Vinnumarkaður - 

17. Febrúar 2020

Sameinuð í fjölbreytileika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sameinuð í fjölbreytileika

Íbúum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár og hefur þátttaka þeirra á vinnumarkaði verið lykilþáttur í að skapa hagvöxt síðustu ára. Næstum fjórði hver starfsmaður á Íslandi er erlendur og er atvinnuþátttaka þeirra mjög há, eða 94%, samanborið við 77% hjá innfæddum.[1]

Íbúum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár og hefur þátttaka þeirra á vinnumarkaði verið lykilþáttur í að skapa hagvöxt síðustu ára. Næstum fjórði hver starfsmaður á Íslandi er erlendur og er atvinnuþátttaka þeirra mjög há, eða 94%, samanborið við 77% hjá innfæddum.[1]

Reynslan frá tíma fjármálakreppunnar er að flestir innflytjendur ílengjast hér þótt atvinnuástand versni um hríð, enda eru laun á Íslandi mun hærri en í heimalöndum þeirra og atvinnuleysi lítið til lengri tíma litið. Meðallaun á Íslandi eru t.d. fimm til sex sinnum hærri en í Póllandi og kaupmáttur þeirra rúmlega tvöfalt meiri, þegar tekið er tillit til verðlags.[2] Innflytjendur undanfarinna ára koma einkum frá A-Evrópu og eru Pólverjar langflestir.

Erlendir starfsmenn senda stóran hluta ráðstöfunartekna sinna til heimalandanna. Árið 2019 fluttu þeir um 35 milljarða króna úr landi eða sem svaraði tæplega 900 þúsund krónum á hvern starfandi erlendan ríkisborgara. Það samsvarar 73 þúsund krónum í hverjum mánuði. Til samanburðar sendu erlendir starfsmenn 4 milljarða króna til heimalanda sinna árið 2014, sem samsvarar 18 þúsund krónum á mánuði á hvern starfandi erlendan ríkisborgara það ár. Þessar tölur bera bæði vitni um mikla sparnaðarhneigð erlendra starfsmanna og kaupmáttaraukningu launa þeirra á tímabilinu.[3]

Vinnuaflsfrekur hagvöxtur
Hagvöxtur undanfarins áratugar var knúinn af þjónustugreinum, einkum ferðaþjónustu, og krafðist mikillar fjölgunar starfsmanna. Í heild jókst landsframleiðsla um 34% milli 2010 og 2019 og á sama tíma fjölgaði starfsfólki á vinnumarkaði um 24%. Árlegur hagvöxtur á þessu tímabili var að meðaltali 3,4%, meðalfjölgun starfsmanna 2,4% og framleiðni vinnuafls, þ.e. árlegur hagvöxtur á hvern starfsmann, jókst því að meðaltali um 0,9%. Framleiðniaukning liðins áratugar var því töluvert minni en síðustu áratugi.

Á þessu ári og næstu tveimur er spáð 6% raunvexti landsframleiðslu og 5% íbúafjölgun, þannig að landsframleiðsla á mann aukist að jafnaði um minna en 1% á ári. Það er hægur vöxtur framleiðni sögulega séð í ljósi þess að hún hefur aukist um 1,5-2% að jafnaði yfir lengri tíma. Kaupmáttur launa getur til langs tíma ekki aukist umfram framleiðnivöxt hagkerfisins og við blasir að lítið svigrúm er fyrir kjarabætur á næstu árum, þ.e. aukinn kaupmátt launa.

Innfæddum fjölgar hægt en aðfluttum fjölgar
Íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri fjölgar hægt og enn hægar framvegis. Árgangarnir sem koma inn á vinnumarkaðinn eru litlu stærri en þeir sem hverfa brott vegna aldurs. Hver árgangur næstu 10 ár telur að jafnaði um 5.000 manns en þeir sem falla brott vegna aldurs eru um 4.500. Að auki hefur flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara verið neikvæður undanfarna áratugi og gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir því að svo verði áfram. Íslenskum ríkisborgurum sem starfa á Íslandi mun því ekki fjölga sem neinu nemur á næstu árum sem er ekki nýtt. Íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri fjölgaði aðeins um 200 á ári að jafnaði síðustu fimm ár og um 350 á ári síðustu 10 ár. Lágspá mannfjöldaspár Hagstofunnar, sem gerir m.a. ráð fyrir litlum hagvexti á næstu árum, miðar við að aðfluttir umfram brottflutta verði að jafnaði 500 árlega og því fjölgi erlendum ríkisborgurum áfram.

