Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja
Í samtímanum er vaxandi fylgi við þá skoðun að fyrirtækjum beri að leggja umtalsvert af mörkum til sjálfbærrar þróunar efnahagslífsins og samfélagsins í heild á breiðum forsendum, jafnframt því sem viðurkennt er að þetta sé ein af forsendum alþjóðavæðingar.
Frumkvæði ESB
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) átti árið 2002 frumkvæði
að því að kalla saman hagsmunaaðila innan ESB til að fjalla um eðli
og inntak félagslegrar ábyrgðar fyrirtækja. Sjálf hefur
framkvæmdastjórnin skilgreint félagslega ábyrgð fyrirtækja sem þær
skuldbindingar sem fyrirtæki kjósa að taka á sig gagnvart
starfsfólki, umhverfi og viðskiptavinum umfram það sem kveður á um
í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum. Eðli þessarar
skilgreiningar samkvæmt er óhugsandi að setja bindandi reglur um
efnið, hvort heldur er innan einstakra ríkja eða ESB í heild, þar
sem sjálfviljugi þátturinn yrði þar með merkingarlaus.
Umræðan um félagslega ábyrgð fyrirtækja hefur fyrst og fremst
beinst að starfsemi stórra fjölþjóðlegra fyrirtækja og þá aðallega
umsvifum þeirra í þróunarríkjum þar sem fyrirtæki búa víða við mjög
frumstæða löggjöf.
Haustið 2002 var formlega sett á laggirnar samráðstefna ESB um félagslega ábyrgð fyrirtækja. Samkvæmt upphaflegum hugmyndum framkvæmdastjórnarinnar átti fjórðungur fulltúa að vera frá fyrirtækjum og afgangurinn fulltrúar margvíslegra félagasamtaka innan ESB. Niðurstaðan varð þó sú að sérstaða atvinnulífsins í þessu samhengi var viðurkennd og því boðið að tilnefna helming fulltrúanna á samkomunni.
Ekki von á löggjöf
Almennt samkomulag er um að fara sjálfviljugu leiðina og leggja
áherslu á kynningar og leiðbeinandi dæmi um fyrirmyndar hegðun. Sú
skoðun að einhvers konar rammalöggjöf á vettvangi ESB (og þar með
hugsanlega á vettvangi EES) með tilheyrandi viðurlögum sé
nauðsynleg hefur a.m.k. til þessa átt sér fáa formælendur.
Ráðstefnu ESB á að ljúka næsta vor. Ekki er gert ráð fyrir tillögum eða formlegum niðurstöðum af öðru tagi. Gengið er út frá því að niðurstöður ráðstefnunnar verði í formi frásagna af umræðum ásamt greinargerðum um eftirbreytniverð dæmi og vísbendingum um mögulegar leiðir til aukinnar félagslegrar ábyrgðar í rekstri fyrirtækja. Málið getur varla snúist um hvaða eða hvers konar kröfur fólk og byggðarlög geti gert til fyrirtækja, stórra sem smárra. Það getur ekki heldur snúist um hvað fyrirtækjum beri að gera eða ekki til að ýta undir pólitísk markmið hvort heldur er í byggðamálum, umhverfismálum eða félagsmálum almennt. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að málið snúist um sjálfviljugar aðgerðir og þar með almenn viðmið og eftirbreytniverð fordæmi.
Sameiginlegir heildarhagsmunir
Félagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið á dagskrá um langa
hríð. Mörg samtök vinnuveitenda innan ESB hafa gefið út
leiðbeiningar um hegðun fyrirtækja í samfélaginu, fyrst vegna
rekstrar í þróunarríkjum og seinni árin á heimavelli. OECD, ILO og
Sameinuðu þjóðirnar hafa og gefið út leiðbeiningar og fordæmi að
fara eftir.
Markmið umræðunnar um félagslega ábyrgð fyrirtækja er að skapa forsendur fyrir gagnkvæmum jákvæðum viðhorfum og undirstrika sameiginlega heildarhagsmuni þjóða og byggðarlaga þegar kemur að þáttum sem ekki geta talist hluti af daglegum rekstri eða lagalegum skyldum vinnuveitenda.
Sjá grænbók framkvæmdastjórnarinnar um félagslega ábyrgð fyrirtækja.