Vinnumarkaður - 

21. apríl 2004

Samið við verslunarmenn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samið við verslunarmenn

Undirritaður hefur verið kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hins vegar. Samningurinn gildir frá 16. apríl 2004 og líkt og fyrri samningar sem SA hafa gert að undanförnu gildir hann til ársloka ársins 2007. Breytingar á lífeyrisgreiðslum og almennar launahækkanir eru einnig þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu og forsendur samningsins ennfremur þær sömu. Loks eru almennar launahækkanir þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu.

Undirritaður hefur verið kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Verzlunarmannafélags Reykjavíkur hins vegar. Samningurinn gildir frá 16. apríl 2004 og líkt og fyrri samningar sem SA hafa gert að undanförnu gildir hann til ársloka ársins 2007. Breytingar á lífeyrisgreiðslum og almennar launahækkanir eru einnig þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu og forsendur samningsins ennfremur þær sömu. Loks eru almennar launahækkanir þær sömu og í öðrum samningum sem gerðir hafa verið að undanförnu.

Laun hækka sem hér segir:

16. apríl  2004               3,25%

1. janúar 2005               3,00%

1. janúar 2006               2,50%

1. janúar 2007               2,25%

Aðrir kjaratengdir liðir taka sömu breytingum hlutfallslega á sömu dagsetningum, nema um annað hafi samist.

Hækkun taxta

Launataxtar hækka nokkuð og við upphaf samningstímans verða byrjunarlaun afgreiðslufólks í verslunum 98.428 krónur, en 108.075 krónur eftir sex mánuði hjá fyrirtækinu. Byrjunarlaun sérþjálfaðra starfsmanna verslana sem geta unnið sjálfstætt, sýna frumkvæði og fela má verkefnaumsjón verða við upphaf samningstímans 102.857 krónur, en 112.938 eftir sex mánuði hjá fyrirtækinu. Grundvallarlaun skrifstofufólks verða 110.000 krónur, en 120.000 eftir þrjú ár í starfsgrein.

Nýtt eftirvinnuálag

Nýtt álag er tekið upp, það er 40% álag á tímakaup í dagvinnu fyrir vinnu utan dagvinnutímabils upp að fullum dagvinnuskilum á mánuði, og er það nefnt eftirvinnuálag. Til þess að tryggja lágmarkshækkun samkvæmt kjarasamningi þarf í vissum tilvikum að endurskoða grunnlaun starfsmanna sem fengið hafa greitt fullt yfirvinnuálag fyrir vinnu utan dagvinnutímabils en fá greitt 40% eftirvinnuálag eftir gildistöku samningsins. Með þessu má segja að álagsgreiðslur séu að hluta til færðar inn í dagvinnulaun.

Frí í stað uppbóta, frídagar í desember o.fl.

Heimilt er með samkomulagi milli starfsmanns og vinnuveitanda að fella niður eða lækka orlofsuppbót og desemberuppbót og veita samsvarandi frí í staðinn, sem tekur mið af launum hvers og eins. Frí þetta skal veita í heilum eða hálfum dögum.

Með samningnum eru jafnframt tveir frídagar, sem veittir voru vegna lengri vinnutíma í desember, felldir úr samningi. Við þá breytingu fá fastráðnir starfsmenn, sem eru í a.m.k. 50% starfi við undirritun samningsins, og taka laun ofan við samningsbundna launataxta, 0,5% hækkun á grunnlaun. Þeir starfsmenn hafa þó rétt til að taka tvo frídaga vegna lengri vinnutíma í desember án launa. Vinnuveitanda og starfsmanni er þó heimilt að gera samkomulag um að starfsmaður haldi rétti til tveggja frídaga vegna lengri vinnutíma í desember, án ofangreindrar launahækkunar.

Loks er heimilt með samkomulagi milli vinnuveitanda og starfsmanns að greiða fyrir vinnu, sem unnin er utan dagvinnutíma, með fríum á dagvinnutímabili, enda sé þá verðgildi unninna vinnutímaeininga þeirra, er utan dagvinnu falla, lagt til grundvallar.

Lífeyrismál

Þá hækkar framlag atvinnurekenda í samtryggingarlífeyrissjóð sem fyrr segir með sama hætti og í öðrum samningum sem SA hafa gert að undanförnu. Framlagið hækkar í 7,0% frá 1. janúar 2005 og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,0% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns. Frá 1. janúar 2007 hækkar iðgjald atvinnurekenda til samtryggingarlífeyrissjóðs í 8,0% samhliða 0,45% lækkun almenns tryggingagjalds.

Fræðslumál

Þá var samið um áframhaldandi rekstur Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks með óbreyttu sniði, en vinnuveitendur greiða 0,15% af launum félagsmanna í sjóðinn og stéttarfélögin þriðjung þess á móti. Fyrirtæki geta sótt um að framlagið til sjóðsins lækki í 0,05%, enda verji þau sambærilegum eða meiri fjármunum til starfsmenntamála. Ennfremur lýsa samningsaðilar því yfir að þeir eru fylgjandi hugmyndum um að starfsmenn fyrirtækja geti stofnað sérstaka menntareikninga, og eru reiðubúnir til að vinna að því með stjórnvöldum að slíkir reikningar verði með sömu skattalegu meðferð og séreignarsjóðir lífeyrissjóðanna.

Sjá samninginn (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins