarandi árangri fyrirtækja í örríkinu Íslandi þrátt fyrir óhagkvæmni smæðarinnar.

Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 5. febrúar 2015

Samtök atvinnulífsins