SA vilja að Seðlabankinn stígi inn í afskipti stjórnar VR af Lífeyrissjóði Verzlunarmanna

Samtök atvinnulífsins hafa ritað bréf til Seðlabanka Íslands þar sem fundið er að afskiptum stjórnar VR af Lífeyrissjóði Verzlunarmanna. Í bréfinu óskar SA eftir því að Seðlabankinn grípi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga. Þannig má tryggja að faglega verði staðið að fjárfestingaákvörðunum í sambandi við fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair.

Forsaga málsins er sú að þann 17. júlí síðastliðinn sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu vegna málefna Icelandair sem hafa verið í deiglunni. Þar er þeim tilmælum beint til þeirra fjögurra stjórnarmanna af átta, sem VR skipar í stjórn sjóðsins, að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Er það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hafi staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Í viðtali við Fréttablaðið sama dag sagði formaður VR aðspurður hvað gerist ef stjórnarmenn VR í sjóðnum fari ekki eftir tilmælum stjórnar VR að þeim verði einfaldlega skipt út eins og gert hafi verið ekki alls fyrir löngu. Að þessu hefur varaseðlabankastjóri fundið í fjölmiðlum og kallað ummælin bæði „óeðlileg og ófagleg.”

Með kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands var Icelandair að reyna að búa flugfreyjum sambærileg starfsskilyrði og tíðkast í nágrannalöndum okkar eins og bæði Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugvirkjafélag Íslands hafa fallist á. Með því er verið að reyna að tryggja samkeppnishæfni félagsins og standa þannig vörð um fjölda starfa hjá félaginu, og afleidd störf, sem mörg hver eru unnin af sjóðsfélögum í sjóðnum.

Með yfirlýsingu sinni frá 17. júlí er stjórn VR að reyna að taka beina stjórn á sjóðnum og þeim fyrirtækjum sem hann er hluthafi í þvert á lög, reglur og góða stjórnarhætti. Virðist þetta nú vera orðinn árviss viðburður stjórnarinnar, að sýna Seðlabankanum algera lítilsvirðingu og láta varnaðarorð aðstoðarseðlabankastjóra fjármálaeftirlits sem vind um eyru þjóta.

Samkvæmt lögum og eðli máls er sjóðurinn ekki í eigu eða undir stjórn VR heldur er hann til fyrir sjóðsfélaga hans og er stjórnað af stjórnarmönnum sem eiga að vera sjálfstæðir í störfum sínum gagnvart öllum, þar á meðal þeim sem tilnefna þau í stjórn, og fara að öllum lögum og reglum.

Hér má nálgast bréfið sem sent var á Seðlabankann í dag.