Meiri atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara
Í upphafi aldarinnar, þann 1. janúar 2001, bjuggu innan við 9.000 erlendir ríkisborgarar á landinu. Það samsvaraði 3% íbúafjöldans. Þann 1. janúar 2020 má ætla að erlendir ríkisborgarar hafi verið rúmlega 49 þúsund eða 14% íbúa. Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur því næstum sexfaldast á tæpum tveimur áratugum.[4]

Erlendir ríkisborgarar sem flytjast til Íslands koma langflestir í atvinnuleit. Undanfarin ár hafa um 90% þeirra sem til landsins koma verið á aldrinum 20-59 ára. Árið 2019 voru erlendir ríkisborgarar einn af hverjum fimm íbúum á vinnualdri en árið 2005 voru þeir einn af hverjum tuttugu. Hlutdeild erlendra ríkisborgara á þessu aldursbili hefur þannig fjórfaldast á einum og hálfum áratug.

Atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er hærri en íslenskra, eða 94% á aldursbilinu 20-59 ára, samanborið við 79% hjá íslenskum. Árið 2019 voru erlendir ríkisborgarar 23% af heildarvinnumarkaði á aldrinum 20-59 ára, samanborið 7% árið 2005.

 

Hraðari fjölgun erlendra ríkisborgara en í Svíþjóð
Á undanförnum árum hefur Svíþjóð tekið á móti hlutfallslega mörgum flóttamönnum, einkum í tengslum við átökin í Sýrlandi. Einnig hafa Svíar vakið athygli fyrir skýra stefnumörkun í innflytjendamálum og hvernig staðið hefur verið að aðlögun nýrra íbúa að sænsku samfélagi.

Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúafjölda í Svíþjóð hækkaði úr 9% í 11% en á Íslandi úr 7% í 14% frá 2014 til 2019. Hlutfall erlendra ríkisborgara hækkaði þannig um tvær prósentur í Svíþjóð en sjö prósentur á Íslandi. Þessar tölur sýna að viðfangsefni Íslands við aðlögun innflytjenda er margfalt stærra en Svíþjóðar.

Munurinn er enn meira sláandi þegar fjöldi á vinnualdri er borinn saman. Erlendir ríkisborgarar í Svíþjóð á aldrinum 20-59 ára eru 12% íbúa en 20% á Íslandi. Munurinn á atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara milli landanna er einnig mjög mikill þar sem hún er um 50% í Svíþjóð en yfir 90% á Íslandi. Hlutdeild starfandi erlendra ríkisborgara á aldrinum 20-59 ára á vinnumarkaði er aðeins 8% í Svíþjóð en 23% á Íslandi. Hlutdeild erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er því næstum þrefalt hærri á Íslandi en í Svíþjóð.

Nú þegar harðnar á dalnum vex atvinnuleysi hraðar meðal erlendra ríkisborgara en íslenskra. Í árslok síðasta árs voru erlendir ríkisborgarar 40% atvinnulausra en voru 20% fyrir fjórum árum.[5] Hlutdeild útlendinga á atvinnuleysiskrá hefur vaxið jafnt og þétt samhliða fjölgun þeirra á vinnumarkaðnum. Þróunin er áhyggjuefni og kallar á viðbrögð stjórnvalda til að snúa henni við. Ef illa fer gæti stór hluti þessa hóps fallið brott af vinnumarkaði og þurft á framfærsluaðstoð frá öðrum stuðningskerfum að halda, s.s. félagsaðstoð sveitarfélaga eða örorkulífeyri. Rétt er að taka fram að hlutfallslega færri erlendir ríkisborgarar njóta nú slíkrar aðstoðar en íslenskir.

Erlendu starfsfólki gæti fjölgað um 14-32 þúsund til ársins 2030
Hækkandi meðalaldri þjóðarinnar fylgir að íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri mun fjölga enn hægar á næstu árum og áratugum. Gera má ráð fyrir að Íslendingum á aldrinum 20-59 ára fjölgi um 5.000 á næstu 10 árum, úr 160.000 í 165.000. Það dugar skammt til að manna störf framtíðarinnar sem knýja eiga hagvöxt komandi ára. Því má búast við að erlendum ríkisborgurum haldi áfram að fjölga. Lauslegur framreikningur gefur til kynna að verði hagvöxtur fremur lítill næsta áratuginn, 1,5% að jafnaði árlega, og jafnframt vinnuaflsfrekur eins og undanfarin ár, gætu erlendir starfsmenn orðið 14.000 fleiri árið 2030 en þeir eru nú. Verði hagvöxtur á hinn bóginn kröftugur, 3% á ári að jafnaði, gæti þeim fjölgað um 32.000. Í fyrri sviðsmyndinni, hægum vexti, yrðu erlendir ríkisborgarar 25% af aldurshópnum 20-59 ára og 31% verði hagvöxtur kröftugur.

Rík þörf áfram fyrir erlenda starfsmenn
Breytingin á íbúasamsetningu landsins síðustu ár á sér ekki hliðstæðu í sögunni. Erlendir ríkisborgarar eru 14% íbúa á Íslandi og þeim mun enn fjölga á næstu árum. Rík þörf hefur verið fyrir erlenda starfsmenna á íslenskum vinnumarkaði á síðustu árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er enn hærra þegar aðeins er horft til vinnumarkaðarins. Um 23% alls starfsfólks á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar, sumir með takmarkaða íslenskukunnáttu. Það leiðir óhjákvæmilega til þess að samskipti fara í auknum mæli fram á ensku. Setja þarf skýra stefnu um hvernig hlúð verður að tungumálinu á sama tíma og aðlögun að aukinni fjölbreytni í uppruna íbúa á sér stað. Gæta verður þess að samfélög innflytjenda einangrist ekki, m.a. vegna tungumálsins. Efla þarf þjónustu við innflytjendur og tryggja þeim möguleika á aðlögun að íslensku samfélagi og menningu.

Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. Í skólunum þarf að þróa frekar aðferðir við að taka vel á móti fjöltyngdum nemendum. Styðja þarf sérstaklega við börn innflytjenda svo þau standi jafnfætis innfæddum. Þarna þurfa allir að leggja hönd á plóg. Starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins geta t.a.m. aukið enn frekar stuðning við íslenskukennslu.

Ísland verður aldrei aftur það einsleita samfélag sem áður var. Frjálst flæði vinnuafls innan Evrópu og aukinn hreyfanleiki fólks á milli landa hefur breytt samsetningu íbúa landsins til frambúðar líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Lykilatriði er að skólakerfið og vinnumarkaðurinn takist á við áskoranir sem því fylgja. Forsendan er að tryggja þátttöku sem flestra í samfélaginu. Virk þátttaka eflir framfærslu- og stuðningskerfi, sem byggð voru upp við aðrar aðstæður en nú ríkja. Innflytjendur auðga ekki aðeins menningu og mannlíf heldur bæta þeir um leið eigin lífskjör og þeirra sem fyrir eru. Virk þátttaka tryggir fleiri greiðendur í sameiginlega sjóði, bæði hins opinbera og lífeyrissjóði, á sama tíma og lífeyrisþegum fjölgar. Það er beinlínis nauðsynlegt að fá þessa innspýtingu vinnandi fólks. Því verður að vanda til verka við móttöku og aðlögun innflytjenda og þeir verða að fá sömu tækifæri og heimamenn, aðgang að tungumálakennslu, menntun og virkri þátttöku í íslensku samfélagi.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.


[1] Í þessari grein er miðað við aldurshópurinn 20-59 ára og miðast atvinnuþátttaka við þann hóp.

[2] Heimildir: OECD, Taxing Wages 2019 og Main Economic Indicators 2019/12. Þar kemur fram að meðalárslaun 2018 hafi verið um 500 þús.kr. á mánuði á Íslandi og 3.000 zloty í Póllandi, sem samsvarar 90 þús.kr. á gengi ársins. Verðlag á Íslandi var 2,6 sinnum hærra. Laun á Íslandi voru þannig 5,6 sinnum hærri en í Póllandi en kaupmáttur þeirra 2,2 faldur.

[3] Heimild: Hagtölur Seðlabankans. https://www.sedlabanki.is/hagtolur/nanar/2019/12/02/Greidslujofnudur-vid-utlond/?stdID=1

[4] Á 3. ársfjórðungi 2019 voru erlendir ríkisborgarar 48.640 eða sem nam 13,4% íbúa, en íbúafjölgun síðustu þriggja mánaða ársins er áætluð.

[5] https://www.vinnumalastofnun.is/maelabord-og-tolulegar-upplysingar/atvinnuleysi-tolulegar-upplysingar/atvinnuleysistolur-i-excelskjolum

Samtök atvinnulífsins