Efnahagsmál - 

10. Desember 2009

SA vísað frá stöðugleikasáttmálanum?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA vísað frá stöðugleikasáttmálanum?

Starfsskilyrði atvinnulífsins eru til umfjöllunar hjá ríkisstjórn og Alþingi nú sem endranær. Þessa dagana er aðalmálið hvort Ísland kemst út úr kreppunni á næsta ári eða hvort hún heldur áfram einhver ár í viðbót. Í flestum nágrannalöndum okkar er reiknað með því að hagvöxtur verði á ný á næsta ári en hér á landi er reiknað með áframhaldandi samdrætti í efnahagslífinu.

Starfsskilyrði atvinnulífsins eru til umfjöllunar hjá ríkisstjórn og Alþingi nú sem endranær.  Þessa dagana er aðalmálið hvort Ísland kemst út úr kreppunni á næsta ári eða hvort hún heldur áfram einhver ár í viðbót.  Í flestum nágrannalöndum okkar er reiknað með því að hagvöxtur verði á ný á næsta ári en hér á landi er reiknað með áframhaldandi samdrætti í efnahagslífinu.

Hlutskipti ríkisstjórnarinnar og Alþingis er ekki öfundsvert vegna þess að Ísland glímir við stærri vanda en flestar nágrannaþjóðir.  Því skiptir miklu að vel takist til við landsstjórnina og endurreisn atvinnulífsins.  Lykilatriði er að tryggja nægar fjárfestingar í atvinnulífinu sem bæði skapar störf á meðan á uppbyggingu stendur og tryggir ný störf til framtíðar.  Starfsskilyrði atvinnulífsins þurfa að vera nægilega hagstæð til þess að fyrirtæki fjárfesti og skapi ný störf.  Atvinnulífið skapar störfin sem búa til verðmætin í samfélaginu og skattstofna til að nýta vegna samfélagslegra verkefna. 

Með stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní sl. lýsti ríkisstjórnin yfir vilja til þess að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að uppbyggingu í atvinnulífinu og þessi áform voru endurnýjuð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. október sl. í tengslum við framlengingu kjarasamninganna.

Því miður hefur ríkisstjórnin oft verið að vinna gegn sinni eigin stefnu og þannig komið fram sem sinn versti óvinur.  Tillögur í fjárlagafrumvarpi um orku-, umhverfis- og auðlindaskatta unnu gegn stórum fjárfestingaráformum í orkufrekri starfsemi og orkuframleiðslu og settu efnahagsáætlanir ríkisstjórnarinnar úr skorðum.  Mikil vinna fór í að ná niðurstöðu um það hvernig tekjuöflun ríkisins frá atvinnulífinu skyldi háttað og náðist mikill árangur í því þrátt fyrir að út af standi t.d. nýtt virðisaukaskattsþrep sem er óásættanlegt.  Frumvarp sjávarútvegsráðherra um veigamiklar breytingar á stjórn fiskveiða, þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar um að málin skuli rædd í sáttanefnd, er hluti af sama máli.

Nú hefur komið nýtt útspil frá ríkisstjórninni í skattamálum þar sem hún hyggst á nokkrum dögum nánast samráðslaust keyra í gegn veigamiklar breytingar á skattareglum atvinnulífsins.  Nokkrar þessar breytingar eru afar skaðlegar og draga þannig úr tekjuöflunarhæfni skattkerfisins til lengri tíma.  Þar er m.a. átt við takmörkun á skattfrelsi arðgreiðslna milli fyrirtækja og takmörkun á vaxtafrádrætti við skuldsettar yfirtökur.  Þessi áform eru mjög vanhugsuð og draga mjög úr árangri við endurskipulagningu atvinnulífsins vegna þess að þessar nýju reglur leiða til þess að fyrirtæki geta ekki með góðu móti átt minni hluti í öðrum fyrirtækjum og viðskipti með fyrirtæki með rúm eiginfjárhlutföll eru sérstaklega torvelduð.  Þrátt fyrir langar viðræður hefur ekki tekist að fá hnekkt áformum um nýtt virðisaukaskattsþrep sem mismunar gróflega milli fyrirtækja og atvinnugreina. 

Samtök atvinnulífsins hafa leitast við að halda góðum samskiptum við ríkisstjórnina og talið að hún væri að vinna í góðri trú að sameiginlegum hagsmunamálum.  En frumvarp sjávarútvegsráðherra, þvert á yfirlýsingar um sáttavilja, og tillögur um afdrifaríkar breytingar í skattaumhverfi atvinnulífsins sem ekki eru kynntar eða ræddar á meðan viðræður um skattamál atvinnulífsins standa yfir vikum saman vekja óneitanlega upp mikla tortryggni um heilindi ríkisstjórnarinnar í því samstarfi sem markað var með stöðugleikasáttmálanum.

Samtök atvinnulífsins hafa unnið með ríkisstjórninni af fullri ábyrgð gagnvart þeirri þörf að ná niður halla ríkissjóðs.  Það hefur legið fyrir að skattahækkanir eru óhjákvæmilegar og kalla á auknar álögur á atvinnulífið.  Samtök atvinnulífsins hafa leitað eftir útfærslu á skattahækkunum sem valda atvinnulífinu eins takmörkuðu tjóni og mögulegt er.  Þess vegna geta Samtök atvinnulífsins ekki unað þeim áformum um verulega skaðlegar breytingar á skattlagningu fyrirtækja sem nú liggja fyrir og þau geta heldur ekki unað frumvarpi sjávarútvegsráðherra um óábyrgar fiskveiðar til þess að hygla pólitískum vinum og vandamönnum sínum. Slíkt veldur þjóðinni miklum kostnaði til lengri tíma.

Samtök atvinnulífsins geta vart annað en litið svo á að ríkisstjórnin sé að vísa þeim frá stöðugleikasáttmálanum verði þessi mál knúin fram í fullkominni ósátt.  En hvort ríkisstjórnin vill eiga samstarf við Samtök atvinnulífsins eða ekki er í sjálfu sér aukaatriði miðað við það stóra hagsmunamál að starfsskilyrði atvinnulífsins verði með þeim hætti að Íslendingar komist út úr kreppunni á næsta ári en þurfi ekki að búa við hana til margra ára. 

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í desember má nálgast hér

Samtök atvinnulífsins