Efnahagsmál - 

06. Desember 2010

SA vilja samstarf um bætt lífskjör og aukna atvinnu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA vilja samstarf um bætt lífskjör og aukna atvinnu

Samtök atvinnulífsins funduðu síðdegis í dag með samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands utan svokallaðs Flóabandalags (Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis). Samtök atvinnulífsins kynntu samninganefnd SGS megináherslur SA vegna komandi kjarasamninga og samninganefnd SGS kynnti SA jafnframt sínar megináherslur og kröfur vegna þeirra kjaraviðræðna sem eru framundan.

Samtök atvinnulífsins funduðu síðdegis í dag með samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands utan svokallaðs Flóabandalags (Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis). Samtök atvinnulífsins kynntu samninganefnd SGS megináherslur SA vegna komandi kjarasamninga og samninganefnd SGS kynnti SA jafnframt sínar megináherslur og kröfur vegna þeirra kjaraviðræðna sem eru framundan.

Stefna SA miðar að því að ná samstöðu á vinnumarkaði um atvinnusköpun og bætt lífskjör. Forsenda fyrir því er að allir aðilar vinnumarkaðarins fari í sameiginlegan leiðangur og semji á svipuðum nótum til þriggja ára til að skapa grundvöll fyrir stöðugleika í launamálum og vinnufrið. SA telja það algjörlega ólíðandi að 14.250 séu nú án vinnu á Íslandi og vilja stuðla að því að atvinnuleysi verði kveðið niður sem allra fyrst.

Áherslur SGS eru birtar á vef samtakanna en í þeim segir m.a. að megin markmið samninganefndar SGS sé að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins á Íslandi haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu kjarabætur.

Kaupmáttur lægstu launa aukist um 80% frá 1995
SGS leggja áherslu á að almennar launahækkanir verði að koma til framkvæmda frá 1. desember 2010 og að lágmarkstekjur fyrir fulla dagvinnu verði kr. 200.000 frá sama tíma en það felur í sér 21% hækkun.

Fulltrúar SA bentu á að kaupmáttur lægstu launa hafi aukist um 80% frá árinu 1995 en kaupmáttur launa almennt hafi á sama tíma aukist um rúmlega 30%. Kjarasamningarnir sem gerðir voru í febrúar árið 2008  hafi jafnframt verið mestu láglaunasamningar sem gerðir hafi verið en með þeim hafi tekist að verja kaupmátt lægstu launa í gegnum kreppuna.

Í kjarasamningunum framundan vilja SA stefna að þeim árangri að kaupmáttur aukist með sem allra minnstum launahækkunum og skapaðar verði þær aðstæður að fyrirtæki geti ráðið fólk í vinnu og fjárfest. Hagur fólks muni vænkast mest með aukinni atvinnu og möguleikum á að hækka tekjur sínar með auknum umsvifum í efnahagslífinu.

SGS vill erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið
Samtök atvinnulífsins lögðu á það þunga áherslu á fundinum í dag að það sé lykilatriði að koma fjárfestingum í atvinnulífinu á Íslandi í gang á nýjan leik en hlutfall þeirra af landsframleiðslu er orðið hættulega lítið.

Í megináherslum samninganefndar SGS kemur fram að efnahagslegar og pólitískar forsendur verði að vera til staðar til að hægt sé að endurheimta kaupmáttinn. Sú ábyrgð hvíli á stjórnvöldum og Alþingi en SGS vilja stefna að stöðugum gjaldmiðli og skapa skilyrði fyrir erlendar fjárfestingar til að örva atvinnulífið. Séu þessar forsendur ekki til staðar verði að skapa þær með þverpólitískri samstöðu á næstu vikum og misserum.

Frekari fundir framundan á vinnumarkaði
Auk megináherslna lögðu SGS fram ítarlegar kröfur vegna einstakra sviða kjarasamningsins  sem verða ræddar á fundi SA og SGS í næstu viku.

Næstkomandi fimmtudag, 9. desember, munu aðilar vinnumarkaðarins hittast á sameiginlegum fundi á Hótel Nordica þar sem kallað verður eftir því hvort vilji sé til þess að ræða sameiginlega um tiltekin mál og leggja grunn að endurreisn atvinnulífsins. Fundarstjóri verður Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari.

Samtök atvinnulífsins