Efnahagsmál - 

30. nóvember 2012

Sækjum fram

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sækjum fram

Indriði H. Þorláksson hefur birt greinar í Fréttablaðinu í vikunni um að þrátt fyrir að skatthlutföll allra helstu tekjustofna ríkisins hafi hækkað undanfarin ár þá hafi skattar í rauninni lækkað. Þessa snjöllu ályktun setur hann fram í tilefni útgáfu rits SA Ræktun eða rányrkja? Með samanburði á skatttekjum ríkisins á föstu verðlagi milli áranna 2005 og áætlaðra tekna fyrir 2013 ályktar hann að tekjuskattur einstaklinga hafi lækkað þrátt fyrir að tekjuskattshlutfallið hafi hækkað og skattþrepum fjölgað. Með sömu nálgun má komast að því að tekjuskattur fyrirtækja hafi lækkað þrátt fyrir hækkun hlutfallsins úr 18% í 20% og að virðisaukaskattur hafi lækkað þrátt fyrir hækkun almenna þrepsins úr 24,5% í 25,5%.

Indriði H. Þorláksson hefur birt greinar í Fréttablaðinu í vikunni um að þrátt fyrir að skatthlutföll allra helstu tekjustofna ríkisins hafi hækkað undanfarin ár þá hafi skattar í rauninni lækkað. Þessa snjöllu ályktun setur hann fram í tilefni útgáfu rits SA Ræktun eða rányrkja? Með samanburði á skatttekjum ríkisins á föstu verðlagi milli áranna 2005 og áætlaðra tekna fyrir 2013 ályktar hann að tekjuskattur einstaklinga hafi lækkað þrátt fyrir að tekjuskattshlutfallið hafi hækkað og skattþrepum fjölgað. Með sömu nálgun má komast að því að tekjuskattur fyrirtækja hafi lækkað þrátt fyrir hækkun hlutfallsins úr 18% í 20% og að virðisaukaskattur hafi lækkað þrátt fyrir hækkun almenna þrepsins úr 24,5% í 25,5%.

Ástæðan liggur í augum uppi. Tekjur fólks og fyrirtækja hafa dregist saman, atvinnuleysi aukist og störfum fækkað á þessu tímabili. Fjárfestingar eru í lágmarki.

Betri  lífskjör
Samtök atvinnulífsins hafa undanfarin ár barist fyrir því að meginmarkmið stjórnvalda ætti að vera að auka hagvöxt. Það sé besta leiðin til að endurheimta fyrri lífskjör. Þannig eigi m.a. að greiða fyrir erlendri fjárfestingu og virkjanaframkvæmdum, auka rekstraröryggi sjávarútvegsins, afnema hindranir í vegi uppbyggingu gagnavera, greiða fyrir nýsköpun, fjölga nýjum fyrirtækjum og hvetja fólk til að fjárfesta í atvinnulífinu. Þrátt fyrir að unnt hafi verið að semja við ríkisstjórnina um þessi mál hefur hún fundið upp nýja skilgreiningu á orðheldni og áformin fæst orðið að veruleika.

Aukin umsvif
SA kynntu nýlega rökstuddar tillögur um hógværar aðgerðir í skattamálum sem lagt er til að komi til framkvæmda á nokkrum árum. Í riti SA er lagt mat á þær fjárhæðir sem skattahækkanir undanfarinna ára hafa skilað ríkissjóði og skýrt út hvernig tölurnar eru fengnar. Í ljós kemur að skattahækkanir eru verulega umfram þau mörk sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld sömdu um til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á ný. Markmið tillagna SA er að auka umsvif í atvinnulífinu, efla fjárfestingu, fjölga störfum og bæta lífskjör í landinu. Aukin umsvif munu svo leiða til aukinna skattgreiðslna og verða til þess að hagur ríkissjóðs batni.

Engin leið er til þess að fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðalhöfundur 100 skattkerfisbreytinga ríkisstjórnarinnar verði sammála SA í þessum málum enda ekki til þess ætlast.

Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. nóvember 2012 og á Vísi. 

Samtök atvinnulífsins