Vinnumarkaður - 

07. Oktober 2004

Sameiginleg sýn á félagslega ábyrgð fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sameiginleg sýn á félagslega ábyrgð fyrirtækja

Hugtakið félagsleg ábyrgð fyrirtækja (e. corporate social responsibility) hefur undanfarin ár verið til umfjöllunar á vettvangi Evrópusambandsins (ESB), líkt og fjallað hefur verið um á vef Samtaka atvinnulífsins. Sjálf hefur framkvæmdastjórn ESB skilgreint félagslega ábyrgð fyrirtækja sem þær skuldbindingar sem fyrirtæki kjósa að taka á sig gagnvart starfsfólki, umhverfi og viðskiptavinum umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum.

Hugtakið félagsleg ábyrgð fyrirtækja (e. corporate social responsibility) hefur undanfarin ár verið til umfjöllunar á vettvangi Evrópusambandsins (ESB), líkt og fjallað hefur verið um á vef Samtaka atvinnulífsins. Sjálf hefur framkvæmdastjórn ESB skilgreint félagslega ábyrgð fyrirtækja sem þær skuldbindingar sem fyrirtæki kjósa að taka á sig gagnvart starfsfólki, umhverfi og viðskiptavinum umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum.

Víðtækt samráð hagsmunaaðila

Fyrr á þessu ári skilaði víðtækur samráðsvettvangur um málið lokaskýrslu sinni til framkvæmdastjórnarinnar, en samráðs-vettvanginn skipuðu ýmis samtök atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og annarra hagsmunasamtaka, t.d. grænfriðunga og neytenda, undir stjórn framkvæmda-stjórnarinnar. Meðal aðila að samráðsvettvangnum voru UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, sem Samtök atvinnulífsins eiga aðild að.

Þótt skoðanir hafi vissulega verið skiptar er það vissulega ánægjulegt að þessi víðtæki samráðsvettvangur ólíkra hagsmunaaðila skuli hafa skilað sameiginlegri lokaskýrslu, en á henni mun framkvæmdastjórn ESB byggja næstu skref í þessari umfjöllun.

Sameiginlegar skilgreiningar

Segja má að grunnskilgreining samráðsvettvangsins á hugtakinu félagsleg ábyrgð fyrirtækja sé sú sama og fyrrnefnd skilgreining framkvæmdastjórnar ESB, að því viðbættu að tekið er fram að umræddar skuldbindingar sem fyrirtækin kjósi að taka á sig komi ekki í stað þess sem kveðið sé á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum.

Meðal annars sem skilgreint er sem skilningur samráðs-vettvangsins á hugtakinu félagsleg ábyrgð fyrirtækja má nefna:

            - að félagsleg ábyrgð snúi að kjarnastarfsemi fyrirtækja

            - að hlutverk fyrirtækja sé að skila arði, en á sama tíma sé líklegt að stefna fyrirtækja sem taki mið af umhverfis- og félagslegum sjónarmiðum muni stuðla að sterkari stöðu atvinnulífsins í samfélaginu til langs tíma litið

            - að félagsleg ábyrgð fyrirtækja sé lærdómsferli þar sem ólík sjónarmið eigi við um ólík fyrirtæki og aðstæður

            - að félagslegri ábyrgð fyrirtækja séu takmörk sett og að opinberir aðilar beri ábyrgð á félagslegri þróun og á sviði umhverfismálum þótt fyrirtæki taki ábyrga afstöðu á þessum sviðum.

Ekki lengur bara beint til stórfyrirtækja

Í tilmælum lokaskýrslunnar kennir ýmissa grasa. Má þar m.a. nefna að sérstaklega er tekið fram að þeim sé m.a. beint til lítilla og meðalstórra fyrirtækja skv. evrópskum viðmiðum, en hingað til hefur þessi umræða innan ESB um félagslega ábyrgð fyrirtækja einkum beinst að stórum fyrirtækjum með starfsemi í mörgum löndum, og þá fyrst og fremst að starfsemi þeirra í þróunarríkjum.

Meðal annarra tilmæla lokaskýrslunnar má nefna:

            - að frekari þverfaglegar rannsóknir verði gerðar á félagslegri ábyrgð fyrirtækja, m.a. með tilliti til áhrifa á samkeppnishæfni og sjálfbæra þróun

            - að mikilvægt sé að fyrirtæki taki mið af eigin stærð, starfsemi, kostnaði og öðrum samkeppnissjónarmiðum við mótun stefnu á þessu sviði

            - að allir hagsmunaaðilar starfi saman að því að auka framboð á upplýsingaefni um félagslega ábyrgð fyrirtækja og að koma þessum sjónarmiðum á framfæri.

Sameiginlegur umræðugrundvöllur

Þannig mætti lengi telja enda lokaskýrslan alls um 130 blaðsíður, með fylgiskjölum, og sem fyrr segir kennir þar vissulega ýmissa grasa. Mestu skiptir þó, að með þessari skýrslu hefur verið skilgreindur grundvöllur þessarar umræðu þar sem þessir fjölmörgu ólíku hagsmunaaðilar hafa nú komið sér saman um helstu skilgreiningar og sjónarmið og sett þau á blað í einni skýrslu, en hingað til hefur umræðan um félagslega ábyrgð fyrirtækja oft liðið fyrir mismunandi hugtakanotkun og samhengi, ekki síst hér á landi.

Sjá nánar um samráðsvettvanginn.

Sjá lokaskýrslu samráðsferlisins (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins